Hafsteinn Jónsson fæddist 25. janúar 1919 á Selbakka á Mýrum, A-Skaft. Foreldrar hans voru hjónin Jón Magnússon frá Eskey á Mýrum, f. 1889, d. 1962, bóndi á Höskuldsstöðum í Breiðdal, og Jóhanna Kr. Guðmundsdóttir, frá Skálafelli í Suðursveit, f.

Hafsteinn Jónsson fæddist 25. janúar 1919 á Selbakka á Mýrum, A-Skaft. Foreldrar hans voru hjónin Jón Magnússon frá Eskey á Mýrum, f. 1889, d. 1962, bóndi á Höskuldsstöðum í Breiðdal, og Jóhanna Kr. Guðmundsdóttir, frá Skálafelli í Suðursveit, f. 1891, d. 1983, húsfreyja. Fjölskyldan fluttist frá Selbakka vegna vatnaágangs að Höskuldsstöðum og þar ólst Hafsteinn upp, en hann átti fjögur systkini.

Hafsteinn fór snemma á vertíð á vetrum og eignaðist síðar trillubát. Hann var ungur að árum þegar hann keypti sinn fyrsta vörubíl og stundaði akstur með varning og fólk og við vegagerð. Hann vann mikið við vélaviðgerðir og setti á stofn og starfrækti vélaverkstæði á Breiðdalsvík og stjórnaði húsbyggingum í þorpinu og víðar.

Árið 1962 var Hafsteinn ráðinn til Vegagerðar ríkisins til að hafa umsjón með vegagerð á Suðausturlandi, en hafði verið ráðinn verkstjóri þar árið áður. Þar starfaði Hafsteinn til 1989 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Í tíð Hafsteins voru brúuð stórfljót eins og Hornafjarðarfljót 1961, Jökulsá á Breiðamerkursandi 1967 og árnar á Skeiðarársandi 1974.

Hafsteinn sat í hreppsnefnd Breiðdalshrepps 1950-1958 og í hreppsnefnd Hafnarhrepps 1970- 1974. Hann var einn af stofnfélögum Lionsklúbbs Hornafjarðar og Golfklúbbs Hornafjarðar, þar sem hann vann ötult starf að uppbyggingu golfvallarins.

Hinn 18.3. 1944 kvæntist Hafsteinn Rósu Þorsteinsdóttur, f. 29.12. 1918, d. 7.5. 2005, matráðskonu og síðar skrifstofumanni hjá Vegagerðinni. Þau stofnuðu sitt fyrsta heimili á Breiðdalsvík 1942 og bjuggu þar til ársins 1958 er þau flytjast til Hafnar í Hornafirði þar sem þau bjuggu til æviloka. Börn þeirra: Bára, f. 1945, d. 2017, og Steinþór, f. 1949.

Hafsteinn lést 23. september 2006.