Góð Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Góð Eygló Ósk Gústafsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir byrjaði nýja árið með látum, en hún vann tvenn gullverðlaun í sundkeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalslauginni í gær.

Sund

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir byrjaði nýja árið með látum, en hún vann tvenn gullverðlaun í sundkeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalslauginni í gær. Eygló synti best allra í 50 metra baksundi og 100 metra baksundi, en hún er nýbyrjuð að æfa af alvöru eftir erfið bakmeiðsli sem hafa verið að trufla hana undanfarna sex mánuði.

„Ég er mjög sátt með þennan árangur. Ég sagði það fyrir mótið að þetta væri gott tækifæri fyrir mig til þess að sjá hvar ég stend og ég er virkilega ánægð með þann stað sem ég er á í augnablikinu. Ég er nýbyrjuð að æfa af fullum krafti þar sem ég er búin að vera að glíma við meiðsli í baki. Ég er hægt og rólega að koma mér af stað aftur og markmiðið fyrir þetta mót var fyrst og fremst að reyna að synda eins hratt og ég gat leyft mér.“

Eygló er ánægð með þann fjölda útlendinga sem tók þátt í sundkeppni Reykjavíkurleikanna í ár og segir samkeppnina góða fyrir yngri sundmenn landsins.

„Keppnin í baksundinu á Reykjavíkurleikunum hefur oft verið sterkari. Mie Nielsen var ekki á meðal keppenda í ár en hún er mjög öflugur sundmaður sem endaði í fimmta sæti í 100 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Mótið var samt sem áður mjög skemmtilegt og það voru gríðarlega margir erlendir keppendur á mótinu í ár. Það var mikið af ungum keppendum sem gerði þetta skemmtilegra fyrir yngri keppendurna þar sem þeir fengu kannski aðeins meiri samkeppni núna en á undanförnum árum.“

Sundkonan öfluga setur stefnuna á HM í Suður-Kóreu í sumar og þar ætlar sér hún að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

„Markmiðið á næstunni er að æfa eins mikið og ég get og líkaminn leyfir. Íslandsmeistaramótið er í apríl og markmiðið þar er að ná HM lágmarkinu. Fari svo að það takist þá er markmiðið á HM að ná Ólympíulágmarkinu. Eins og staðan er í dag er ég í raun bara að byggja mig upp á nýjan leik. Ég var í stífri endurhæfingu fyrir áramót og hreyfigetan hjá mér er orðin mun meiri en fyrir hálfu ári síðan. Ég er mjög sátt með þessa helgi, miðað við allt sem gengið hefur á, og þessi árangur gefur mér bæði von og trú á það hvað ég get gert þegar ég er komin í aðeins betra stand og alvöru keppnisgír,“ sagði Eygló Ósk Gústafsdóttir í samtali við Morgunblaðið.