Magnús Þorberg Haukdal Jónsson fæddist í Haukadal í Dýrafirði 20. nóvember 1920. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þann 10. janúar 2019.

Foreldrar hans voru hjónin í Höll, þau Ástríður Jónína Eggertsdóttir húsfreyja, f. 18. júní 1888, d. 22. mars 1969, og Jón Guðmundsson bóndi og smiður, f. 19. ágúst 1886, d. 17. desember 1950. Börn þeirra hjóna, talin í aldursröð: Eggert Haukdal, f. 17. maí 1913, d. 14. október 1984; Elínborg Haukdal, f. 19. september 1916, d. 8. mars 1991; Guðmundur Pétur Haukdal, f. 15. janúar 1919, d. 2. febrúar 1996; Magnús Þorberg Haukdal, sem hér er minnst; Gunnar Agnar Haukdal, f. 1. desember 1922, d. 27. október 2003, Hákon Haukdal, f. 29. janúar 1925, d. 29. september 2013, og Sigríður Guðmunda, f. 23. júní 1931, d. 13. janúar 2009.

Magnús kvæntist 17. júní 1950 Ingibjörgu Sigurjónsdóttur frá Hlíð í Reykhólasveit, f. 21. júlí 1921, d. 21. október 1990. Foreldrar hennar voru Sigurjón Kristjánsson skósmiður, f. 20. júní 1890, d. 26. janúar 1950, og Sigurlína Kristín Þórðardóttir húsfreyja, f. 18. ágúst 1885, d. 14. maí 1969.

Börn Magnúsar og Ingibjargar eru: 1) Sigurjón Kristjánsson, f. 28. júlí 1946, kvæntur Bodil Kristjansson, börn þeirra eru a) Thomas, kvæntur Maj, börn þeirra eru Viktor og Malthe, b) Maria gift Martin, börn þeirra eru Astrid og Ingrid. 2) Jón G. Magnússon, f. 2. október 1949, kvæntur Nínu Agnarsdóttur, börn þeirra eru a) Ingibjörg Agnes gift Daða, börn þeirra eru Nína Ísafold, Viggó Jón og Fríða Lovísa, b) Magnús Unnar Haukdal. 3) Ása Magnúsdóttir, f. 24. mars 1953, gift Sigurði Karlssyni, börn þeirra eru a) Inga María í sambúð með Ólafi Má, sonur hans er Ólafur Aron, b) Anna Jóna. 4) Sigurlína K. Magnúsdóttir, f. 9. janúar 1957, börn hennar eru a) Ólafur Þór og b) Tómas Jón Haukdal.

Magnús ólst upp í Höll í Haukadal, hann fór ungur á sjó og flutti síðan til Reykjavíkur um tvítugt og fór að vinna við byggingu Reykjavíkurflugvallar. Hann var sjómaður í yfir 40 ár og vann á allt frá smábátum til stærstu flutningaskipa. Hann stofnaði heimili með eiginkonu sinni Ingibjörgu í Reykjavík og bjó lengst af við Laugarnesveg, síðustu árin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.

Útför Magnúsar fer fram frá Neskirkju í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.

Í dag kveðjum við afa okkar sem eyddi síðustu árunum á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem honum leið vel og hugsað var vel um hann.

Þegar við vorum yngri vorum við alltaf velkomnar til afa á Laugarnesveginum þar sem hann sauð iðulega fisk og kartöflur og stappaði saman fyrir okkur og köttinn Mósa. Afi var mikið að passa okkur og var alltaf með nóg fyrir stafni, hann kenndi okkur að skrifa og sat hann oft tímunum saman og gerði punktastafi sem við skrifuðum eftir.

Afi skrifaði afar vel og málaði myndir, aðallega af sveitinni sinni og skipum sem hann hafði siglt með.

Það var alltaf gaman að eyða tíma með honum í sveitinni hans þar sem hann sagði fólki til verka og sýndi metnað til að halda æskuheimilinu sínu við. Síðan runnu upp úr honum sögurnar um margt sem hann hafði upplifað í gegnum árin og svaraði öllu spurningaflóði þolinmóður og með bros á vör.

Ekki að furða að þegar kom að íslenskuverkefni í framhaldsskóla þar sem við áttum að ræða við eldri einstakling þjóðfélagsins þá völdum við systurnar báðar að ræða við afa um gömlu tímana.

Sem í dag er gersemi að eiga á blaði og þar skín í gegn hvað afi var góður maður og annt um alla í kringum sig.

Hann sagði okkur meðal annars sögu úr smölun þegar hann var 9 ára gamall en þá vantaði eina kind og hann var sendur að leita að henni.

Eftir að vera búinn að ganga í um klukkustund í mikilli rigningu þá fann hann kindina og lambið hennar nær dauða en lífi því það komst ekki á spena. „Þá mjólkaði ég í lófann á mér og saup það og opnaði svo munninn á lambinu og spýtti mjólkinni upp í það tvisvar til þrisvar sinnum og setti það síðan inn undir peysuna mína og gekk heim og kindin elti og ég gaf lambinu að drekka nokkrum sinnum á heimleið,“ sagði afi stoltur.

Afi var mjög hógvær gagnvart sjálfum sér og vildi ekki láta hafa mikið fyrir sér. Hann var mjög hreinskilinn og samviskusamur og talaði aldrei illa um náungann. Afi var mikil og góð persóna sem mun lifa í minningu okkar um alla tíð.

Nú ertu kominn í faðm Ingu ömmu þar sem þér leið alltaf vel. Takk fyrir allt, elsku besti afi okkar.

Þínar

Inga María og Anna Jóna.