[merki OECD]
[merki OECD]
Íslensk stjórnvöld hafa samið við OECD um að framkvæma samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði með því að greina regluverkið sem þessar atvinnugreinar búa við.

Íslensk stjórnvöld hafa samið við OECD um að framkvæma samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði með því að greina regluverkið sem þessar atvinnugreinar búa við. Í samtali við Morgunblaðið segir Ania Thiemann, danskur sérfræðingur hjá OECD, að vísbendingar séu um að of flókið sé að fá byggingarleyfi hér á landi.

Ísland sé að þessu leyti eftirbátur helstu nágrannalanda og það geti tekið allt að 84 daga að fá byggingarleyfi, sem sé nokkuð hátt í samanburði við hátekjulönd.

Það er vel til fundið að fara yfir þessi mál hér á landi og vel má vera að OECD muni skila gagnlegum tillögum í því efni.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að ætlunin er að hefja matið á regluverkinu í mars og taka í það átján mánuði. Ef stjórnvöld bíða eftir niðurstöðu matsins má ætla að nokkur ár líði þar til árangur fer að líta dagsins ljós.

Í nýlegri úttekt átakshóps um húsnæðismál var meðal annars vikið að of flóknu regluverki vegna bygginga og hefur það oft verið gert áður, meðal annars hér í Morgunblaðinu.

Stjórnvöld eiga alls ekki að bíða eftir mati OECD heldur hefjast þegar handa við einföldun regluverks atvinnulífsins. Það verður vonandi til þess að skýrsla OECD verður úrelt þegar hún birtist eftir tæp tvö ár, sem væri fagnaðarefni.