RIG Gústaf Adolf Hjaltason hefur komið að Reykjavíkurleikunum frá því þeir fóru af stað árið 2008.
— Morgunblaðið/Árni Sæberg
RIG 2019 Kristján Jónsson kris@mbl.is Gústaf Adolf Hjaltason, forseti framkvæmdanefndar Reykjavíkurleikanna, er einn þeirra sem lagt hafa á sig mikla vinnu árum saman til að Reykjavíkurleikarnir geti dafnað.
RIG 2019
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Gústaf Adolf Hjaltason, forseti framkvæmdanefndar Reykjavíkurleikanna, er einn þeirra sem lagt hafa á sig mikla vinnu árum saman til að Reykjavíkurleikarnir geti dafnað. Leikarnir, sem hafa farið fram árlega í lok janúar frá 2008, hófust í gær með keppni á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland International og standa yfir næstu tvær helgar.
„Þegar við komum leikunum á fót á sínum tíma dreymdi okkur um að ná utan um einstaklingsgreinarnar. Kastljósið hefur beinst að ýmsum hópíþróttum og þær fá mikla athygli enda horfa margir á þær og hafa gaman. Okkur langaði til að lyfta undir einstaklingsgreinar og það hefur heldur betur tekist því mikil fjölmiðlaumfjöllun er um Reykjavíkurleikana. Í greinum eins og sundi og frjálsum kunni fólk að halda alþjóðleg mót og þær greinar hafa nú getað hjálpað mörgum öðrum greinum margt varðandi mótahald. Við í framkvæmdaráðinu erum með handbók um ýmislegt varðandi umgjörðina til þess að hún megi vera lík því sem þekkist erlendis. Við höfum náð því og erum afskaplega ánægð með það,“ sagði Gústaf þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.
Keppendur frá 44 löndum
Reykjavíkurleikarnir eru stórviðburðir sama hvernig á það er litið. Nægir því til stuðnings að nefna að keppendur á leikunum koma frá fjörutíu og fjórum löndum. Stórviðburðir verða stundum til í framhaldi af sakleysislegum hugmyndum. „Árið 2005 vorum við í Sundfélaginu Ægi með sundmót og fékk ég leyfi til að nota nafnið Reykjavík International. Þá kom Þráinn Hafsteinsson hjá ÍR að máli við en við þekkjumst frá Selfossi. Hann benti mér á að við værum að berjast um að komast í útsendingu hjá RÚV þessa sömu helgi. Við ræddum málið við RÚV og ákveðið var að gera eitthvað í sameiningu. Þegar Borgarleikarnir urðu til þá fórum við með hugmynd til Frímanns og Kjartans hjá ÍBR. Þá var settur vinnuhópur í gang og Reykjavíkurleikarnir eru afraksturinn,“ útskýrði Gústaf og segir hann að eitt af markmiðunum hafi verið að fækka utanlandsferðum afreksfólksins um eina með því að fá erlenda keppendur til Íslands.