[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Nú í janúar eru 14 ár frá því að Björgólfur Thor Björgólfsson kom í fyrsta sinn til smábæjarins Davos.

Viðtal

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Nú í janúar eru 14 ár frá því að Björgólfur Thor Björgólfsson kom í fyrsta sinn til smábæjarins Davos. Þangað var hann kominn eftir að hafa verið boðin þátttaka í Young Global Leaders (YGL) ráðstefnu sem haldin er samhliða Alþjóðaefnahagsþinginu sem haldið er árlega í fyrrnefndum skíðabæ í austurhluta Sviss. „Ég skildi nú eiginlega ekkert af hverju þeir boðuðu mig þangað. En ég mætti og þetta var fyrsta árið sem þetta prógramm var keyrt. Það má segja að það sé eins konar mastersnám þar sem farið er mjög hratt yfir.“

Í fyrsta árganginum, sem boðaður var árið 2005 voru m.a. ásamt Björgólfi þeir Sergey Brin og Larry Page, sem stofnað höfðu leitarvélina Google sjö árum fyrr. Björgólfur segist ekki hafa átt kost á því að sækja öll þingin frá því að hann mætti fyrst til leiks en að nú hvíli á honum skyldur í tengslum við þau. Þær tengist stjórnarsetu hans í YGL-verkefninu.

„Við héldum stjórnarfund á mánudag og fylgdum svo starfinu úr hlaði þegar um 90 nýir þátttakendur, alls staðar að, komu og hófu þátttöku sína í því. Það var mjög ánægjulegt en það voru Klaus Schwab og Satya Nadella, forstjóri Microsoft, sem fylgdu verkefninu úr hlaði,“ segir Björgólfur.

Merkileg blanda fólks

En það er fleira sem dregur hann til Davos en verkefni tengd YGL-verkefninu. Björgólfur segir að á ráðstefnunni komi saman mjög góð blanda stjórnmálamanna, fólks úr fjölmiðlum, háskólasamfélaginu og viðskiptalífinu.

„Það er engin ráðstefna eins og þessi þar sem svona ólíkir hópar koma saman. Hún dregur til sín bæði mikla hæfileika og valdamikið fólk. Þetta sjá stórfyrirtækin og það er mjög algengt að utan við ráðstefnusvæðið leigi heilu veitingahúsin, listasöfn, kaffihús og verslanir sem breytt sé í móttöku- og fundarstaði.“

Spurður út í hvort og hvernig hann búi sig undir þátttökuna segir hann að nauðsynlegt sé að gera ákveðnar ráðastafanir til að fá sem mest út úr dögunum sem viðburðurinn stendur.

„Það þarf að bóka fundi, ekki síst þegar maður hefur áhuga á að eiga fundi með ráðherrum og öðrum kjörnum fulltrúum. Þar er mjög stífur prótókoll. Það getur líka reynst mikilvægt þegar um formlega viðskiptafundi er að ræða. En maður þarf líka að gera ráðstafanir þegar kemur að áhugaverðustu fyrirlestrunum sem í boði eru. Þeir eru það fjölsóttir að það komast ekki allir að.“

Bundist fólki tryggðaböndum

Reynsla Björgólfs er sú að það sé ekki endilega heillavænlegt að koma gagngert til Davos í þeim tilgangi að byggja upp virkt tengslanet, hins vegar hafi hann kynnst mörgu góðu fólki á þessum vettvangi sem hann hafi bundist tryggðaböndum.

„Það var t.d. skemmtilegt núna í ár að hitta forstjóra Heineken. Ég hef ekki hitt hann síðan hann keypti Bravo af mér í Rússlandi á sínum tíma. Það fór afar vel á með okkur.“

Ráðstefnan er fjölsótt og hefur mikil áhrif á öll umsvif í Davos. Björgólfur bendir á sem dæmi um þau að verð á hótelherbergjum og veitingahúsum fimm- til tífaldist dagana í kringum ráðstefnuna.

Spurður út í efnistökin á ráðstefnunni að þessu sinni segir Björgólfur að hann hafi einkum beint sjónum sínum að umræðunni um hið nýja 5G-kerfi sem stefnir í að muni umbylta gagnaflutningum í heiminum.

„Það er margt að gerast í þessum efnum og forvitnilegt að hlusta á forstjóra stórfyrirtækja á borð við AT&T um til hvers þessi tækni muni leiða. Þekkingin sem maður aflar á þessum fundum er eitthvað sem maður tekur svo áfram með sér í starfsemina sem við erum m.a. að byggja upp í Suður-Ameríku.“

Tiplað í kringum tæknirisa

En Björgólfur segir að hann skynji svipaða stemningu í Davos og fjallað var um í grein Financial Times sem birt var í ViðskiptaMogganum í gær Þar var bent á að lítið færi fyrir opinskárri umræðu um stöðu stærstu tæknirisa veraldar þegar kæmi að hagnýtingu persónugagna notenda þeirrar þjónustu sem fyrirtæki á borð við Google og Facebook veittu.

„Stóru tæknifyrirtækin eru mjög fyrirferðarmikil hérna og hafa sterk ítök. En þrátt fyrir það reyna menn að nálgast þessa umræðu út frá ýmsum sjónarhornum. Það sér maður m.a. á fólki frá Bandaríkjunum sem talar í auknum mæli fyrir íhlutun stjórnvalda, löggjafarvaldsins. Það heyrist æ oftar að mikilvægt sé að breyta stjórnarskrám og tryggja mannréttindi sem felast í aðgengi að internetinu en stjórn á eigin persónulegu gögnum um leið. Fólki er að verða ljóst að tæknirisarnir eru alltof stórir og það þarf að brjóta þessi fyrirtæki upp með einhverju móti. Þar er ég fyrst og síðast að vísa til Google, Facebook og Amazon sem hafa hreðjatak á gagnanotkun heimsins en ekki svo fjarri þeim eru svo fyrirtæki á borð við Apple, Netflix og Microsoft.“