Kuldinn í háloftunum að undanförnu hefur gert það að verkum að starfsmenn Air Iceland Connect, áður Flugfélags Íslands, hafa nokkrum sinnum þurft að draga fram afísingarbúnað áður en flugvélarnar fara í loftið frá Reykjavíkurflugvelli.
Á meðfylgjandi mynd er verið að gera eina af vélum félagsins klára áður en hún lagði af stað vestur á Ísafjörð. Afísingarvökva er sprautað á skrokkinn eftir að farangur og farþegar eru komnir um borð og tekur verkið skamma stund, allt unnið eftir öryggisreglum þannig að vélarnar haldi eiginleikum sínum í lofti.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins, segir flugið hafa gengið vel að undanförnu þó að veturinn hafi fyrir alvöru gengið í garð núna í janúar. Ekki hafi þurft að grípa oft til afísingarbúnaðar fyrr en nú. Lægðagangur fyrr í vetur hafi hins vegar gert félaginu erfiðara fyrir og nokkrum ferðum verið aflýst af þeim sökum.