Akureyri Hér er ýmislegt spennandi að gerast, segir Indiana Ása.
Akureyri Hér er ýmislegt spennandi að gerast, segir Indiana Ása.
Afmælisdagurinn verður lúxus. Við hjónakornin ætlum að skreppa barnalaus austur í Mývatnssveit og vera þar á hóteli eina nótt. Njóta þess þar að slappa af, fara í gönguferðir og gera eitthvað skemmtilegt.

Afmælisdagurinn verður lúxus. Við hjónakornin ætlum að skreppa barnalaus austur í Mývatnssveit og vera þar á hóteli eina nótt. Njóta þess þar að slappa af, fara í gönguferðir og gera eitthvað skemmtilegt. Það er nauðsynlegt að komast í nýtt umhverfi öðru hvoru,“ segir Indiana Ása Hreinsdóttir á Akureyri, sem er 42 ára í dag.

Indiana ólst upp á Svalbarðseyri og á góðar minningar þaðan og frá unglingsárunum í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Hún tók stúdentspróf frá VMA og fór síðan suður til Reykjavíkur, þar sem hún nam mann- og fjölmiðlafræði til BA-gráðu við Háskóla Íslands. Fór svo í meistaranám í blaða- og fréttamennsku og átti síðan eftir að starfa við fjölmiðla í mörg ár.

„Ég var í mörg ár á DV og Fréttablaðinu , fyrst fyrir sunnan en svo seinna hér á Akureyri og skrifaði þá efni úr öllum landshlutum. Mest var ég í viðtölum og lagði mig þá eftir því að spjalla við venjulegt fólk sem hafði mikilvægar sögur að segja,“ segir Indiana sem 2015-2017 ritstýrði Akureyri vikublaði . Fyrir nokkrum misserum var hún svo ráðin kynningar- og markaðsstjóri Menningarfélags Akureyrar, en undir hatti þess eru Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof. „Hér er ýmislegt spennandi að gerast. Sýningum á Kabarett fer að ljúka og núna standa yfir æfingar á barna- og fjölskyldusöngleiknum Gallsteinar afa Gissa sem ég trúi að slái í gegn. Svo verða hér ýmsir tónleikar á næstunni og fleiri áhugaverðar samkomur,“ segir Indiana sem er gift Stefáni Frey Jóhannssyni. Þau eiga fjórar dætur; tvíburana Marsibil og Ísabel sem eru 11 ára, Hreindís Anna er 8 ára og Sóldögg Jökla er 5 ára. sbs@mbl.is