Magnús Árni Skúlason
Magnús Árni Skúlason
Húsnæðisverð á Íslandi hækkaði um 5,8% á þriðja ársfjórðungi 2018 frá því sem var á sama ársfjórðungi fyrra árs. Það er aðeins fyrir ofan þróunina í Evrópusambandinu sem og á evrusvæðinu en í hvoru tilfelli fyrir sig hækkaði húsnæðisverð um 4,3%.

Húsnæðisverð á Íslandi hækkaði um 5,8% á þriðja ársfjórðungi 2018 frá því sem var á sama ársfjórðungi fyrra árs. Það er aðeins fyrir ofan þróunina í Evrópusambandinu sem og á evrusvæðinu en í hvoru tilfelli fyrir sig hækkaði húsnæðisverð um 4,3%. Þetta kemur fram í samantekt sem Hagstofa Íslands byggir á vísitölum frá hagstofu Evrópusambandsins. Sé horft til Skandinavíu sést að húsnæðisverð hefur hækkað um 3,5% í Danmörku á sama tímabili, um 3,5% í Noregi og um 1% í Finnlandi. Í Svíþjóð hefur húsnæðisverð aftur á móti lækkað um 2,1% á sama tímabili. Sé horft til þeirra landa þar sem húsnæðisverð hefur hækkað hvað mest á sama tímabili er Slóvenía þar í sérflokki en þar nemur hækkunin 15,1%. Í Hollandi nemur hækkunin 10,2%. Þessar tölur hagstofu ESB ná aftur til fjórða ársfjórðungs árið 2015. Sé þriðji ársfjórðungur ársins 2016 borinn saman við þriðja ársfjórðung 2017 hér á landi sést að hækkunin hér á landi á því tímabili var heil 22,5%. Sé fjórði ársfjórðungur ársins 2015 borinn saman við þriðja ársfjórðung 2016 var hækkunin 7,8%.

Magnús Árni Skúlason hjá Reykjavík Economics segir að um jákvæða þróun sé að ræða og að húsnæðismarkaðurinn sé að ná jafnvægi frá lágpunktinum árið 2010. Hann sé nú eðlilegur í samanburði við önnur lönd varðandi svona lækkunarferli og að búast megi við eðlilegri verðhækkunum til framtíðar.

„Það er komið að endalokum þessa hækkunarferlis sem hefur átt sér stað frá árinu 2010. Það sem ýtti einnig undir verðhækkunina er lækkun húsnæðislánavaxta og framboðsskortur ásamt því mikla innstreymi af fólki sem kom til landsins eftir útstreymið eftir fjármálakreppuna,“ segir Magnús.