Þungunarrof Rúmlega fimmtíu umsagnir hafa borist til Alþingis.
Þungunarrof Rúmlega fimmtíu umsagnir hafa borist til Alþingis. — Morgunblaðið/Ómar
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Alls höfðu 53 umsagnir verið birtar á vef Alþingis um helgina um frumvarp ríkisstjórnarinnar um þungunarrof.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Alls höfðu 53 umsagnir verið birtar á vef Alþingis um helgina um frumvarp ríkisstjórnarinnar um þungunarrof. Lögunum er ætlað að vera heildarendurskoðun á fyrri lögum um fóstureyðingar, sem sett voru árið 1975, en af umsögnunum má ráða að skiptar skoðanir séu á efni frumvarpsins, einkum 4. grein þess, sem heimilar að bundinn verði endi á meðgöngu allt að 22. viku hennar.

Sáttin hugsanlega rofin

Trúfélög eru áberandi í hópi umsagnaraðila, en einnig hafa borist umsagnir frá einstaklingum um frumvarpið. Athygli vekur að Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður, er á meðal þeirra, en hún fagnar því að í fyrirliggjandi frumvarpi sé gert ráð fyrir að kona hafi sjálfsákvörðunarrétt til þess að binda endi á meðgöngu, en þurfi ekki að sækja um slíkt og fá samþykki annarra fyrir. „Sá réttur er löngu tímabær að óbreyttu núgildandi viðmiði til þungunarrofs. Mikilvægt er að virða rétt einstaklings til sjálfsforræðis yfir líkama sínum sem og til að taka ákvörðun um barneign,“ segir Ólína um þann þátt frumvarpsins.

Hún er öllu gagnrýnni á 4. grein frumvarpsins, og segist leggjast af alhug gegn þeim áformum að færa út tímamörk þungunarrofs til loka 22. viku meðgöngu. Telur Ólína að það stangist á við mannréttindaákvæði ýmis og inngróin sjónarmið sem lúta að mannhelgi og réttinum til lífs. Hefði hún kosið að haldið hefði verið við núverandi viðmið um lok 16. viku á sama tíma og sjálfsákvörðunarréttur konunnar hefði verið festur í sessi.

Vísar Ólína þar meðal annars til þess þroska sem fóstur nái á þeim vikum sem um ræðir, og segir hún ekki siðferðilega verjandi að heimila fóstureyðingu þegar fóstrið er sannarlega orðið barn og getur jafnvel lifað utan líkamans.

„Að óbreyttu reynir þetta frumvarp mjög á siðferðilegt þanþol þeirra sem að málum þessum koma ekki aðeins heilbrigðisstarfsfólks heldur allra sem láta sig málið varða. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er hætt við því að sú sátt sem hefur verið um fóstureyðingar á Íslandi sé rofin. Það yrði óbætanlegur skaði fyrir íslensk kvenréttindi og mannréttindi í víðara samhengi,“ segir að lokum í umsögn Ólínu.

Þarf að breyta skráningu

Embætti landlæknis tekur á tveimur tilteknum efnum í umsögn sinni, annars vegar réttinn til að rjúfa þungun fram til loka 22. viku og hins vegar hvernig breyta þurfi skráningu aðgerða af þessu tagi verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Segir í umsögn landlæknis að það sé óumdeilt að réttur til að rjúfa þungun svo seint í meðgöngu þurfi að vera til staðar ef upp koma læknisfræðilegar eða þungar félagslegar ástæður. „Það er skoðun landlæknis að ákvörðun um rof þungunar svo seint á meðgöngu sé gríðarlega erfið og þungbær ákvörðun sem kona taki einungis að vandlega athuguðu máli og af illri nauðsyn,“ segir í umsögninni og bætir landlæknir við að enginn sé hæfari til að meta aðstæður í þessum tilfellum en konan sjálf. „Kona ætti því ekki að þurfa að afsala sér þeim rétti til óskyldra aðila eins og fyrri lög gerðu ráð fyrir.“ Þá tekur landlæknir fram að almennt séð ætti að forðast þungunarrof eftir fremsta megni og að brýnt sé að leita allra leiða til að takmarka fjölda óráðgerðra þungana og þungunarrofs.

Þá leggur landlæknir til að gildistöku laganna verði frestað til 1. september næstkomandi, svo hægt verði að breyta skráningarkerfum embættisins þannig að það geti áfram haft yfirsýn yfir tölfræði yfir þungunarrof.