Hörður Sævar Óskarsson fæddist 4. júlí 1932 á Siglufirði. Hann lést 17. janúar 2019 á Landspítalanum í Reykjavík.

Foreldrar Harðar voru Óskar Garibaldason, formaður Vöku á Siglufirði, f. 1908, d. 1984, og Anney Ólfjörð Jónsdóttir frá Ólafsfirði, f. 1912, d. 1975.

Systkini Harðar eru Erla, f. 1936, Hlynur Sævar, f. 1942, d. 2017, Hallvarður Sævar, f. 1944, Hólmgeir Sævar, f. 1945, d. 2016, og Sigurður Helgi, f. 1950, d. 1961.

Hörður kvæntist 2. ágúst 1955 Dagnýju Jónsdóttur frá Múla í Álftafirði, f. 20. jan. 1933, d. 17. júlí 2000. Börn þeirra eru: 1) Ómar Sævar, fagstjóri á Hagstofu Íslands, f. 1955, kvæntur Heiði Baldursdóttur, d. 1993. Dætur þeirra eru Brynhildur, f. 1978, og Þórey Mjallhvít, f. 1980. Eiginkona Ómars er Ingibjörg Kolbeins. Dóttir Þóreyjar er Heiður Ísafold Þóreyjar- og Finnbogadóttir, f. 2011, eiginmaður Þóreyjar er Fayaz Khan. 2) Harpa Sjöfn, sendiráðsstarfsmaður, f. 1956. 3) Anna Sigurborg, leikstjórastjóri, f. 1959, gift Jóni Gunnari Grjetarssyni, d. 2007. Börn þeirra Andri, f. 1984, Sandra, f. 1989, og Tinna, f. 1991. Eiginkona Andra er Guðríður Gunnlaugsdóttir, börn þeirra Viktoría Draumey, f. 2009, og Stefanía Lea, f. 2014. Barn Söndru Jón Skúli Söndruson Róbertsson, f. 2017. 4) Óskar Sigurður, kjötiðnaðarmeistari, f. 1961, kvæntur Arndísi K. Kristleifsdóttur. Börn þeirra Stefanía Erla, f. 1989, og Hörður Sævar, f. 1995. Eiginmaður Stefaníu Erlu er Haukur Hannesson, börn þeirra Hrafntinna Alba, f. 2014, og Birnir Theodór, f. 2018. 5) Jón Hugi Svavar, framkvæmdastjóri, f. 1963, kvæntur Elsu J. Björnsdóttur (skilin). Börn þeirra Dagný, f. 1988, Björn, f. 1990, og Sara Ýr, f. 1996.

Hörður kvæntist 30. desember 2005 síðari eiginkonu sinni, Önnu Margréti Friðbjarnardóttur, f. 15. ágúst 1921, d. 27. sept. 2017. Anna átti þrjá syni, Atla, Kjartan og Gísla Ásmundssyni, auk fósturdóttur, Önnu Margrétar Bragadóttur.

Hörður lauk námi við Íþróttakennaraskóla Íslands 1952. Starfaði við sundkennslu frá þeim tíma sem farandkennari, sem og í Hafnarfirði og á Selfossi. Forstöðumaður Sundhallar Selfoss 1960-1983. Hann vann hjá Rauða krossinum í eitt ár, en hjá Ungmennafélagi Íslands til starfsloka 1999, síðast sem skrifstofustjóri.

Hörður sat í stjórn Ungmennafélags Selfoss í 16 ár og sem formaður í níu ár. Hann var félagi í Rótarýklúbbi Selfoss og forseti hans í eitt ár, í stjórn Sundsambands Íslands í sex ár og sem formaður í tvö ár, og í stjórn Starfsmannafélags Selfossbæjar í fimm ár og sem formaður í þrjú ár. Hörður starfaði mikið með Leikfélagi Selfoss og var formaður þess um tíma. Hann var einn stofnenda Hjónaklúbbs Selfoss og var fyrsti formaður hans. Frá 2000 tók Hörður virkan þátt í starfi leikfélags eldri borgara í Reykjavík, Snúðs og Snældu, og var formaður þess í fimm ár alls.

