Fögnuður Leikmenn SA fagna marki.
Fögnuður Leikmenn SA fagna marki. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Skautafélag Akureyrar vann sannfærandi 7:2-útisigur á Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz-deild karla í íshokkíi er liðin mættust í Skautahöll Reykjavíkur á laugardagskvöld.

Skautafélag Akureyrar vann sannfærandi 7:2-útisigur á Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz-deild karla í íshokkíi er liðin mættust í Skautahöll Reykjavíkur á laugardagskvöld. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 1:1, en SA tók völdin í öðrum leikhluta og var sigurinn afar öruggur.

Andri Sverrisson kom SR yfir á elleftu mínútu leiksins en Jóhann Már Leifsson jafnaði metin í blálok fyrsta leikhluta. Andri Mikaelsson, Hafþór Sigrúnarson og Kristján Árnason skoruðu allir fyrir SA í þriðja leikhluta og tókst SR ekki að svara. Staðan fyrir þriðja og síðasta leikhlutann var því 4:1.

Hákon Magnússon lagaði stöðuna fyrir SR snemma í fjórða leikhluta, 4:2, en þá kom aftur góður kafli hjá SA og Bjartur Gunnarsson, Jussi Sipponen og Rúnar Rúnarsson skoruðu allir áður en leikurinn kláraðist og 7:2-sigur meistaranna staðreynd.

Skautafélag Akureyrar er í toppsæti deildarinnar með 23 stig eftir tíu leiki og Skautafélag Reykjavíkur kemur þar á eftir með 17 stig, en SR hefur leikið þremur leikjum meira. Björninn rekur lestina með ellefu stig eftir ellefu leiki.

Jafnasti leikurinn hjá konunum

SA hafði betur gegn Reykjavík er liðin mættust í sjötta skipti í Hertz-deild kvenna í íshokkíi á tímabilinu í Egilshöll á laugardag. Lokatölur urðu 4:2, SA í vil. Aðeins eru tvö lið í deildinni í ár og er leikurinn sá jafnasti á milli liðanna til þessa.

Ragnhildur Kjartansdóttir kom SA yfir með eina marki fyrsta leikhlutans á áttundu mínútu. Guðbjörg Grönvold jafnaði á 24. mínútu en sex mínútum síðar komst SA aftur yfir með marki Silvíu Björgvinsdóttur.

Elín Þorsteinsdóttir kom SA svo í 3:1 á 36. mínútu en aðeins mínútu síðar minnkaði Sigrún Árnadóttir muninn og staðan fyrir þriðja og síðasta leikhlutann var 3:2. Katrín Björnsdóttir gulltryggði hins vegar 4:2-sigur SA með eina marki þriðja leikhlutans.

johanningi@mbl.is