Li Keqiang
Li Keqiang — AFP
Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, segir stjórnvöld vera þess fullviss að takast muni að viðhalda góðu hagvaxtarstigi á þessu ári, þrátt fyrir fjölmargar áskoranir og áhættuþætti.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, segir stjórnvöld vera þess fullviss að takast muni að viðhalda góðu hagvaxtarstigi á þessu ári, þrátt fyrir fjölmargar áskoranir og áhættuþætti. Reuters greinir frá þessu en ummælin lét Li falla á föstudag þegar hann ávarpaði samkomu erlendra sérfræðinga sem starfa í Kína. Ríkisfréttastofan Xinhua greindi fyrst frá.

Sagði Li að hagkerfi Kína byggi yfir mikilli þrautseigju og getu. Fullyrti hann að heilmikið svigrúm væri fyrir hagkerfið til að vaxa áfram enda innanlandsmarkaður Kína risastór og enginn hörgull á vinnuafli hjá nær 1,4 milljarða manna þjóð.

Nýlega voru birtar tölur sem sýna að hagvöxtur í Kína mældist 6,6% árið 2018 og hefur ekki verið minni síðan 1990. Skoðanakönnun Reuters bendir til að hagfræðingar vænti þess að hagvöxtur í Kína fari niður í 6,3% á þessu ári. ai@mbl.is