Hörður var sæmdur starfsmerki UMFÍ, gullmerki Sundfélags Hafnarfjarðar og Ungmennafélags Selfoss, auk heiðursmerkis Sundsambands Íslands. Hann var kjörinn heiðursfélagi Ungmennafélags Selfoss 1986.

Útförin fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.

Elsku hjartans pabbi minn er látinn, 86 ára að aldri.

Nú ertu farinn, pabbi, farinn á nýjar slóðir, farinn úr okkar heimi. Veikindin voru stutt og komu okkur í opna skjöldu. En þú stóðst þig svo vel, svo tilbúinn að fara og lést okkur vita af því. Það var sárt fyrir okkur sem eftir lifum, en við skildum, þú varst orðinn þreyttur og saddur lífdaga.

Þú áttir gott líf og fórst sáttur, eiginlega með bros á vör, átakalaust. En ég minnist, minnist þín, alltaf brosandi, kátur, þakklátur fyrir það sem þú áttir og upplifðir á degi hverjum. Þú gekkst í gegnum nokkur áföll í lífinu, bognaðir en brotnaðir aldrei, alltaf tilbúinn að halda áfram, jákvæður og sáttur með lífið og tilveruna.

Ég er svo þakklát fyrir þig sem pabba. Þú varst alltaf til staðar, hvattir mann til dáða, treystir manni og gafst manni frelsi til að þroskast og verða sterkur og sjálfstæður einstaklingur. Þú varst kátur, duglegur, góður og hjartahlýr maður með mikla réttlætiskennd sem þú sýndir svo vel í gegnum ævistarf þitt með börnum og ungu fólki. Þú varst góð fyrirmynd í öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur í vinnu og félagsstarfi.

Þú og mamma gáfuð mér fallega æsku, fallegt heimili og góðar minningar frá æskuárunum.

Ég man sumrin þar sem við fórum í tjaldútilegur um landið, bíllinn pakkaður af börnum, kótelettum, kleinum, harðfiski og flatkökum. Ég man að þú lagðist þvert fyrir framan tjalddyrnar til verndar fjölskyldunni.

Ég man alla leikina sem farið var í þegar stórfjölskyldan hittist á góðum sumardegi, þar varstu hrókur alls fagnaðar og stýrðir mannskapnum. Ég man alla bíltúrana þar sem farið var í sjávarþorpin og út á bryggju. Ég man þú sagðir okkur þá frá æskuslóðunum, Siglufirði, sjómennskunni og lífinu á bryggjunni.

Ég man þegar þú fórst með okkur systkinin í jólabað á aðfangadagsmorgun í sundlaugina. Þú kveiktir bara á ljósum í sundlauginni sjálfri og við nutum þess að eiga laugina út af fyrir okkur, í rökkrinu, í ævintýraljóma jólanna. Ég man hversu gaman þér þótti að skreyta húsið með ljósum á jólum. Ég man þegar þú skrifaðir á smjörpappír bréf frá jólasveininum.

Ég man þegar þú fórst með mig út á sveitavegi og kenndir mér að keyra. Ég man þegar við fengum að keyra í sandinum svarta á Eyrarbakka þar sem við ræktuðum kartöflur. Ég man þegar þú leiddir heitt vatn í gosbrunninn í lóðinni heima á góðum sumardegi. Ég man hvað þið mamma nutuð þess að vera saman og vinna í garðinum.

Ég man hvað þú varst bóngóður, áttir erfitt með að segja nei. Ég man hvað það var gaman að fara með þér í vinnu á kvöldin, þegar þú kenndir krökkunum úr nærsveitum sund. Ég man frændfólkið sem kom úr höfuðstaðnum á sumrin og lærði að synda hjá Hödda frænda. Ég man öll systkini ykkar mömmu sem dvöldu hjá okkur yfir vetur og kláruðu gagnfræðapróf eða fóru í iðnnám.

Já, þið mamma studduð marga og opnuðuð heimili okkar fyrir mörgum og áttuð marga vini.

Svona væri endalaust hægt að telja upp það sem ég man.

En elsku pabbi, ég kveð þig með trega í hjarta en þakklæti fyrir allt sem þú gafst mér, Jóni mínum og ekki síst mínum börnum og barnabörnum. Þú varst maður með stórt hjarta.

