Jóna fæddist í Reykjavík 24. nóvember 1927. Hún lést 13. janúar 2019.

Foreldrar hennar voru Sveinn Guðbrandur Björnsson frá Stafshóli í Fljótum, Skagafirði, f. 14.7. 1897, d. 13.11. 1966, og Stefanía Einarsdóttir, f. í Reykjavík 23.10. 1897, d. 26.3. 1993.

Jóna var næstyngst sinna þriggja systkina, þeirra Birnu Guðríðar Sveinsdóttur Muller, f. 15.4. 1925, d. 15.12. 2014, og Harðar Sveinssonar, f. 15.3. 1933, d. 2011.

Útför Jónu fer fram frá Grensáskirkju í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.

Jóna fæddist í heimahúsi á sínum tíma. Síðar kom í ljós að hún var spastísk og heyrnarlaus og fór ekki að ganga fyrr en fjögurra ára gömul. Jóna gekk í Heyrnleysingjaskólann hjá Brandi. Hún vann við hin ýmsu störf en lengst af í 42 ár hjá ÁTVR.

Ég naut þeirrar ánægju að búa í kjallaranum hjá ömmu Stebbu í Barmahlíðinni, en þar mynduðust náin tengsl á milli okkar Jónu og það leið ekki sá dagur að við færum ekki á milli hæða. Eftir að ég eignaðist fyrsta barnið mitt, Bjarka, þá var hún eins og amma hans. Hún passaði hann oft þegar við skruppum frá. Leit ekki af honum augum á meðan. Hún var svo stolt að fá að taka þátt í þessu með mér.

Jóna eignaðist ekki nein börn sjálf, en hafði mikið yndi af þeim og öll börn hændust að henni. Þegar við systur mínar vorum yngri þá spilaði hún við okkur endalaust ólsen og svartapétur. Þetta endurtók sig þegar mín börn voru yngri. Alltaf var stutt í grín og glens. Hún var óspart að búa til ýmis andlit með grettum og lék alls konar kúnstir, ekki verra þegar fölsku tennurnar fóru af stað líka. Jóna var alltaf ung í anda, hún virtist ekkert eldast nema líkaminn. Skemmtilegasta sem hún gerði var að fara í búðir og skoða föt. Þau voru ófá skiptin sem við sátum yfir Sears-pöntunarlista eða fórum í göngu eftir Laugaveginum að skoða í búðarglugga. Síðan var farið á kaffihús í Kjörgarði á eftir. Jafnvel þegar hún var orðin 80 ára. Henni þótti þó gott að vera í gallabuxum og strigaskóm. En móðir mín Birna eða Bidda eins og hún var kölluð hjá Jónu var ekki eins ánægð með það. En hún var samt í þeim heima hjá sér. Jóna fór í húsmæðraskóla fyrir heyrnarlausa í Hamar í Noregi, sem reyndist henni vel seinna enda eldaði hún daglega eftir að hún flutti inn í sína eigin íbúð.

Fyrir nokkrum árum varð hún fyrir því óláni að brjóta sig í þrígang. Hún komst ekki heim eftir þriðja brot. Jóna var alla tíð mikill snyrtipinni og mjög reglusöm með alla hluti. Hver hlutur átti sinn stað og hún þoldi ekki óreiðu. Hún tók heldur betur til hendinni þegar hún kom í heimsókn og komst í þvottinn minn eða í eldhúsið. Þvílíkur lúxus.

Jóna var alveg einstakur persónuleiki og allt lék í höndum hennar eins og allar þær óteljandi myndir sem hún saumaði bera með sér. Ferðalög og samskipti við aðra voru alltaf hennar líf og yndi. Þær voru heldur ekki fáar ferðirnar sem Jóna kom með okkur til útlanda. Þrátt fyrir sinn veikburða líkama og óstöðugleika til gangs var hún alltaf svo sterk. Félagsskapur heyrnarlausra hefur alltaf haldið vel hópinn, félagsmenn stutt hver annan í einu og öllu. Eiga þeir heiður skilinn, þá er hún Laila á skrifstofunni hjá þeim ekki undanskilin. Síðustu árin bjó hún á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjavík. Var þar á frábærri deild, Mánateig, naut mikillar hlýju og velvilja starfsfólksins alveg fram á síðasta dag. Hún var alltaf glöð og var óspör á brosið til þeirra og þakklæti. Þín verður sárt saknað, Jóna mín, megir þú hvíla í friði.

María Muller og systkini.

Með táknum og látbragði sem voru yfirleitt á þá leið að hún stækkaði hendurnar og blés út kinnar og sagði svo á sinn hátt „þú feitur“ voru vanalega hennar orð ef hún sá mig með eitthvað matarkyns fyrir framan mig en það var hennar leið að segja mér að passa mig og þannig man ég þig best, elsku Jóna mín, hvernig þú túlkaðir heiminn í kringum þig, beinskeytt og með húmor.

