Signý Gunnarsdóttir fæddist á Bangastöðum í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu 17. janúar 1939. Hún lést á líknardeild Landspítalans 18. janúar 2019.

Foreldrar hennar voru Gunnar Jónatansson, f. 5. maí 1877, d. 25. júní 1958, og Vilfríður Guðrún Davíðsdóttir, f. 20. nóvember 1897, d. 25. maí 1973.

Signý giftist 12. desember 1970 Ragnari Þór Magnússyni, f. 5. apríl 1937, d. 8. febrúar 2013. Foreldrar hans voru Magnús Þorsteinsson, f. 4. september 1891, d. 25. maí 1969, og Magnea Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 2. maí 1901, d. 20. júní 1995. Systkini Signýjar eru: Óli Jónatan, samfeðra, f. 19. júlí 1911, d. 1. ágúst 1986, Jónína Guðný, f. 13. maí 1927, d. 8. september 1988, Kristjana Elínborg, f. 7. desember 1928, d. 12. nóvember 2013, Anna Sigríður, f. 11. september 1930, d. 11. janúar 2011, Aðalheiður, f. 4. október 1932, Davíð, f. 15. mars 1935, Sigurbjörg, f. 27. september 1940 og Soffía Björk, f. 27. september 1940, d. 2. júní 1996. Börn Signýjar og Ragnars eru: 1) Svanhildur, f. 31. janúar 1964, gift Ragnari Páli Aðalsteinssyni, f. 30. mars 1964, eiga þau þrjú börn a) Signý Hrund, f. 12. apríl 1982 og á hún synina Gunnar Nökkva, f. 17. nóvember 2001, og Myrkva Þór, f. 12. febrúar 2011. b) Almar Freyr, f. 19. desember 1987, í sambúð með Hlín Pálsdóttur, f. 18. nóvember 1989, og eiga þau soninn Hlyn Frey, f. 14. janúar 2019. c) Gígja Dröfn, f. 15. janúar 1990, í sambúð með Eiríki Hjartarsyni, f. 8. janúar 1983, og á hún börnin Amelíu Carmen, f. 25. júní 2008, og Christopher Darra, f. 30. janúar 2010, Agnarsbörn og Rögnu Caritas Kúld Eiríksdóttur, f. 17. desember 2015. 2) Gunnar, f. 16. ágúst 1970.

Signý ólst upp á Bangastöðum til ársins 1953 þegar fjölskyldan fluttist í Voladal á Tjörnesi. Eftir að Signý lauk skyldunámi árið 1954 fór hún í vist til Húsavíkur og starfaði þar við ýmis störf þar til hún fluttist til Reykjavíkur árið 1960. Í Reykjavík starfaði hún sem saumakona hjá Últíma þar til hún gerðist dagmamma árið 1967 og starfaði sem slík í 50 ár.

Signý verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 25. janúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma.

Það er svo erfitt að takast á við andlát þitt. Við eigum engin orð til að lýsa tilfinningum okkar og söknuði. Þú varst okkur allt. Það er ekki hægt að hugsa sér jákvæðari og bjartsýnni manneskju en þig. Þú mættir öllum áskorunum í lífinu með einstakra jákvæðni, bjartsýni og trú á hið góða eins og sást best í þau þrjú skipti sem þú greindist með krabbamein. Það var aldrei bilbug á þér að finna. Bænir áttu stóran þátt í þínu lífi og mætti segja að bænirnar Nú er ég klæddur og Láttu nú ljósið þitt hafi skipað sérstakan sess. Allt sem þú upplifðir var svo yndislegt. Þú sást fegurð í öllu og öllum enda var fegurð þín einstök bæði að utan sem innan.

Að hafa sig til og líta vel út var þér mikils virði og þrátt fyrir að veikindin höfðu gengið mjög nærri þér kom aldrei til greina að hafa sig ekki til þó þú lægir í sjúkrarúmi og gætir þig vart hreyft.

Þú varst baráttujaxl og komst því í verk sem þú ætlaðir. Tvennt var það umfram annað sem þú ætlaðir þér áður en yfir lyki en það var að sjá nýjasta barnabarnabarnið og halda upp á áttræðisafmælið.

Hugurinn er uppfullur af minningum og erfitt að festa hendur á einni umfram aðra, þær eru allar svo dýrmætar og góðar. Áttræðisafmælisdagurinn mun aldrei líða okkur úr minni og vitum við að þú upplifðir hann jafn dásamlegan og við þrátt fyrir að þú svæfir djúpum svefni.

Sérstaklega minnisstæðar eru utanlandsferðirnar sem við systkinin fórum með þér til London, Kaupmannahafnar og Parísar á fullorðinsárum.

Einnig eru ferðalögin innanlands þegar við vorum krakkar dýrmætar minningar.

Okkar „verstu“ minningar frá æsku okkar eru þegar við fórum með þér í sjoppu að kaupa sælgæti og við báðum um kúlur eða litla súkkulaðikarla, þá var keypt ein kúla eða einn lítinn súkkulaðikarl. Þetta þótti okkur ferlegt og kunnum við betur við „óhófið“ í pabba, eins og þú kallaðir það, því hann keypti alltaf nokkrar kúlur eða súkkulaðikarla og jafnvel hvort tveggja.

Okkar elsku besta mamma, við biðjum góðan Guð að blessa þig og varðveita og vitum að þú munt lifa með okkur um alla tíð.

Svanhildur og Gunnar.

Elsku amma okkar, að sitja hér og skrifa minningargrein um þig er ekki eitthvað sem við vorum tilbúin til að gera strax. Að hafa alist upp með þig í okkar lífi hefur kennt okkur svo margt, allar minningarnar um þig og með þér eru svo dýrmætar.

