Svigað Borgarbúar kepptust við að komast í brekkurnar í Bláfjöllum um helgina.
Svigað Borgarbúar kepptust við að komast í brekkurnar í Bláfjöllum um helgina. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Áætlað er að um fimm þúsund manns hafi lagt leið sína í brekkurnar í Bláfjöllum á laugardag þegar fyrsta skíðahelgi ársins gekk þar í garð.

Áætlað er að um fimm þúsund manns hafi lagt leið sína í brekkurnar í Bláfjöllum á laugardag þegar fyrsta skíðahelgi ársins gekk þar í garð. „Laugardagurinn var glæsilegur og líklega einn af stærstu dögum síðustu ára,“ sagði Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, við mbl.is í gær.

Um þrjú þúsund gestir renndu sér í brekkunum í gær en Einar sagði helgina hafa verið frábæra og án allra meiri háttar vandræða. Þó þurfti að flytja fimm frá Bláfjöllum á slysadeild vegna óhappa en Einar sagði að miðað við mannfjöldann væru þetta fá slys, og þau hefðu sem betur fer ekki verið alvarleg.

Þegar mest lét mynduðust langar biðraðir við lyfturnar og sagði Einar það augljóst að svæðið væri komið að þolmörkum sínum.