Einbeitt. Fjöldi barna tefldi á mótinu á Laufásborg með langan umhugsunartíma, einn og hálfan tíma á mann.
Einbeitt. Fjöldi barna tefldi á mótinu á Laufásborg með langan umhugsunartíma, einn og hálfan tíma á mann. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börn á aldrinum 5 til 12 ára öttu kappi á skákmóti í Laufásborg sem haldið var á laugardaginn í tilefni af skákdeginum, en mótið er hugsað sem undirbúningur fyrir heimsmeistaramót barna í skólaskák sem fram fer síðar á árinu.

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Börn á aldrinum 5 til 12 ára öttu kappi á skákmóti í Laufásborg sem haldið var á laugardaginn í tilefni af skákdeginum, en mótið er hugsað sem undirbúningur fyrir heimsmeistaramót barna í skólaskák sem fram fer síðar á árinu.

Friðrik Ólafsson gaf styttu og afrit af skákum

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga og fyrrverandi forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, var heiðursgestur á mótinu og á jafnframt afmæli á skákdaginn. Hann færði Laufásborg gjafir í tilefni dagsins, t.a.m. styttu af Hórasi sem hann hafði fengið í Egyptalandi og afrit af fimm æfingaskákum sem hann tefldi við sjálfan sig þegar hann var tíu ára. Börnin munu vafalaust njóta góðs af og fara yfir skákirnar á næstu skákæfingu, að sögn Omars Salama, skákkennara og skipuleggjanda mótsins.

Omar leggur áherslu á að venja börnin á að tefla kappskák, en slík skák er reiknuð til Elo-stiga auk þess sem umhugsunartíminn er iðulega einn og hálfur klukkutími á mann. Mótið er liður í mótaröð Laufásborgar, mótin eru fimm talsins og tefld er kappskák, líkt og á HM barna í skólaskák. Tíu fulltrúar, 7 ára og yngri, keppa á mótinu fyrir Íslands hönd og fá börnin að tefla eins og alvöru skákmenn á báðum mótunum, að sögn Omars.

Krefjandi tímamörk

„Börnin tefla kappskák á mótinu í Laufásborg til þess að undirbúa sig fyrir tímamörkin á HM. Þessi tímamörk eru mun meira krefjandi en atskák og hraðskák, sem er skemmtilegri og fljótvirkari, en þetta er góð æfing fyrir HM,“ segir Omar Salama og líkir kappskák við kvöldmat en hraðskák og atskák við eftirrétt. „Kappskák er alvörukvöldmatur. Allir vilja eftirrétt en gott er að venja sig á að borða kvöldmat áður en maður fer í eftirréttinn,“ segir Omar.

Góð þátttaka var á mótinu og mættu 22 börn á mótið, flest þeirra úr Reykjavík en þó kom einn keppandi alla leið frá Selfossi. Skákdeginum hefur verið fagnað víða á síðastliðnum og verður áfram á næstu dögum en nálgast má frekari upplýsingar um viðburði tengda deginum á skak.is.