Antoníus Þorvaldur Ólafsson fæddist í Reykjavík 6. ágúst 1936. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 12. janúar 2019.

Foreldrar hans voru Selma Antoníusardóttir, húsmóðir og kaupkona frá Byggðarholti í Vestmannaeyjum, f. 1912, d. 1989, og Ólafur Stefánsson verslunarmaður, f. á Hvammstanga 1913, d. 1991. Þorvaldur var elstur þriggja systkina. Bróðir hans var Stefán flugvélstjóri, f. 1938, d. 1970. Systir hann er Rannveig, f. 1944.

Eiginkona Þorvalds er Ólöf Árnadóttir húsmóðir, f. Hafnarfirði 14.9. 1935. Foreldrar hennar voru Guðlaug Ólafsdóttir, f. 1902, d. 1979, og Árni Elísson sjómaður, f. 1904, d. 1976.

Þorvaldur og Ólöf bjuggu lengst af í Breiðási 11, Garðabæ. Síðustu árin á Strikinu 2, Garðabæ. Þau gengu í hjónaband 3.12. 1955 og eignuðust þrjú börn. 1) Guðlaug, f. 21.6. 1956, d. 2.12. 1978. 2) Ólafur vélfræðingur, f. 17.12. 1957. Eiginkona hans er Erla Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 20.6. 1958. Börn þeirra eru a) Lilja Kristín, f. 1981. Eiginmaður hennar er Úlfur Teitur Traustason og eiga þau þrjú börn. b) Þorvaldur Ólafsson, f. 1984. Eiginkona hans er Katrín Briem og eiga þau tvö börn. c) Eygló Dögg, f. 1996, í sambúð með Attila Balatoni. 3) Steinunn Birna sjúkraliði, f. 5. 7. 1961. Dóttir hennar er Ólöf Steinunnardóttir, f. 1984. Eiginmaður hennar er Loïc Baboulaz og eiga þau tvö börn.

Þorvaldur stundaði nám við Austurbæjarskóla og Iðnskóla Reykjavíkur ásamt verklegu námi í vélsmiðjunni Steðja þaðan sem hann lauk sveinsprófi í vélvirkjun 1956. Síðan hóf hann nám við Vélskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist 1960. Síðar stundaði hann nám og þjálfun í köfun hjá danska sjóhernum.

Meðfram námi og fyrst á eftir sótti Þorvaldur sjó, fyrst sem aðstoðarmaður í vél og síðar sem vélstjóri á ýmsum fiskiskipum og strandferðaskipum ásamt olíuskipinu Hamrafelli.

Árið 1962 réðst hann sem yfirvélstjóri á Árvakur, nýtt skip Vita- og hafnamálastjórnar, og starfaði þar til ársins 1969. Eftir það var hann yfirvélstjóri á ýmsum bátum og skipum. Lengst af á loðnu- og síldarbátunum Ásgeiri RE-60 og Héðni ÞH-57. Einnig var hann yfirvélstjóri á flutningaskipinu Hansa Trade. Árið 1977 réðst hann til starfa hjá Siglingamálastofnun Íslands þar sem hann starfaði sem skipaskoðunarmaður og umsjónarmaður köfunarmála til ársins 1987.

Samhliða störfum hjá Siglingamálastofnun á árunum 1980 til 1983 smíðaði hann sér og gerði síðan út til ársins 1997 neta- og handfærabátinn Selmu HF-130 .

Síðustu starfsár sín var hann vélstjóri á olíuskipinu Bláfelli og síðan nótabátnum Faxa GK-44 og Faxa RE til 2002.

Um langt árabil vann Þorvaldur sjálfboðavinnu fyrir Slysavarnafélag Íslands, lengst af sem vélstjóri á björgunarbátnum Gísla J. Johnsen. Einnig sat hann um tíma í stjórn Vélstjórafélags Íslands. Hann var í mörg ár félagi í Kiwanisklúbbnum Setbergi, Garðabæ.

Útför Þorvalds fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 25. janúar 2019, klukkan 15.

Nú þegar hann pabbi hefur lagt upp í sína síðustu ferð yfir hafið endalausa, þá koma upp í huga minn margar minningar um góða tíma.

Þrátt fyrir erfiðar stundir sem fylgdu sjúkdómi hans, þá eru það góðu stundirnar sem við áttum saman sem sitja eftir.