Allar sumarbústaðaferðirnar sem dæmi. Skínandi sól, þú í stuttermabolnum, gallastuttbuxunum og grænu stígvélunum, úti í miðju blómabeði að sinna blómunum þínum og reyta arfa. Afi í sólbaði á veröndinni og við að leika okkur, að sippa, í körfubolta eða bara hvað sem er.

Að spila óþokka við ykkur afa, allir páskarnir þegar þú eyddir löngum tíma í að fela eggin og við að leita. Þú syngjandi og dansandi inni í eldhúsi.

Aldrei munum við gleyma hversu gott það var að vera í kringum þig. Þú varst alltaf svo glöð og brosandi. Það var alveg sama hvað gekk á, það var alltaf svo stutt í brosið.

Ó, Jesús bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera

og góðan ávöxt bera,

en forðast allt hið illa,

svo ei mér nái' að spilla.

(Páll Jónsson)

Elsku amma, takk fyrir allt. Við vitum að þú og afi vakið yfir okkur öllum.

Gígja, Almar og Signý.

Nú er hún Signý okkar dáin eftir harða baráttu við þennan illvíga sjúkdóm sem svo margir þurfa að berjast við og bíða lægri hlut. Hún Signý var yndisleg manneskja.

Í yfir 30 ár var hún félagi í vinahópnum okkar og alltaf mætt fyrst af öllum og tilbúin að taka til hendinni þar sem þurfti.

Signý hafði yndi af söng og hafði bjarta og fallega rödd og kunni alla texta sem sungnir voru og miklu fleiri. Og Signý var alltaf glöð og kát og ósjaldan bauð hún okkur heim til sín og þá var talað um landsins gagn og nauðsynjar, spjallað og mikið hlegið og ekki voru veitingarnar af verri endanum. Signýjar verður sárt saknað af hópnum og hennar skarð vandfyllt.

Við kveðjum þig vina, hér og nú.

Ert kölluð til æðri starfa.

Þakklát fyrir að þú varst þú.

Þér Rósirnar kveðju bera.

Og við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Blandaðra Rósa,

Guðbjörg Ellertsdóttir.

Okkar yndislega Signý er fallin frá. Það er undarleg tilfinning.

Hún háði snarpa og erfiða baráttu við veikindi síðasta árið og gerði það af svo miklu æðruleysi að ekki var annað hægt en að fylgjast fullur aðdáunar með. Tíminn var vel nýttur og góðu dagarnir notaðir til að gera eitthvað skemmtilegt.

Signý var hrífandi persónuleiki, glaðvær, jákvæð, falleg og elskaði lífið.

Börn skipuðu stóran sess í hennar lífi en hún starfaði sem dagmóðir nánast allan sinn starfsaldur og lét ekki af störfum fyrr en á sjötugasta og níunda aldursári og nutu mörg börn í fjölskyldunni góðs af.

Hún elskaði börnin og þau hana enda var hún afar eftirsótt og vinsæl dagmóðir.

Lífsvilji hennar var svo mikill og sterkur að hún var staðráðin í að halda upp á áttræðisafmælið sitt og sjá litla langömmubarnið sem von var á þrátt fyrir að vera orðin afar veikburða og komin á líknardeildina.

Hvort tveggja tókst og áttum við fjölskyldan og nánustu vinir Signýjar þar afar dýrmæta og fallega stund á afmælisdaginn.

Signý var mikil fjölskyldumanneskja og naut samvista við sína nánustu og átti hún afar fallegt samband við ömmu- og langömmubörnin sín sem sóttu í félagsskap hennar og hún í þeirra.

Gott er að geta minnst ferðarinnar til Kaupmannahafnar fyrir rétt rúmlega ári þar sem þær mágkonur Signý og Stella léku á als oddi.

Þar var mikið hlegið og margt skemmtilegt gert, farið í smurbrauð til Idu Davidsen, í Tívolí í jólabúningi, búðaráp og lífsins notið til hins ýtrasta.

Til stóð að endurtaka gleðina en ekki gafst færi á því, því miður. En við erum afar þakklátar fyrir að eiga þessar skemmtilegu minningar.

Aldrei var komið að tómum kofunum hjá Signýju hvort heldur var heima í Hörðalandi eða í sumarbústaðnum þeirra Ragga í Grímsnesinu. Borðin svignuðu undan ómótstæðilegum kræsingum. En í sumarbústaðnum naut hún sín í náttúrunni innan um blómin og gróðurinn.

Að leiðarlokum viljum við þakka Signýju samfylgdina, tilveran verður fátæklegri án hennar en fallegar minningar um þessa einstöku konu verma hjartað.

Gráttu ekki

yfir góðum

liðnum tíma.

Njóttu þess heldur

að ylja þér við minningarnar,

gleðjast yfir þeim

og þakka fyrir þær

með tár í augum,

en hlýju í hjarta

og brosi á vör.

Því brosið

færir birtu bjarta,

og minningarnar

geyma fegurð og yl

þakklætis í hjarta.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Svanhildi, Gunnari og öðrum ástvinum Signýjar vottum við okkar dýpstu samúð. Minningin lifir.

Jórunn, Alma og fjölskyldur.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Eins láttu ljósið þitt

lýsa í hjarta mitt,

skína í sál og sinni,

sjálfur vaktu þar inni.

Lát húmið milt og hljótt

hlúa að mér í nótt

og mig að nýju minna

á mildi arma þinna.

Ég fel minn allan hag

einum þér nótt og dag,

ljósið af ljósi þínu

lifi í hjarta mínu.

(Sigurbjörn Einarsson)

Elsku amma, takk fyrir að vera þú fyrir okkur.

Gunnar Nökkvi, Amelía

Carmen, Christopher Darri, Myrkvi Þór, Ragna Caritas og Hlynur Freyr.