Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson
Freyr Bjarnason freyr@mbl.

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að forsætisnefnd Alþingis taki til skoðunar hvort Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmenn Pírata, hafi gerst brotleg við siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum opinberlega um endurgreiðslu þingsins á aksturskostnaði til Ásmundar.

Í bréfi sem Ásmundur sendi forsætisnefnd segir hann ummæli þeirra beggja „bæði grófar aðdróttanir og fullyrðingar um refsiverða háttsemi mína“. Telur hann nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort ummælin samrýmist siðareglum.

„Þekkt er í pólitískri baráttu að þingmenn láti miður falleg orð um andstæðinginn falla í umræðu og jafnvel mjög niðrandi. Hér er hins vegar um miklu alvarlegri hluti að ræða þar sem ég er sakaður um hegningarlagabrot. Gengið er svo langt í sumum ummælum að fullyrt er að ég hafi framið slík brot. Tel ég að með þessum ummælum sé vegið alvarlega að æru minni,“ skrifar hann í bréfinu.

Ósáttur við leka úr nefndinni

Mbl.is hafði spurnir af samskiptum Ásmundar við forsætisnefnd vegna málsins. Þegar haft var samband við þingmanninn og hann spurður út í það sagði hann það mjög miður að erindið skyldi hafa lekið út úr forsætisnefnd. Hann kvaðst vona að það hefði engin áhrif á málsmeðferðina en hann sagðist ekki hafa ætlað að ræða málið opinberlega fyrr en niðurstaða lægi fyrir.

„Það er mjög alvarlegt að forsætisnefnd þingsins sé ekki treyst fyrir erindum sem á hennar borð koma því í fyllingu tímans verða þau öll opinber. Ég er mjög sorgmæddur yfir því,“ sagði hann.

Nánar er fjallað um málið á mbl.is.