Auðvitað var pabbi mín helsta fyrirmynd, sá sem vísaði mér veginn í æsku. Það var vegna hans áhuga á skátastarfi, sem ég gerðist skáti og starfaði í Skátafélaginu Vífli í Garðabæ. Vegna góðra minninga hans um sveitadvöl hjá frændfólki í Efstalandskoti í Öxnadal, sá pabbi um að koma mér í sveit á sumrin þegar ég var drengur. Ekki má ég gleyma öllum þeim ferðum sem hann tók mig með um borð í vitaskipið Árvakur og síðar í síldarbátinn Ásgeir í Norðursjóinn. Þetta voru ævintýri sem höfðu mikil áhrif á mig.

Fyrstu ferðir mínar á skíði, annars staðar en á Valdatúni, voru þegar pabbi keyrði mig og fleiri í Skálafell. Einnig er það mér minnisstætt þegar ég var unglingur og við höfðum það að venju að tefla eina skák eftir kvöldmat.

Síðar fór ég sömu leið og pabbi, lærði vélvirkjun og vélstjórn og starfaði sem vélstjóri á sjó.

Við áttum margar stundir saman í vinnu þegar hann var að smíða bátinn sinn, Selmu HF-130.

Einnig áttum við góðar stundir sumarið sem ég réri með honum frá Grindavík. Síðasta samtal okkar feðga var tveimur dögum áður en hann kvaddi. Þá spurði ég hann þar sem hann lá rænulítill hvort hann myndi eftir þegar við vorum á skaki við Reykjanes. Þá opnaði pabbi augun og sagði „hvernig getur maður gleymt því“.

Síðar gerðumst við viðskiptafélagar, þegar ég kom með honum að rekstri félagsins Ísbands sf., sem við rákum saman til hans hinsta dags.

Ég vil þakka þér, pabbi, fyrir góðvildina sem þú sýndir okkur Erlu, börnunum okkar og langafabörnunum.

Einnig þakka ég allar soðningarnar sem þú færðir okkur á Selmu árunum.

Blessuð sé minning þín.

Ólafur.

Þann 12. janúar féll afi minn og alnafni frá. Með ást og hlýju þakka ég honum fyrir að hafa verið mér kærleiksríkur afi.

Síðustu ár reyndust honum erfið, því er ekki að neita, og má í raun þakka fyrir að hann hafi loks fengið líkn frá sínum veikindum.

Þeir sem til hans þekkja vita að nafni bar ávallt hag hins minni máttar fyrir brjósti. Þannig umlukti hann til að mynda okkur barnabörnin með ást og alúð og vildi ævinlega allt fyrir okkur gera. Sjómaðurinn sá dúkkaði oft á tíðum upp með nýveitt í soðið, en tók ekki síður þátt í að sækja og skutla ef svo bar undir. Þá var hann mikið náttúrubarn og fór gjarnan með okkur í ferðir um nærsveitir þar sem njóta mátti náttúrunnar. Minnisstæðar eru sumarbústaðaferðir með ömmu og afa, t.d. að Laugarvatni. Það var í einni slíkri að nafni kom mér einlæglega fyrir sjónir sem fótfráasti maður í heimi. Þó hann hafi nú kannski aldrei stundað íþróttir, var hann að minnsta kosti hraustmenni mikið sem vílaði ekkert fyrir sér þegar kom að líkamlegri vinnu. Þetta endurspeglaðist í þeim ógnarspretti sem hann tók hér um árið á Laugarvatni og skapaði þessa ímynd mína af honum.

Í mínu tilfelli dró hann mig sömuleiðis óhikað með sér í vinnuferðir út á land, þar sem mér var ætlað að „hjálpa“ til. Eina slíka ferð fórum við til Vestmannaeyja. Eflaust hefði hann klárað verkið klakklaust án þess að ég væri til staðar að rétta honum skiptilykilinn við og við, en samvera okkar nafna situr þó eftir sem dýrmætur tími.

Nafni sýndi mér ætíð hlýju. Þó þótti mér hann örlítið of hreinskilinn þegar 12 ára ég óskaði eftir að fá forláta rakvél í afmælisgjöf. Sagði hann enga þörf á slíkri vél fyrir minn vesæla hýjung. Amma fékk þó ráðið og fékk ég að endingu vélina forláta. Afi hafði rétt fyrir sér, vélin kom að litlum notum næstu fimm árin.

