Tíðindavika Von er á flóði vaxtaákvarðana og ársfjórðungsuppgjöra í Bandaríkjunum í vikunni. Frá NYSE.
Tíðindavika Von er á flóði vaxtaákvarðana og ársfjórðungsuppgjöra í Bandaríkjunum í vikunni. Frá NYSE. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér um bil alls staðar var sagan sú sama í janúar. Jafnt í Sjanghaí, Frankfúrt, New York og São Paulo ruku hlutabréfavísitölurnar upp með látum. Viðsnúningurinn var ekki síst áberandi í Bandaríkjunum.

Baksvið

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Hér um bil alls staðar var sagan sú sama í janúar. Jafnt í Sjanghaí, Frankfúrt, New York og São Paulo ruku hlutabréfavísitölurnar upp með látum. Viðsnúningurinn var ekki síst áberandi í Bandaríkjunum, þar sem verð hlutabréfa hafði fikrast svo langt niður á við seinni hluta síðasta árs að stóru hlutabréfavísitölurnar þrjár römbuðu á barmi dumbungsmarkaðar.

Virðist eins og markaðurinn hafi náð að spyrna sér frá botninum og hefur t.d. Dow Jones-vísitalan hækkað í fimm vikur í röð. Samkvæmt mælingum S&P hefur hlutabréfaverð á heimsvísu hækkað samtals um rösklega 3.000 milljarða dala í mánuðinum, en lækkaði á síðasta ári um 6.800 milljarða.

Keyptu á góðu verði

Markaðsgreinendur nefna ýmsar ástæður fyrir því að verð hlutabréfa tók nýja stefnu. Virðast t.d. sumir fjárfestar binda vonir við að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hægja á hækkun stýrivaxta, og að takist að finna farsæla lausn á viðskiptadeilum Bandaríkjanna og Kína.

En WSJ bendir á að uppsveiflan í janúar sé ekki endilega vegna þess að horfurnar hafi batnað, heldur stafi af því að fjárfestar hafi einfaldlega sætt færis og keypt hlutabréf á góðu verði eftir mikla lækkun í desember. Veruleikinn í atvinnulífinu sé enn sá sami og hagtölur héðan og þaðan bendi áfram til þess að tekið sé að hægja á alþjóðahagkerfinu.

Himnarnir eru ekki að hrynja en bæði í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína er eins og kröftugasti spretturinn sé að baki.

Finna t.d. mörg bandarísk iðnfyrirtæki greinilega fyrir tollastríðinu við Kína, og sjá líka fram á að hægari hagvöxtur þar í landi muni hafa neikvæð áhrif á þá viðskiptamöguleika sem þeim eiga eftir að bjóðast í framtíðinni.

Viðburðarík vika fram undan

Þeir sem leita vísbendinga um hvert markaðurinn mun stefna á árinu eiga von á óvenjutíðindasamri viku. Þannig verður haldinn vaxtaákvörðunarfundur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna, birtar nýjar tölur um þróun bandaríska vinnumarkaðarins, og samningafundur haldinn í viðskiptadeilu Kína og BNA. Ekki nóg með það heldur munu m.a. Apple, Amazon, Microsoft, Facebook og Tesla birta ársfjórðungsuppgjör sín.

Ef litið er til sögulegrar þróunar markaðarins ætti ekki að reikna með að uppsveiflan í janúar gefi tóninn fyrir allt árið. Hefur það alla jafna tekið S&P 500-vísitöluna um 63 mánuði að ná nýjum toppi eftir meira en 20% lækkun.