Í Vesturbænum
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslandsmeistarar KR höfðu betur gegn Val, 96:89, er liðin mættust í 15. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og náðu KR-ingar ekki að slíta sér frá þrjóskum Valsmönnum fyrr en í blálokin.
KR er enn nokkuð frá sínu besta og á liðið mikið inni, þrátt fyrir sigurinn. Breiddin hjá KR vegur hins vegar þungt. Ef einhverjir leikmenn eiga slæman dag spila aðrir betur í staðinn. Jón Arnór Stefánsson var sterkur framan af en þegar hægðist á honum tók Emil Barja við keflinu og átti hann líklegast sinn besta leik fyrir KR í gær. Hann setti m.a. mikilvæga þriggja stiga körfu í blálokin sem fór langt með að tryggja sigurinn. Emil skoraði 17 stig, sem er tíu stigum meira en meðaltal hans á leiktíðinni til þessa.
KR-ingar voru lengi af stað gegn mjög hreyfanlegri og sterkri vörn Valsmanna. Pressa Valsmanna virtist koma KR-ingum í opna skjöldu. Það er hins vega erfitt að halda uppi slíkri orku í varnarleiknum í heilan leik og virtust leikmenn Vals þreyttir á lokakaflanum.
Það vantaði ekki mikið upp á hjá Val, enn eina ferðina. Dominique Rambo átti sinn langbesta leik hér á landi til þessa og skoraði hann 42 stig og nýtti sex af sjö skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Aðrir leikmenn Vals hittu hins vegar samtals úr þremur þriggja stiga skotum af 26. Með örlítið betri nýtingu fyrir utan, hefði Valur getað fagnað tveimur glæsilegum stigum.
Valsmenn eru hins vegar orðnir ákaflega vanir því að tapa jöfnum leikjum sem þessum. Það hefur áhrif á sálarlífið og trúa leikmenn Vals sennilega ekki sjálfir að þeir geti unnið jafna leiki þegar skammt er eftir. Frammistaðan var nokkuð góð, en flestir sem lögðu leið sína í Vesturbæinn hefðu sennilega veðjað á sigur KR þegar staðan var jöfn og lítið eftir. Það er algjört framhald af síðasta tímabili, þar sem Valur tapaði ófáum stigum með slæmum lokaköflum. Liðið væri á mjög góðum stað í töflunni ef fjórði leikhlutinn væri jafn vel leikinn og hinir þrír.
Ef eitthvert lið getur nýtt sér veikleika andstæðingsins er það sennilega KR. Reynsluboltarnir hjá KR-ingum voru alltaf líklegir til að knýja fram sigur. Fram undan er barátta hjá KR að ná heimaleikjarétti í úrslitakeppninni, en liðið fór upp í fjórða sæti með sigrinum. Valsmenn eru hvorki í alvarlegri fallbaráttu, né í alvöru baráttu um að ná sæti í úrslitakeppninni. Með aðeins meiri skynsemi í lok leikja, væru Valsmenn í mun betri stöðu, réttum megin í töflunni. Það er hins vegar ekki nóg að spila vel í þrjá leikhluta, sérstaklega á móti liðum eins og KR.
Fimm sigrar í sex leikjum
Þórsarar úr Þorlákshöfn eru áfram á sigurbraut en þeir unnu sinn fimmta sigur í sex leikjum þegar þeir sóttu heim granna sína á suðurströndinni, Grindvíkinga. Lokatölur urðu 95:82 fyrir Þór sem var yfir í hálfleik, 48:41.Þór er þá kominn tveimur stigum fram úr Grindvíkingum í sjötta sætinu og liðið gerir sig líklegt til að blanda sér í baráttuna um fjórða sætið.
Nikolas Tomsick skoraði 28 stig fyrir Þór og Kinu Rochford átti enn og aftur mjög góðan leik með 27 stig og 17 fráköst. Hjá Grindavík voru Lewis Clinch og Jordy Kuiper með 17 stig hvor og Sigtryggur Arnar Björnsson 16.
