Á miðvikudaginn birtist hér þorralimra eftir Guðmund Arnfinnsson.

Á miðvikudaginn birtist hér þorralimra eftir Guðmund Arnfinnsson. Hún olli því, að Ingólfur Ómar gaukaði að mér tveim vísum – og sagðist fá vatn í munninn af að hugsa um þorramat en í dag er fyrsti dagur í þorra:

Nú er best að kýla kvið,

kjamsa vel og lengi.

Hangikjöt og söltuð svið,

súran pung og rengi.

Svo má ekki gleyma hákarlinum:

Bragðið kæsta bætir geð,

bros ég set á trýnið.

Hákarlsbita í trantinn treð

og teyga brennivínið.

Í bók Árna Björnssonar „Sögu daganna“ segir frá því, að á fyrstu árum síðustu aldar hafi maður heyrt getið um „hrútaveislur“ við norðanverðan Breiðafjörð á þessum degi. Á mannmörgu heimili var þá soðið mikið reykt kjöt af vænum hrútum. Um það kunni hann þessa saknaðarvísu:

Nú eru úti allstaðar

allar hrútaveislurnar,

þá í kútinn kveðið var

og kindahnútur nagaðar.

Eins og við er að búast er margvíslegur skáldskapur og misjafn að gæðum tekinn upp í bókinni og tek ég þetta erindi sem sýnishorn:

Hér er átveisla stór.

Hér er ólgandi bjór.

Drukkinn ákaft í skrautlegum sal.

Hér er hangikjöt heitt.

Hér er hnakkaspik feitt.

Hér er hákarl og magála val.

Eftir eitt þorrablótið á Egilsstöðum varð þessi vísa til:

Á Egilsstöðum enn er mót

sem ýmsra léttir buddu.

Þar var haldið þorrablót

og þar fékk Stebbi Guddu.

Eftir miðja síðustu öld tók Halldór Gröndal veitingamaður í Naustinu upp þá nýbreytni að bjóða upp á þorramat og naut það mikilla vinsælda. Helgi Sæmundsson orti:

Inni á Nausti aldrei þver

ánægjunnar sjóður.

Þorramaturinn þykir mér

þjóðlegur og góður.

Ég tók „brennivínsbókina“ fram úr bókaskápnum og rifjaði upp brag, sem var mjög vinsæll á mínum menntaskóla- og stúdentsárum og er eflaust enn. Þetta er fyrsta erindið:

Þegar hnígur húm að Þorra,

oft ég hygg til feðra vorra

og þá fyrst og fremst til Snorra

sem framdi Háttatal.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is