Anna Sigurborg.

Afi minn, Hörður Sævar Óskarsson, er látinn. Þessi orð eru þung, ég á erfitt með að skilja að þessi maður sem alltaf hefur staðið við bakið á mér sé nú fallinn frá.

Afi Hörður var góður maður, góður drengur eins og það var nú kallað í gamla daga. Ég sá hann aldrei skipta skapi, hann var brosmildur, skarpur og óendanlega góður við barnabörnin sín. Hann og amma Dagný reyndust mér afskaplega vel. Ég bjó hjá þeim einn veturinn þegar ég var barn, þegar fjölskyldan lék öll á reiðiskjálfi, búsett í tveimur heimsálfum. Afi og amma tæmdu bókaherbergið, keyptu glæný húsgögn og ég var komin með mitt fyrsta unglingaherbergi.

Afi var félagslyndur, það þýddi sjaldan að hringja í heimasímann hans, best var að hringja í gemsann því hann var alltaf eitthvað að bralla. Þegar hann fór á eftirlaun hófst lífið fyrir alvöru, hann fór að starfa með Snúði og Snældu, leikfélagi eldri borgara. Skyndilega var afi kominn upp á svið, á sjónvarpsskjáinn, á hvíta tjaldið!

Árið 2007 sat ég í kvikmyndasal í New York, gestur á norrænni kvikmyndahátíð. Ég hafði lengi verið búsett erlendis og naut þess að fá tækifæri að heyra íslensku. Nema hvað, skyndilega, birtist afi á skjánum, alls óforvarandis.

Þarna var hann, í stuttmyndinni Góðir gestir eftir Ísold Uggadóttur, mynd sem nýlega hafði verið sýnd á Sundance. Það er ekki ofsögum sagt að ég hrópaði upp yfir mig, fólkið sem sat fyrir framan mig var ekki par ánægt með poppkornið sem skyndilega var kastað yfir þau. Afi minn var meira kúl en ég held að ég verði nokkurn tímann.

Svona var afi, alltaf að koma konu á óvart. Honum tókst einnig að koma mér á óvart með því að deyja. Einn daginn tekur hann á móti mér heima hjá sér í fínu jakkafötunum með vestinu (bara svona daglegur klæðnaður, hann var alltaf svo fínn í tauinu), og hinn næsta liggur hann á sjúkrahúsi, alvarlega veikur, og svo bara farinn.

Ég sakna afa míns afar mikið.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir.

Fögur rísa fjöll úr sæ,

fangi vefja lítinn bæ

þar sem áður sí og æ

síldin óð og glóði.

Margt er til í minninganna sjóði.

Siglufjörðinn fagran tel

þó feikna oft þar komi él,

óskalandið aldrei sel

eins og óbeislaður glanni.

Margt er til í minninganna ranni.

Eitt er það sem uppúr stóð,

æskuminning ljúf og góð.

Skólasystkin hýr og rjóð,

sumt var þó í algjörlegu banni.

Margt er til í minninganna ranni.

Þó við þættumst fær í flest

fiðursnjórinn gladdi best.

Nöpur gjólan nísti mest

og norðan garrinn harði.

Margt er til í minninganna garði.

Oní fjöru og uppí fjall

fórum við með nestisdall,

dunduðum oft við drullumall

af dugnaði og karpi.

Margt er til í minninganna sarpi.

Æskuárin liðu fljótt,

æviárin hverfa skjótt,

næstum komin niðdimm nótt,

næturvakan góði.

Horfið allt úr minninganna sjóði.

Þessar vísur orti minn elskulegi elsti bróðir sem sýnir hug hans til heimabyggðar okkar.

Hann var stríðinn, umhyggjusamur og góður stóri bróðir.

Blessuð sé minning hans og hinna þriggja bræðra minna sem farnir eru á annað tilverusvið.

Erla.

