Dómkirkjan. Uppsöfnuð viðhaldsskuld sóknarinnar er tæpar 100 milljónir.
Dómkirkjan. Uppsöfnuð viðhaldsskuld sóknarinnar er tæpar 100 milljónir. — Morgunblaðið/Eggert
Stærstu sóknir þjóðkirkjunnar, sem eiga og reka höfuðkirkjur landsins, eru orðnar svo fjársveltar vegna langvarandi niðurskurðar sóknargjalda að Jöfnunarsjóður sókna hefur í raun breyst í neyðarstyrktarsjóð sókna. Þetta kemur fram í minnisblaði Odds Einarssonar, framkvæmdastjóra kirkjuráðs, um stöðu viðhalds fasteigna þjóðkirkjunnar og verkefni Jöfnunarsjóðsins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Stærstu sóknir þjóðkirkjunnar, sem eiga og reka höfuðkirkjur landsins, eru orðnar svo fjársveltar vegna langvarandi niðurskurðar sóknargjalda að Jöfnunarsjóður sókna hefur í raun breyst í neyðarstyrktarsjóð sókna. Þetta kemur fram í minnisblaði Odds Einarssonar, framkvæmdastjóra kirkjuráðs, um stöðu viðhalds fasteigna þjóðkirkjunnar og verkefni Jöfnunarsjóðsins.

Styrkir til viðhalds höfuðkirkna hafa verið langstærsta verkefni sjóðsins undanfarin ár. Upplýsingar úr ársreikningum sókna 2011-2017 og ályktun frá þeim tölum fyrir árin 2009-2010 benda til þess að uppsöfnuð viðhaldsskuld fasteigna sókna frá því að skerðing sóknargjalda hófst árið 2009 sé um þrír milljarðar. Þá er miðað við að eðlilegt reglubundið viðhald þurfi að nema 1,75% af brunabótamati eignanna. Sóknir þjóðkirkjunnar voru 266 talsins árið 2017.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sókna eru 18,5% af sóknargjöldum til þjóðkirkjusafnaða. Skerðing sóknargjalda hefur því bein áhrif á tekjur sjóðsins. Fjárheimild sjóðsins á gildandi fjárlögum er 402 milljónir en ætti að vera 645 milljónir samkvæmt lögum. Sjóðurinn er því skertur um 243 milljónir á þessu fjárlagaári eða um tæp 38%.

Sótt var um styrki úr sjóðnum upp á 865 milljónir króna á þessu ári. Viðhaldsskuld upp á 313 milljónir myndaðist á árinu 2017 en viðhaldsþörfin það ár var 537 milljónir króna. „Að óbreyttu þyrfti þannig að hækka framlög til sjóðsins upp í 850 m.kr. næstu tíu ár til að hann geti styrkt það sem upp á vantar af viðhaldi sóknanna á fasteignum sínum á þessu ári og unnið niður viðhaldsskuldir síðustu tíu ára,“ segir í minnisblaðinu.

37 sóknir í mikilli viðhaldsskuld

Skrá um sóknir þjóðkirkjunnar sem sýna uppsafnaða viðhaldsskuld upp á 20 milljónir eða meira á árunum 2011-2017 fylgir minnisblaðinu. Þar eru 37 sóknir taldar upp og er uppsöfnuð viðhaldsskuld þeirra samtals tæplega 1,7 milljarðar á tímabilinu. Þeirra á meðal eru allar sóknir Reykjavíkurprófastsdæmanna nema Hallgrímssókn. Hún hefur getað sinnt viðhaldi umfram reglubundna þörf síðustu ár vegna tekna af þjónustu við ferðamenn.

Dómkirkjusókn í Reykjavík er efst á listanum með uppsafnaða viðhaldsskuld upp á 97,6 milljónir króna. Næst kemur Akureyrarsókn með uppsafnaða viðhaldsskuld upp á 93,9 milljónir. Í þriðja sæti er Nessókn með 92,5 milljóna uppsafnaða viðhaldsskuld og í fjórða sæti er Grafarvogsókn með uppsafnaða viðhaldsskuld upp á 90 milljónir.

Benda má á að raunveruleg viðhaldsþörf einstakra sókna getur verið mun meiri en útreiknuð viðhaldsskuld segir til um.