Það er ótrúlega skrítið að vera hér í Nóatúninu í dag og vita að þú komir ekki aftur heim, en ég man hversu oft þú passaðir mig yfir daginn á heimili þínu eða helgi ef ég var heppinn og við horfðum saman á spólurnar sem þú áttir nóg af, og ég gat haft eins hátt og ég vildi í sjónvarpinu þangað til nágrannarnir kvörtuðu. Það voru svo sannarlega gleðitímar æsku minnar.

Þú sem varst alltaf svo sterk að oftast þurftum við hin að reyna okkar besta að halda í við þig, og þú gast ekki setið auðum höndum heldur þurftir alltaf að vera að sinna einhverjum heimilisverkum þó svo að þú værir í heimsókn annars staðar.

Ég verð ævinlega þakklátur þér fyrir margt og þá sérstaklega hvernig ég túlka heiminn í kringum mig í dag. Þín verður sárt saknað, elsku Jóna.

Þinn

Bjarki.

Kær vinkona frá barnæsku er látin. Ég og fjölskylda mín minnumst hennar með mikilli hlýju.

Við Jóna áttum samleið frá unga aldri í Málleysingjaskólanum í Reykjavík, eins og skólinn hét þá. Jóna var rúmlega þremur árum eldri en ég en það kom ekki í veg fyrir náinn vinskap.

Heyrnarlaus frá fæðingu kom ég sjö ára gömul, eftir langt ferðalag frá Önundarfirði, með móður minni til Reykjavíkur. Ég minnist þess eins og það hafi verið í gær þegar ég sá Jónu fyrst í skólanum. Jóna var snyrtileg og fallega klædd og alveg sérstaklega hláturmild.

Skömmu síðar var mér boðið heim til Jónu í afmælisveislu. Góðar móttökur fjölskyldu hennar yljuðu frá fyrstu stundu. Ég er ætíð þakklát fyrir hversu hjartahlý og góð Stefanía, móðir Jónu, reyndist mér. Það var huggun að vita af þessu góða fólki á þeim erfiðu tímum og óbærilegu stundum sem komu á eftir þegar móðir mín yfirgaf mig nánast án þess að ég vissi hvað var um að vera. Mér leið oft eins og ég væri ein í heiminum en vinskapur Jónu og annarra nemenda sem urðu vinir mínir fyrir lífstíð, var mér afar mikils virði. Við áttum menningu heyrnarlausra, tungumálið okkar; munn-hand-kerfið, táknmálið, fingrastafrófið og námið í varalestri, sameiginlegt.

Jóna gekk ekki heil til skógar, var hreyfihömluð en lét það ekki aftra sér í neinum námsgreinum. Hún var afar listfeng, saumaði út, prjónaði og málaði myndir. Við Jóna áttum oft samleið á námskeiðum þar sem við lærðum að sauma og mála. Fyrst á unglingsárunum eftir skóla fylgdi Stefanía okkur á saumanámskeið og svo sóttum við Jóna fleiri námskeið eftir að grunnskólanámi lauk. Jóna sótti húsmæðraskólanám fyrir heyrnarlausa í Hamar í Noregi en ég fór í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Við bárum oft saman bækur okkar úr náminu.

Við fórum í gegnum skyldunámið með þeim aðferðum sem voru notaðar og viðurkenndar erlendis á þessum tíma. Margrét Rasmus skólastjóri hafði kennt danska aðferð, mund-hand system, frá 1923 við skólann og Brandur Jónsson talkennari sem tók við síðar sem skólastjóri nýtti allar mögulegar tjáskiptaleiðir til að gera tjáningu okkar stöðugt betri. Áhersla var enn frekar lögð á talmál og að nýta heyrnarleifar með heyrnartækjum.

Markmið allra var að ná betra sambandi við umheiminn í gegnum tjáningu og að eiga lifandi tungumál.

Ég kynntist fljótt allri fjölskyldu Jónu. Heimilið var kærleiksríkt og ég átti góðar stundir á Njálsgötunni og síðar í Barmahlíð. Fjölskyldan og systkini Jónu, þau Birna og Hörður, sem nú eru látin, tóku mér fagnandi.

Þær systur Jóna og Birna áttu ætíð náið samband og öll fjölskylda Jónu hefur borið hag hennar fyrir brjósti.

Þær mæðgur, Jóna og Stefanía, fylgdust með barnahóp okkar Guðmundar stækka og Jónu var ætíð fagnað þegar hún heimsótti okkur. Jóna vann lengst af hjá ÁTVR og var vel liðin í starfi. Síðustu misserin dvaldi hún á DAS og var það okkur fjölskyldunni mikið fagnaðarefni þegar Jóna kom í 90 ára afmæli Guðmundar nú í október.

Blessuð sé minning okkar ástkæru vinkonu.

Hervör Guðjónsdóttir,

Guðmundur Egilsson

og fjölskylda.