Nú er vinur minn Hörður S. Óskarsson horfinn úr þessu jarðlífi og vil ég með nokkrum orðum minnast hans. Ég var búinn að þekkja hann í rúma hálfa öld. Fyrstu kynni okkar urðu með þeim hætti að ég var að kasta mæðinni eftir 200 m bringusund á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni 1965 þegar hann beygði sig niður að mér og spurði hálfhvassri röddu: Hvar hefur þú verið að æfa góði? Var ekki nema von að hann spyrði þegar strákur norðan af Ströndum var á undan sundmönnum HSK sem hann var að þjálfa. Ekki man ég eftir að okkur færi meira á milli þessa dýrðardaga á Laugarvatni. En u.þ.b. 20 árum síðar leitaði ég til hans þegar við Borgnesingar unnum að stofnun Sunddeildar Skallagríms. Fengum við góð ráð og varnaðarorð sem reyndust okkur vel.

Í framhaldi af stofnun deildarinnar tók ég að mér þjálfun hjá deildinni og hittumst við því oft á sundmótum. Eftir að ég hætti sundþjálfun bar fundum okkar sjaldnar saman. Kynni okkar hófust raunar ekki að neinu marki fyrr en hann hóf störf hjá Ungmennafélagi Íslands. Þar var hann réttur maður á réttum stað. Tók vel á móti fólki og vildi allt fyrir alla gera. Þá var gaman að koma á skrifstofu UMFÍ. Hörður var skemmtilegur félagi. Spaugsamur og hrekkjóttur og gat verið hinn mesti grallari. Sagði ég stundum að hann hlyti að vera göldróttur fyrst hann væri af Garibaldaættinni. Hann var stundum að lenda í óvæntum og skemmtilegum atvikum. Ætla ég að segja frá einu slíku sem hann sagði mér frá. Stjórn UMFÍ og starfsmenn voru á leið á þing UDN að Laugum í Sælingsdal. Áð var í Búðardal og menn fengu sér í gogginn. Hörður gekk að afgreiðsluborðinu og sagði við stúlkuna: ég ætla að fá sneið. Stúlkan hvarf inn fyrir og eftir góða stund kom hún með snuð í hendinni. Hvað er þetta? spyr Hörður. Nú varstu ekki að biðja um snuð? segir hún. Nei, ég ætlaði að fá jólakökusneið, svaraði Hörður. Stúlkan ætlaði að skila snuðinu á sinn stað, en Hörður keypti það. Sagði síðan söguna á þinginu við mikla kátínu.

Hörður var góður leikari og lék mikið með eldri borgurum síðari hluta ævinnar. Þá var hann mjög fróður um allt sem varðaði sundíþróttina. Eftir að við fórum að slaka á í starfi innan ungmennafélagshreyfingarinnar hittumst við sjaldnar. En fundum okkar bar aftur saman á ný eftir að ég gerðist stjórnarmaður í FÁÍA, Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra. En þar hafði hann verið í stjórn í mörg ár.

Ég og fjölskylda mín viljum þakka Herði S. Óskarssyni fyrir góð kynni, vináttu og margskonar aðstoð í starfi mínu innan ungmennafélagshreyfingarinnar

Votta ég aðstandendum hans samúð mína við fráfall hans.

Ingimundur Ingimundarson.

Fyrir um fimmtán mánuðum lést móðir okkar, Anna Margrét Friðbjarnardóttir, og nú leggur maður hennar, ljúfmennið Hörður S. Óskarsson, í sína ferð til fyrirheitna landsins, þar sem þau bæði verða í náðarfaðmi Drottins. Þau kynntust harðfullorðin og höfðu bæði átt farsælt líf og fjölskyldur, en misst maka sína.

Til að stytta sér stundir og vinna gegn einmanaleika og tilbreytingarleysi tóku bæði þátt í félagsstarfi aldraðra og þar lágu leiðir þeirra saman. Bæði voru þau frá Siglufirði, Hörður kominn af þekktum verkalýðsforingja, Óskari Garíbaldasyni, og var hann trúr uppeldi sínu alla tíð og skipaði sér í stjórnmálum með þeim, sem vildu verkalýðnum vel.