Í veikindum nafna breyttist hans kærleiksríka viðmót til mín og fjölskyldu minnar aldrei. Alltaf þegar við heimsóttum hann tók hann okkur fagnandi og með bros á vör. Líkt og hann hafði verið elskulegur við okkur barnabörnin, var hann ekki síður elskulegur við langafabörnin sín. Þó mín börn hafi ekki kynnst afa áður en hann veiktist, duldist þeim þó ekki að þarna fór hlýr og góður maður.

Góða ferð, elsku afi.

Þorvaldur Ólafsson.

Það er svo margs að minnast þegar mér verður hugsað til afa. Ég get engan veginn valið uppáhalds stundir eða samræður, enda voru þær óteljandi. Ég mun sakna mest samtalanna við afa, hvort sem þau áttu sér stað í húsbóndastólnum hans í horni stofunnar á Breiðási eða í símtölum héðan og þaðan um heiminn. Ég var heppin að eiga afa sem vin og geta deilt með honum upplifunum mínum á erlendri grundu sem og öðrum lífsins verkefnum og áskorunum. Alltaf fékk ég áhugaverðar spurningar og vangaveltur sem lituðust af lífsreynslu hans og ævistarfi út á sjó, sem hann stundaði til lengri tíma fjarri fjölskyldu sinni. Afi reyndist mér mikill styrkur þegar ég þurfti sem mest á því að halda og ég verð honum ævinlega þakklát fyrir göngutúra okkar í Heiðmörk og niður á Gróttu sumarið 2010. Ég mun ávallt minnast afa sem ævintýragjarns mannvinar, með mikla þrautseigju, stórtækar hugmyndir sem hann var óhræddur við að hrinda í framkvæmd. Til allrar lukku var afi búinn þeim hæfileika að þaulskipuleggja ferðir sínar og leysa einstaklega vel úr vandamálum þegar þau komu upp.

Ég veit að afi var búinn að þrá það lengi að fá að fara og það er gott að vita að hann hafi ekki þurft að þjást lengur en raun ber vitni.

Það er samt ótrúlega sárt að vita til þess að afi sé farinn og samtölin og göngutúrarnir verði ekki fleiri. Hann var fyrirmynd á mörgum sviðum og mun lifa áfram í afkomendum sínum um ókomna tíð.

Mig langar til að kveðja afa með erindi úr ljóði Davíðs Stefánssonar vegna þess að ég á mjög sterkar minningar frá því að hann hjálpaði mér að læra – og meta – hin ýmsu ljóð sem mér bar að læra utanbókar á grunnskólaaldri.

Ég horfi ein

á eftir þér,

og skipið ber

þig burt frá mér.

Ég horfi ein

við ystu sker,

því hugur minn

er hjá þér bundinn,

og löng er nótt

við lokuð sundin.

(Davíð Stefánsson

frá Fagraskógi)

Þín

Ólöf.

Dagurinn er að kveldi kominn. Eftir situr minning um mann, Þorvald Ólafsson vélstjóra, sem hefur kvatt þennan heim.

Þorvaldur var skipverji hjá mér á M.S. Faxa RE um nokkurt skeið. Var okkur vel til vina, enda hafði hann til að bera hógværð og réttlætistilfinningu fyrir góðum málefnum.

Hann var vélstjóri um borð ásamt Stefáni Unnari heitnum. Að hafa slíka menn til að halda hjarta skipsins gangandi var ákveðin forréttindi, enda varð aldrei feilpúst þar, þrátt fyrir mikið álag. Þorvaldur hafði oft orð á því hversu ánægður hann var að vera í þessu skipsrúmi.

Oft var siglt með mikið hlaðið skip til annarra landa, sem hefði ekki verið gert nema fyrir það að þessum mönnum var treystandi.

Öllum er það ljóst að hver og einn er kallaður yfir móðuna miklu. Eftir situr minningin hjá hinum sem eftir verða. Því er það hlutskipti mitt að kveðja þessa frábæru menn.

Við konan mín sendum Ólöfu og öðrum ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Ingvi Rúnar Einarsson,

fv. skipstjóri.