Venesúela Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, horfir hér á Fabiönu eiginkonu sína eftir messu sem haldin var til minningar um þá sem féllu í mótmælum gegn ríkisstjórn Nicolas Maduro í síðustu viku.
Venesúela Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, horfir hér á Fabiönu eiginkonu sína eftir messu sem haldin var til minningar um þá sem féllu í mótmælum gegn ríkisstjórn Nicolas Maduro í síðustu viku. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hafnaði í gær kröfum nokkurra Evrópuríkja um að boða til forsetakosninga, en Spánn, Bretland, Frakkland, Holland og Þýskaland kröfðust þess öll á laugardaginn að Maduro myndi boða til kosninga innan næstu átta daga. Yrði hann ekki við því, myndu þau viðurkenna embættistöku Juan Guaido, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, en hann lýsti því yfir í síðustu viku að hann væri starfandi forseti landsins samkvæmt stjórnarskrá, þar sem síðustu forsetakosningar hefðu verið ólöglegar.

„Venesúela er ekki bundin Evrópu. Þetta er algjör móðgun,“ sagði Maduro í viðtali við CNN Türk, tyrkneska anga CNN-fréttastofunnar, í gær. Sakaði Maduro Bandaríkin um að standa að valdaráni í landi sínu, og bætti við að Guaido væri að sínu mati að brjóta stjórnarskrána. „Allt sem er að gerast tengist Bandaríkjunum. Þau eru að ráðast á okkur og halda að Venesúela sé bakgarðurinn þeirra,“ sagði Maduro meðal annars.

Leitar eftir stuðningi hersins

Guaido tók þátt í sérstakri messu í gær þar sem þeirra 29 sem létust í mótmælum í síðustu viku var minnst. Ítrekaði Guaido þar boð sitt og þjóðþings landsins um sakaruppgjöf fyrir þá hermenn sem afneituðu stjórn Maduros. Er boðið liður í tilraunum Guaidos til þess að fá herinn á sitt band, en yfirstjórn hans hefur til þessa stutt við bakið á Maduro.

Maduro tók þátt í heræfingu síðdegis og skokkaði nokkurn spöl áður en hann hélt ræðu þar sem hann lofaði hermenn sína fyrir að vera tryggir og trúir réttkjörnum yfirvöldum.

Tekist á í öryggisráðinu

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um málefni Venesúela á laugardaginn. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þar að stjórn Maduro væri hluti af „ólögmætu mafíuríki“ sem bæri ábyrgð á efnahagslegu hruni landsins. Kallaði hann eftir því að ríki heims hættu viðskiptum sínum við ríkisstjórn Maduros og sakaði Rússa og Kínverja um að halda uppi stjórn sem hefði brugðist, í þeirri von að með því gætu stórveldin endurheimt eitthvað af fjárfestingum sínum í Venesúela.

Vassilí Nebenzía, fulltrúi Rússlands í öryggisráðinu sakaði Bandaríkjamenn á móti um ólögmæt afskipti af innanríkismálum Venesúela. „Fyrirætlun Bandaríkjanna er að stuðla að valdaráni,“ sagði hann. Dmitrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, hafnaði hins vegar í gær fregnum um að 400 rússneskir málaliðar væru nú í lífvarðarsveit Maduros.

Sendiráðinu ekki lokað enn

Þá rann út á laugardaginn frestur sem Maduro hafði gefið bandaríska sendiráðinu í Caracas til þess að loka dyrum sínum. Stjórnvöld í Washington segjast hins vegar ekki munu hlýða þeirri tilskipan, þar sem hún hafi ekki komið frá réttmætum forseta. Vöruðu þau jafnframt við að ef Maduro reyndi að beita sendiráðið, Guaido eða stjórnarandstöðuna ofbeldi yrði því svarað.