Vinátta Bjössi klappar lambi sínu. Skjáskot úr myndinni.
Vinátta Bjössi klappar lambi sínu. Skjáskot úr myndinni.
Hún snart mig djúpt, heimildarmyndin hans Kára G. Schram, sem sýnd var á RUV á miðvikudagskvöld.

Hún snart mig djúpt, heimildarmyndin hans Kára G. Schram, sem sýnd var á RUV á miðvikudagskvöld. Svarta gengið heitir hún og sagði þar frá Þorbirni Péturssyni, eða Bjössa, fjárbónda og einsetumanni á Ósi í Arnarfirði sem þurfti að fella allt sitt sauðfé og bregða búi vegna eigin heilsubrests. Erfiðasta skrefið sem Bjössi þurfti að taka var að fella bestu vini sína, kindurnar sem tilheyrðu Svarta genginu, þær sem stóðu hjarta hans næst. Þær voru ekki aðeins bestu vinir hans heldur líka fjölskylda. Þær fóru ekki í sláturhúsið eins og hjörðin, þeim sá hann sjálfur um að farga heima og bjó þeim minningarreit. Þessi mynd var fyrst og fremst um sannar og einlægar tilfinningar, fallega vináttu milli manns og dýra sem verður til í einverunni. Það sem gerði myndina svo áhrifaríka, var ekki einungis saga þessa manns og afar vönduð kvikmyndataka þar sem hvert skot sagði meira en þúsund orð, heldur fyrst og fremst nálgunin þar sem virðingin gagnvart Bjössa réð för. Samkenndin og hlýjan náði inn að mínum hjartarótum. Frásögnin varð aldrei væmin og það var aldrei farið yfir strikið til að velta sér upp úr því átakanlega. Vandað og gefandi. Takk Kári.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir