Heimsstyrjöld Sögusviðið á mótinu í ár var ímynduð 3. heimsstyrjöld.
Heimsstyrjöld Sögusviðið á mótinu í ár var ímynduð 3. heimsstyrjöld. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Um helgina fór fram fjórða alþjóðlega mótið á Íslandi í herkænskuborðleikjum, Polar Bear, sem nefnt er í höfuðið á 49. fótgönguliðsherdeild Breta sem var fyrsta setuliðsdeildin sem tók þátt í hernámi Íslands í seinni heimsstyrjöldinni.

Um helgina fór fram fjórða alþjóðlega mótið á Íslandi í herkænskuborðleikjum, Polar Bear, sem nefnt er í höfuðið á 49. fótgönguliðsherdeild Breta sem var fyrsta setuliðsdeildin sem tók þátt í hernámi Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Mótið fór fram í Nexus í Glæsibæ og tóku 16 spilarar þátt í keppninni, en sjö þeirra komu frá útlöndum til að taka þátt í mótinu.

„Í Polar Bear mótinu hafa allir keppendur yfirráð yfir sínum herjum og hver eining innan herjanna hefur ákveðnar reglur. Lykilatriðin í leiknum eru bæði samsetningin á hernum og hvernig þú spilar úr honum,“ segir Jökull Gíslason, mótshaldari. Hann segir að hér á landi séu um 20 manns sem iðka herkænskuborðleiki en helmingur þeirra hafi keppt á mótinu um helgina.

Mótin sem haldin hafa verið á Íslandi síðastliðin þrjú ár hafa haft seinni heimsstyrjöldina að fyrirmynd en í ár var sögusvið mótsins ímynduð þriðja heimsstyrjöld árið 1985 á milli NATO og Varsjárbandalagsins.