Rósant Skúlason segir viðskiptavini kunna að meta þau þægindi sem fylgja því að versla yfir netið. „Sú pöntun sem fór stysta vegalengd var til viðskiptavinar í um 400 metra fjarlægð frá versluninni í Skeifunni.“
Rósant Skúlason segir viðskiptavini kunna að meta þau þægindi sem fylgja því að versla yfir netið. „Sú pöntun sem fór stysta vegalengd var til viðskiptavinar í um 400 metra fjarlægð frá versluninni í Skeifunni.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósant segir mikilvægt að sinna vefverslun Casa.is vel, uppfæra vöruúrvalið og svara fyrirspurnum. Sumir viðskiptavinir nota vefverslunina til að gera upp hug sinn og heimsækja svo eina af þremur búðum Casa.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Árið 2015 var orðið ljóst að endurnýja þyrfti heimasíðu húsgagna- og gjafavöruverslunarinnar Casa. Varð úr að taka vefsíðuna Casa.is upp á næsta stig og opna þar vandaða vefverslun. „Gamla síðan sýndi í raun bara takmarkað úrval af húsgögnum en í dag má finna í vefversluninni þúsundir vörunúmera,“ segir Rósant Friðrik Skúlason, framkvæmdastjóri Flæðis ehf. sem rekur verslanir Casa, Dúka og Iittalabúðina.

„Á þessum tímapunkti vorum við komin með margar verslanir og gríðarlegt vöruúrval en ekki sama úrval í öllum þeirra. Okkur langaði að geta boðið viðskiptavinum hvar sem er á landinu að kaupa vöruna okkar, á auðveldan og þæginlega máta á vefsíðunni, “ útskýrir hann.

Þurftu að fylla „hillurnar“

Það tók um tvö ár að koma vefsíðunni í gagnið og fékk Casa fyrirtækið Smartmedia til að annast bæði hönnun og hugbúnaðarsmíði. „Þá fór töluverð vinna í það hjá okkur að fylla vefverslunina af vörum en skrá þurfti hvert vörunúmer inn handvirkt, og jafnvel þó við gætum fengið vörumyndir hjá framleiðendum – frekar en að ljósmynda sjálf – þá þurfti alla jafna að minnka myndirnar niður í rétta stærð og lögun og lýsa þær eða dekkja til að hafa samræmt útlit á vefversluninni,“ segir Rósant, en vefverslun Casa.is fór í loftið með 3.000 vörunúmerum.

Í dag er vefverslunin hér um bil eins og spegill af Casa-verslununum þremur í Skeifunni, Kringlunni og á Glerártorgi. „Hægt er að kaupa alla gjafavöruna í gegnum Casa.is en mörg stærri húsgögnin verður að panta í egin persónu enda þurfa viðskiptavinir að skoða þau áklæði, áferðir og frágang sem eru í boði áður en gengið er frá pöntun. Húsgögnin eru samt til sýnis í netversluninni til að auðvelda fólki að gera upp hug sinn,“ segir Rósant. „Á Casa.is er líka öflugt gjafalistakerfi og geta t.d. tilvonandi hjón gert brúðkaupslista á netinu og gert öllum gestum aðgengilegan.“

Verslanir og net spila saman

Áhugavert er að skoða hvernig vefverslun Casa.is og búðirnar þrjár styðja hver við aðra. „Margir sem koma í verslanirnar okkar eru búnir að skoða sig um á netinu fyrst og ákveða hvað þau langar að kaupa – þau þurfa þá ekki að verja eins löngum tíma í versluninni heldur einfaldlega draga fram símann og sýna sölumanni mynd af vörunni sem þeim hugnast best,“ segir Rósant. „Svo eru aðrir sem finnst einfaldlega þægilegast að spara sér ferðina til okkar og frekar fá vöruna senda heim. Sú pöntun sem fór stysta vegalengd var til viðskiptavinar í um 400 metra fjarlægð frá versluninni í Skeifunni.“

Rósant bendir á að það útheimti stöðuga vinnu að halda vefverslun í horfinu og ekki sé hægt að einfaldlega setja netbúð í loftið og ætlast til þess að hún reki sig sjálf. „Vinnan skiptist á milli starfsfólksins en ætli megi ekki áætla að þurfi um það bil hálft stöðugildi til að „sópa gólfið“ í netversluninni, s.s. að setja inn nýjar vörur og passa að taka út vörunúmer sem ekki eru lengur í boði.“

Engar tómar hillur

Netverslunin þýðir líka að hafa má meira til sýnis, og t.d. hægt að hafa uppseldar vörur í boði með tilkynningu um að sending sé væntanleg síðar. „Frekar en að viðskiptavinurinn komi að tómri hillu þá sér hann að varan er uppseld í augnablikinu og getur þá sent okkur línu, s.s. til að grennslast fyrir um hvenar varan er væntanleg eða til að biðja okkur um að gera sérpöntun.“

Á Rósant von á því að hlutur netverslunar í rekstri Casa muni bara fara vaxandi, og spilar þar margt inn í: „Unga fólkinu er tamt að nota vefverslanir og taka það í mörgum tilvikum fram yfir hefðbundnar verslunarferðir að fá vörur sendar til sín í pósti eða með sendli. Þá fjölgar þeim sífellt sem vilja nýta tíma sinn sem best og ekki láta hluta af frítíma sínum fara í að aka á milli verslana þegar hægt er að fá vörurnar heim að dyrum.“

Óttast ekki verðsamanburð

Það má finna heilu hópana á Facebook þar sem neytendur bera saman verðið hjá íslenskum og erlendum seljendum, og gera sér mat úr því þegar álagningin hér á landi virðist meiri en góðu hófi gegnir. Hefðu sumir haldið að það gæti því verið áhættusamt fyrir íslenskt fyrirtæki að halda úti vefverslun enda hvergi auðveldara fyrir neytendur að gera verðsamanburð en einmitt á netinu.

En ef að er gáð reynast vörurnar hjá Casa.is á mjög svipuðu verði og hjá erlendum netverslunum og segir Rósant að fyrirtækið óttist ekki verðsamanburðinn. „Við höfum markað þá stefnu hjá Casa að vera ekki með árstíðabundnar útsölur heldur selja vörurnar okkar á sama sanngjarna verðinu allt árið um kring. Fyrir vikið eru okkar vörur nálægt verði evrópskra verslana, nema hvað við höfum það forskot að ef pakki frá okkur ferðast styttri vegalengd svo að varan verður fyrir minna hnjaski – og ef eitthvað reynist ekki eins og kaupandinn hafði reiknað með þá er hægur vandi að skipta vörunni í næstu Casa-verslun, eða endursenda hana á okkar kostnað ef um er að ræða gallaða eða skemmda vöru.“