Heimsmeistarar Leikmenn Dana taka villtan stríðsdans á gólfinu í Jyske Box Arena eftir sigurinn gegn Norðmönnum.
Heimsmeistarar Leikmenn Dana taka villtan stríðsdans á gólfinu í Jyske Box Arena eftir sigurinn gegn Norðmönnum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Herning Ívar Benediktsson iben@mbl.is Eftir að hafa tapað tveimur úrslitaleikjum á heimsmeistaramótum þá tókst Dönum heldur betur til í þriðja sinn er þeir léku til úrslita um heimsmeistaratitilinn í handknattleik karla í gær.

Í Herning

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Eftir að hafa tapað tveimur úrslitaleikjum á heimsmeistaramótum þá tókst Dönum heldur betur til í þriðja sinn er þeir léku til úrslita um heimsmeistaratitilinn í handknattleik karla í gær. Danir rasskelltu Norðmenn fyrir framan nærri 15 þúsund áhorfendur í magnaðri stemningu í Jyske Bank Boxen, íþróttahöllinni í Herning, á Mið-Jótlandi. Lokatölur, 31:22, eftir að danska liðið var með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:11.

Eftir jafnar upphafsmínútur þá var nánast eitt lið á vellinum þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Danir voru með yfirburði á öllum sviðum leiksins, í vörn, markvörslu og í sóknarleik sem var hraður og frábærlega útfærður þar sem margir leikmenn öxluðu ábyrgð og stóðu undir henni. Auk Mikkel Hansen fóru Rasmus Lauge, Mads Mensah, Anders Zachariassen og Magnus Landin á kostum. Bróðir hans Niklas fór hamförum í markinu fyrir framan frábæra vörn þar sem Zachariassen og Henrik Møllegaard voru allt í öllu. Danska liðið var óárennilegt í þessum ham.

Norðmenn voru ekki nema skugginn af sjálfum sér. Eftir frábæran leik í spennu og miklu mótlæti í Hamborg á föstudaginn þá koðnaði liðið niður fljótlega í leiknum í gær. Leikmenn virtust hræddir eins og dádýr í bílljósum. Sander Sagosen stóð ekki undir væntingum og félagar hans í sókninni komust lítt áleiðis gegn dönsku vörninni. Það var helst að hornamennirnir næðu sér á strik. E.t.v. hefur líka verið lagt upp með það af hálfu Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfara Dana, að gefa hornamönnum Norðmanna lausan tauminn með það í huga að loka fyrir aðra sóknarmenn liðsins, eins og Sagosen, Magnus Röd og línumanninn skæða Bjarte Myrhol. Sá síðarnefndi vann frábærlega með Sagosen í undanúrslitaleiknum. Til þeirra tilþrifa sást aldrei í „Boxen“ í gær.

Við virtumst þreyttir

„Danir voru mikið betri en við frá upphafi. Mínir menn virkuðu þreyttir,“ sagði Christian Berge í samtali við norska fréttamiðla þegar hann hafði gengið vonsvikinn af leikvelli eftir að hafa tapað úrslitaleik á heimsmeistaramóti annað sinn í röð.

Eina von Norðmanna var sú að ná áhlaupi strax í upphafi síðari hálfleiks eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik. Það áhlaup kom aldrei. Danir juku við forskot sitt frekar. Minnstur var þó munurinn sex mörk, 21:15. Skömmu síðar var forskot Dana orðið tíu mörk og varð mest 11 mörk áður en minni spámönnum var gefinn kostur á að spreyta sig á lokamínútunum.

Nærri fyrir átta árum

Danir komust næst því að verða heimsmeistarar fyrir átta árum á HM í Svíþjóð. Þá töpuðu þeir fyrir Frökkum í framlengdum úrslitaleik, 37:35. Þá voru Niklas Landin, Mikkel Hansen og Lasse Svan m.a. í liðinu eins og nú. Tveimur árum síðar voru Danir kjöldregnir í úrslitaleik HM á Spáni, 35:19, í leik við Spánverja í Barcelona. Ári síðar voru þeir rasskelltir af Frökkum í úrslitaleik á EM á heimavelli, Boxen í Herning. Í gær var þetta allt saman gleymt og grafið og verður enn dýpra grafið með sigrinum glæsilega. „Nu dufter det af guld,“ sögðu Danir fyrir fimm árum þegar þeir komust síðar svona nærri sigrinum en létu Frakka hrifsa hann af sér í úrslitaleik EM í Boxinu. Að þessu sinni fundu þeir meira en reykinn af réttunum. Dönsku leikmennirnir fengu peninginn um hálsinn afhentan af Friðriki krónprins og bitu í verðlaunapening sinn á eftir, a.m.k. sumir. Og öðru sinni sama daginn sungu allir í Boxinu saman Der et yndigt land áður en slegið var upp þjóðhátíð víðs vegar um land á sunnudagskvöldi, fimm mánuðum eða svo fyrir grundlovsdag.

Viðburðaríkur mánuður

„Ég hefði ekki getað skrifað handritið að janúarmánuði,“ sagði Mikkel Hansen, markakóngur danska landsliðsins, og mótsins með 72 mörk og sá sem margir telja vera fremsta handknattleiksmann heims um þessar mundir.

„Það er draumi líkast að verða heimsmeistari á heimavelli og vera í fyrsta heimsmeistaraliði Danmerkur en fyrir mér var það enn stærra að verða faðir í upphafi þessa mánaðar,“ sagði Hansen sem svo sannarlega hefur lifað sögulegan mánuð. Faðir hans Flemming var stórskytta á sinni tíð og prímusmótor ásamt Anders Dahl Nielsen og Kaj Jörgensen í í danska landsliðinu sem hafnaði í fjórða sæti á HM 1978 eftir tap, 19:15, fyrir Austur-Þýskalandi, síðast þegar Danir voru gestgjafar HM karla. Flemming var vitanlega í Boxinu í gær og fylgdist stoltur með syni sínum og samherjum kjöldraga norska landsliðið.

Án örvhentrar skyttu

Danir unnu tíu leiki sína á mótinu. Þeir léku best þegar mest á reyndi, gegn Frökkum í undanúrslitum og móti Norðmönnum í úrslitaleiknum í gær. Þeir hafa á að skipa nokkrum frábærum handknattleiksmönnum, sem getið er um að framan. Svo sannarlega er danska liðið ekki bara einn maður. Athyglisvert er að Danir eru án örvhentrar skyttu, sem löngum hefur verið talinn stór ljóður á góðu handknattleiksliði. Með Hansen, Lauge, Mensah og Morten Olsen í ham virðist örvhent skytta vera óþörf í þessu liði. Eins og það lék tvo síðustu leiki keppninni var hvergi veikan blett að finna.

Gerði gæfumuninn

Nikola Karabatic skoraði sigurmark Frakka á síðustu sekúndu gegn Þýskalandi, 26:25, og tryggði þar með fráfarandi heimsmeisturum bronsverðlaun á mótinu. Þjóðverjar voru fjóru mörkum yfir í hálfleik, 13:9. Síðari hálfleikur var Frakka.