[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Íslendingar verma enn efsta sætið í netnotkun meðal Evrópuþjóða líkt og mörg undanfarin ár samkvæmt tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt um notkun á netinu meðal 16 til 74 ára íbúa á seinasta ári. Ná tölurnar til landa ESB auk Íslands, Noregs og Sviss.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Íslendingar verma enn efsta sætið í netnotkun meðal Evrópuþjóða líkt og mörg undanfarin ár samkvæmt tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt um notkun á netinu meðal 16 til 74 ára íbúa á seinasta ári. Ná tölurnar til landa ESB auk Íslands, Noregs og Sviss.

Nú teljast 99% Íslendinga á þessum aldri nota netið reglulega en fast á hæla þeirra koma Danir (98%) og Norðmenn (97%). Að meðaltali sögðust 85% íbúa í löndum ESB hafa notað netið á síðustu þremur mánuðum.

Netnotkunin hefur vaxið ört í Evrópu en árið 2007 sögðust 57% nota netið reglulega og hlutfallið var komið í 73% árið 2012. Íslendingar voru snemma komnir í fremstu röð þjóða í netnotkun en árið 2003 fóru 83% Íslendinga reglulega á netið, samkvæmt könnunum á þeim tíma.

95% nota netið fyrir tölvupóst

Íslendingar geta státað af því að nota netið meira en aðrar þjóðir til ýmissa hluta, m.a. notar engin þjóð netið meira en Íslendingar til að senda og taka á móti tölvupósti en hér sögðust 95% gera það. Danir og Norðmenn eru þó á svipuðum slóðum en í þeim löndum nota 94% íbúanna tölvupóst á netinu. Meðaltalið í löndum Evrópusambandsins er aftur á móti mun lægra eða 73% en í umfjöllun Eurostat um þessar tölur kemur fram að Evrópubúar noti netið að jafnaði mest fyrir tölvupóst. Næst mesta notkun netsins í löndum Evrópu er til að leita upplýsinga um vörur og þjónustu á netinu (70%). Meirihluti íbúa Evrópulanda fer líka inn á netið til að horfa á myndskeið og nota samfélagsmiðla.

Íslendingar skera sig úr þegar spurt er um hlustun á tónlist á netinu. Hér segjast 81% streyma tónlist á netinu. Næstir koma Finnar en þar er hlutfallið 71% en að meðaltali notar innan við helmingur íbúa eða 48% í löndum ESB netið til að hlusta á tónlist, samkvæmt tölum Eurostat, en notkunin er þó ólík eftir löndum.

Notkun netbanka mest hér

Netbankaþjónusta hefur aukist hratt á seinustu árum en þar eru Íslendingar einnig í fararbroddi meðal Evrópuþjóða í að notfæra sér hana og tróna á toppinum í samanburði Eurostat. 94% 16-74 ára Íslendinga notuðu netbanka í fyrra. Norðmenn eru í 2. sæti en þar er hlutfallið 93% og Danir, Hollendingar og Finnar eru í 3. sæti (89%).

Íslendingar eru einnig ötulastir Evrópubúa í notkun samfélagsmiðla. 91% Íslendinga fer á netið til að nota samfélagsmiðla en næst duglegastir í notkun samfélagsmiðla eru Norðmenn en þar er hlutfallið 82%.Í Danmörku er hlutfallið 79%. Að jafnaði er samfélagsmiðlanotkun meðal Evrópusambandslanda 56%.

Íslendingar standa líka fremstir í röðinni þegar kannað er í hvaða mæli Evrópubúar nota netið til að leita að vörum og þjónustu. Hér er hlutfallið 92% en meðaltalið í ESB-löndum er 70% eins og áður segir.

Þá verma Íslendingar efsta sæti í áhorfi á VOD þjónustur eða pöntunarsjónvarp á netinu (65%) en Norðmenn mælast í öðru sæti (59%). Íslendingar standa þó aftar mörgum öðrum þjóðum við ýmsa aðra netnotkun. Eru í 6. sæti (63%) þegar spurt er hvort menn sæki sér heilsufarsupplýsingar á netinu. Hollendingar, Danir, Norðmenn og Finnar eru þar í fararbroddi.

Í 16. sæti þegar spurt er um spilun tölvuleikja á netinu

Þá vekur athygli að Íslendingar eru aftarlega í röðinni þegar kannað er í hversu ríkum mæli íbúar Evrópulanda spila tölvuleiki á netinu eða hlaða niður leikjum. Þar er Ísland í 16. sæti en 26% Íslendinga fara í tölvuleiki eða hlaða niður leikjum á netinu, sem er undir meðaltalinu innan ESB (29%).

Kaup á vörum og þjónustu á netinu hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum. Ekki koma fram upplýsingar um vörukaup á netinu í tölum Eurostat en fram kemur hins vegar að innan við helmingur íbúa í öllum Evrópulöndunum notar netið til að selja sjálfir vörur og þjónustu. Þar stendur Ísland í 6. sæti og er hlutfallið hér á landi 28%.

Þá er ekki mjög algengt hér á landi að menn fari á netið til að panta tíma hjá sérfræðingum. Finnar nota netið mest þjóða til þessa eða 44% en 15% Íslendinga segjast gera það, sem setur í Ísland í 14. sæti í samanburðinum.