Ítölsk stjórnvöld hafa gert Kering SA, móðurfélagi Gucci, að greiða 1,4 milljarða evra í skatt af hagnaði tískufyrirtæksins á árunum 2011 til 2017.

Ítölsk stjórnvöld hafa gert Kering SA, móðurfélagi Gucci, að greiða 1,4 milljarða evra í skatt af hagnaði tískufyrirtæksins á árunum 2011 til 2017. Rekstur Gucci hefur gengið mjög vel undanfarin ár og á Kering að hafa beint hagnaðinum af starfseminni til dótturfélagsins Luxury Goods International í Sviss, enda leggja Svisslendingar töluvert lægri skatta á fyrirtæki. Segir skattstjóri Ítalíu að hagnaður Gucci hafi orðið til á Ítalíu og eigi því að greiða af honum skatt þar í landi. Að sögn WSJ hefur Kering mótmælt ákvörðun skattstjórans.

Ítölsk skattyfirvöld hafa haft fleiri tískurisa í sigtinu að undanförnu. Þannig sætti Giorgio Armani skattrannsókn, sem og hjónin Miuccia Prada og Patrizio Bertelli, eigendur Prada-veldisins. Eins voru hönnuðirnir Domenico Dolce og Stefano Gabbana á sínum tíma dæmdir til 20 mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa notað félag í Lúxemborg til að lágmarka skattbyrði sína en hæstiréttur Ítalíu ógilti þann dóm. ai@mbl.is