Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Eftir Albert Þór Jónsson: "Verðmætasta eign hvers þjóðfélags og fyrirtækja er vitsmunalegur auður. Þessi eign tekur til óáþreifanlegra eigna eins og hæfileika, þekkingar og upplýsinga sem hafa safnast fyrir á löngum tíma."

Atlagan að eldri borgurum landsins á undanförnum árum er fordæmalaus. Skattpíningu og afskiptaleysi stjórnvalda af þessum frumherjum landsins sem byggðu upp Ísland nútímans þarf að veita meiri athygli. Frelsi til athafna og betri nýtingu á vitsmunalegum auði þessa hóps til meiri verðmætasköpunar fyrir Ísland þarf að nálgast með meiri virðingu og þakklæti. Í ljósi þess að lífaldur fólks eykst með hverju árinu er mikilvægt að vera með verðmætaskapandi stefnumörkun fyrir þennan mikilvæga hóp þjóðfélagsins sem hefur að geyma mikinn vitsmunalegan auð, góð gildi og reynslu sem getur nýst til verðmætasköpunar fyrir Ísland.

Verðmætasta eign hvers þjóðfélags og fyrirtækja er vitsmunalegur auður. Þessi eign tekur til óáþreifanlegra eigna eins og hæfileika, þekkingar og upplýsinga sem hafa safnast fyrir á löngum tíma.

Í niðurstöðum efnahagsreikninga fyrirtækja eru áþreifanlegar eignir fyrirtækis bókfærðar, s.s. fasteignir, vélar og tæki, en ekki óáþreifanlegar eignir. Vitsmunalegur auður getur verið miklu meira virði heldur en virði eigna sem birtast í efnahagsreikningi fyrirtækis og er í flestum tilfellum það hráefni sem skapar fjárhagslegan árangur.

Gera þarf greinarmun á tvenns konar vitsmunalegum auði, annars vegar mannlegum og hins vegar kerfisbundnum. Mannlegur auður er uppspretta nýsköpunar og nýjunga og verður aðeins hagnýttur með kerfisbundnum hætti með upplýsingakerfum, þekkingu á dreifileiðum og tengslum við viðskiptavini. Í dag samanstendur kostnaður nýrra vara að mestu leyti af rannsóknum og þróun, vitsmunalegum eignum og þjónustu. Óáþreifanlegar eignir s.s. hæfileikar, þekking og upplýsingar eru orðnar aðalinnihald hins nýja efnahagslega veruleika sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Vitsmunalegur auður er efniviður til að framleiða verðmætari eignir og þannig auka verðmætasköpun til lengri tíma. Hægt er að stjórna vitsmunalegum auði með skýrri stefnumörkun auk þess sem mikilvægt er að hafa stjórn á óáþreifanlegum eignum þannig að þær leiði til áþreifanlegs árangurs, en án þess er erfitt að hagnýta hinn vitsmunalega auð.

Í stað hagræðingar í rekstri ríkissjóðs undanfarin ár hefur aukin skattlagning á hópa sem flestir hafa lagt verulegar fjárhæðir til samfélagsins en á sama tíma fengið frekar lítið til baka þegar njóta á þjónustu ríkisins t.a.m. í heilbrigðiskerfinu. Eldri borgarar sem eru um 15% af heildarmannfjölda á Íslandi eru vannýtt auðlind sem þarf að virkja á næstu árum með skipulögðum hætti á öld æskudýrkunnar og ofurskattlagningar. Það er í raun óskiljanlegt að þjóðfélagsþegnar sem hafa skilað góðu dagsverki á fjórða áratug skuli vera ofurskattlagðir á eftirlaunaárum sínum þegar um hægist hjá flestum. Skattlagning eldri borgara skilar litlu til ríkissjóðs, ætti ríkissjóður að hætta að höggva í sama knérunn. Það má búast við að aukið athafnafrelsi og athafnasemi eldri borgara myndi auka skatttekjur ríkissjóðs með óbeinum hætti.

Auka þarf lífsgæði eldri borgara með athafnafrelsi

Nú þegar meðalævi lengist með hverju ári og margir sem hafa náð 70 ára aldri eru við fulla starfsorku og athafnasemi þá er þessu fólki gert það erfitt að fara á vinnumarkaðinn nema að vera nánast skattlagt að fullu. Sú kynslóð sem lagði grunninn að Íslandi nútímans með vinnusemi og bjartsýni þarf nú við lok starfsævinnar að þola ofurskattlagningu og skerðingar margskonar. Í stað þess ætti að hvetja eftirlaunaþega til góðra verka og vinnu. Þannig væri hægt að nýta verðmæta reynslu á margan hátt til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild og auka þannig verðmætasköpun til framtíðar fyrir komandi kynslóðir landsins. Á næstu árum má búast við að eldri borgurum fjölgi tvöfalt og þar með aukist mikilvægi þess að nýta athafnasemi þessa fólks til góðra verka. Fólk af þessari kynslóð lagði grunninn að Íslandi nútímans með mikilli vinnusemi, dugnaði og framsýni. Í dag eru Íslendingar að njóta ávaxta þessa góða starfs sem unnið var á árunum 1960-1990 en á þessum tíma urðu miklar framfarir á mörgum sviðum íslensks þjóðlífs. Á tímum æskudýrkunar hefur virðingarleysi og fordómar gagnvart eldri borgurum aukist en mikilvægt er að bæta stefnumörkun í málaflokkum sem tengjast eldri borgurum. Vegna mikillar fjölgunar þeirra á næstu árum vegna aukinnar ævilengdar og aldurssamsetningar þjóðarinnar þarf að hefjast handa strax við að auka athafnafrelsi og athafnasemi. Mikilvægi gildismats, reynslu, góðrar dómgreindar og betri nýtingar á vitsmunalegum auði þjóðarinnar sem felst í eldri borgurum landsins er vannýttur fjársjóður og auðlind.

Höfundur er viðskiptafræðngur, MCF í fjármálum fyrirtækja og með 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði. albertj@simnet.is

Höf.: Albert Þór Jónsson