Okkur þótti á sínum tíma undarlegt þegar skyndilega mamma var farin að hringja sjaldnar til okkar og sendiferðum fyrir hana fækkaði til muna og það lá áberandi vel á henni. Þetta skýrðist svo allt þegar hún hringdi og tilkynnti okkur að hún hefði kynnst manni, sem hún vildi kynna fyrir okkur. Frá fyrstu stund líkaði okkur vel við Hörð og það eru engar ýkjur að segja að samband þeirra var einstaklega hamingjuríkt og gefandi. Þau undu sér vel saman og ferðuðust, meðan heilsa leyfði, og tóku þátt í ýmsu menningarlífi. Hörður var svo góður við hana mömmu okkar að það var alveg unun að fylgjast með, blíður og lipur við að gleðja hana og sinna henni. Oft las hann fyrir hana, en hann hafði fallega rödd, bæði til söngs og lestrar. Mamma var að mestu heilsuhraust, nema síðasta árið og lést eftir skamma legu á spítala. Alltaf mætti Hörður til að sitja hjá henni á sjúkrahúsinu og hefur þó vafalaust oft verið slappur sjálfur. Hann hafði nefnilega glímt við hjartveiki alllengi og stóð líf hans tæpt um tíma. Hann var vikum saman á sjúkrastofnunum og eins og hann gerði síðar mætti mamma hvern einasta dag til að sitja hjá honum, halda í höndina á honum og lesa fyrir hann, segja sögur og fara með ljóð.

Samband þeirra var einstaklega fallegt og var mikið lán fyrir þau bæði að höndla hamingjuna á ný eftir að hafa misst ástkæra maka sína alltof snemma.

Í okkar fjölskyldu ríkir mikið þakklæti til Harðar fyrir elsku hans og góðmennsku við mömmu og umhyggju og gæsku við okkur í fjölskyldunni, börn og fullorðna.

Nú síðast um jólin kom hann í jólahangikjöt fjölskyldunnar sem Kjartan efnir til á jóladag jafnan. Okkur fannst hann hress í bragði og bera sig vel. Líklega var hann veikari, en hann lét uppi.

Við synir Önnu Margrétar og fóstursystir okkar og nafna mömmu, Anna Margrét, fjölskyldur okkar og afkomendur kveðjum heiðursmanninn Hörð S. Óskarsson með miklu þakklæti og virðingu. Líf okkar allra varð ríkara við kynnin af honum og hamingjan sem mamma og hann áttu saman var okkur öllum til ómældrar gleði.

Að lokum er hér ljóð sem mamma fór gjarnan með þegar einhver nákominn lést.

Senn er nótt og ljósar lendur

liðins dægur hverfa í skuggann.

Rökkurtjöldin herrans hendur

hafa dregið fyrir gluggann.

(Jón Pétursson)

Kjartan, Anna Margrét, Atli og fjölskyldur.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til Harðar, eða langafa Harðar eins og við kölluðum hann, eftir að þau tengdaamma mín, Bíbí, kynntust. Einlægari og hjartahlýrri mann er erfitt að finna.

Líf þeirra hjóna var einstakt og til fyrirmyndar fyrir okkur öll sem stóðum þeim næst. Kærleikurinn var áþreifanlegur og virðingin þeirra á milli svo sterk.

Í hvert sinn sem við buðum til veislu voruð þið ávallt fyrst á staðinn að fagna með okkur. Þess mun ég sakna.

Sögurnar sem þú hafðir að geyma, frá liðinni tíð var unun að hlusta á. Herði var mikið í mun að skapa nýjar minningar og lifa lífinu til fulls. Baráttuþrek hans síðustu árin var ótrúlegt. Þrátt fyrir heilsubrest þá sá hann ávallt til þess um leið og hann varð fótafær að hann missti ekki af mikilvægum fjölskylduviðburðum.

Innileg hjartasorg Harðar við andlát Bíbíar var ein sterkasta tilfinning sem ég hef upplifað hjá öðrum. Hún var svo sorgleg en um leið svo falleg, hún var einlæg ást. Þú sendir mér bréf, í pósti, að lokinni jarðarför Bíbíar sem mér þykir svo vænt um og mun varðveita vel.

Með sorg í hjarta kveð ég þig, minn góði vinur. Ég trúi því að nú sért þú á góðum stað með góðu fólki.

Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið okkur og börnum okkar, minning þín mun lifa um ókomna tíð.

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir,

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan,

hjartasláttinn, rósin mín,

er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður, kyssa blómið,

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað,

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson)

Hrafnhildur Þórisdóttir.