Háspenna en 11 töp í röð
Skallagrímur tapaði sínum ellefta leik í röð en eftir tvo sigra í fjórum fyrstu umferðunum hafa Borgnesingar ekki fengið stig síðan þeir unnu ÍR á heimavelli 26. október. En þeir voru nærri því í gærkvöld því ÍR knúði fram sigur í æsispennandi leik í Seljaskóla, 96:95.Borgnesingar náðu um tíma ellefu stiga forystu í fjórða leikhluta en liðin voru yfir til skiptis á lokakaflanum. Gerald Robinson skoraði sigurstigin tvö fyrir ÍR úr vítaskotum þegar 11 sekúndur voru eftir. Þriggja stiga skot Aundre Jackson geigaði á lokasekúndunni.
Kevin Capers var með 34 stig og 15 stoðsendingar fyir ÍR, Robinson skoraði 21 og tók 11 fráköst og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 20. Jackson var með 21 stig fyrir Skallagrím, Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson 19 hvor.
Tíunda tap Blika í röð
Breiðablik hefur heldur ekki unnið leik síðan í október, fékk þá sín einu tvö stig með sigri á Skallagrími, og tapaði tíunda leiknum í röð, 93:105 fyrir Haukum í Smáranum. Haukar voru yfir í hálfleik, 58:45, en Blikar hleyptu spennu í leikinn og minnkuðu muninn í eitt stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þá sigu Haukarnir framúr á ný.Russell Woods skoraði 32 stig fyrir Hauka og tók 14 fráköst og Haukur Óskarsson skoraði 24 stig. Kofi Omar Josephs skoraði 31 stig fyrir Blika og Hilmar Pétursson 27.
KR – Valur 96:89
DHL-höllin, Dominos-deild karla, fimmtudag 24. janúar 2019.Gangur leiksins : 5:9, 17:14, 23:27, 27:32 , 33:37, 39:40, 43:43, 49:45 , 56:53, 63:58, 72:66, 74:74 , 81:76, 81:80, 83:82, 90:87, 96:89.
KR : Jón Arnór Stefánsson 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Julian Boyd 19/11 fráköst/5 stolnir, Emil Barja 17, Pavel Ermolinskij 11/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 7, Orri Hilmarsson 7, Kristófer Acox 7/9 fráköst, Björn Kristjánsson 4.
Fráköst : 25 í vörn, 10 í sókn.
Valur : Dominique Deon Rambo 42/5 fráköst/5 stoðsendingar, Aleks Simeonov 14/11 fráköst/3 varin skot, Ragnar Agust Nathanaelsson 11/8 fráköst, Austin Magnus Bracey 9, Nicholas Schlitzer 6/5 fráköst, Illugi Steingrímsson 4, Gunnar Ingi Harðarson 3/4 fráköst.
Fráköst : 23 í vörn, 16 í sókn.
Dómarar : Ísak Ernir Kristinsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson.
Áhorfendur : 250.
Grindavík – Þór Þ. 82:95
Mustad-höllin, Dominos-deild karla, fimmtudag 24. janúar 2019.Gangur leiksins : 5:7, 5:14, 12:23, 21:24 , 28:32, 32:32, 36:40, 41:48, 45:56, 53:62, 55:68, 59:70 , 61:77, 69:79, 72:85, 77:93, 82:95 .
Grindavík : Jordy Kuiper 17/5 fráköst, Lewis Clinch Jr. 17/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 16/6 stoðsendingar, Tiegbe Bamba 10/6 fráköst, Hilmir Kristjánsson 7, Ólafur Ólafsson 6/10 fráköst, Johann Arni Olafsson 5, Ingvi Þór Guðmundsson 2, Jens Valgeir Óskarsson 2.
Fráköst : 28 í vörn, 6 í sókn.
Þór Þ.: Nikolas Tomsick 28/5 fráköst/6 stoðsendingar, Kinu Rochford 27/17 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 15, Emil Karel Einarsson 11/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 10, Jaka Brodnik 4/4 fráköst.
Fráköst : 31 í vörn, 6 í sókn.
Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Friðrik Árnason.