[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi grein heimilar að tilteknum persónuupplýsingum um einstaklinga verði ekki dreift með þeim víðtæka hætti sem þjóðskrá gerir ráð fyrir, en fyrir því þurfa að vera mjög sterkar ástæður,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og staðgengill forstjóra Þjóðskrár Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Fréttaskýring

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Þessi grein heimilar að tilteknum persónuupplýsingum um einstaklinga verði ekki dreift með þeim víðtæka hætti sem þjóðskrá gerir ráð fyrir, en fyrir því þurfa að vera mjög sterkar ástæður,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og staðgengill forstjóra Þjóðskrár Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til draga að frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga og þá einkum 14. grein frumvarpsins sem kveður á um vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga. Frumvarpsdrögin eru nú aðgengileg á Samráðsgátt stjórnvalda og er þar einnig hægt að skila inn umsögn.

Samkvæmt áðurnefndri grein getur Þjóðskrá Íslands, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, heimilað einstaklingi sem með rökstuddum hætti óskar eftir því og eftir atvikum með framlagningu gagna þar um, að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili hans og nánustu fjölskyldumeðlima, verði ekki miðlað úr þjóðskrá. Gildir vernd þessi í eitt ár nema hlutaðeigandi óski þess að hún sé felld brott fyrr. Þá er Þjóðskrá Íslands heimilt að framlengja verndina í allt að eitt ár í senn, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Ófyrirséð flækjustig

Ástríður segir ekki búið að fullmóta þá tæknilegu útfærslu sem nauðsynleg er til að hefta útbreiðslu þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 14. grein frumvarps um skráningu einstaklinga.

„Það á eftir að vinna meira í tæknilegu hliðinni. En það væri til að mynda hægt að hugsa þetta þannig að þegar leitað er að nafni viðkomandi í þjóðskrá, þá skili sú leit engu eða ef slegin er inn kennitala myndi nafn ekki birtast. Það koma upp nokkur tilvik á ári þar sem fólk óskar eftir því að vera með dulið lögheimili og þá er upplýsingum um lögheimili ekki dreift. Þetta ákvæði gengur hins vegar lengra því það gerir líka ráð fyrir að upplýsingum um nafn sé ekki miðlað áfram,“ segir Ástríður og bendir á að til þessa hafi ekki með góðum árangri verið hægt að dylja lögheimili fólks í þjóðskrá. „Í slíku tilviki hefur viðkomandi einstaklingur verið skráður sem óstaðsettur í hús í sveitarfélagi. Það breytir því hins vegar ekki að í gömlum afritum af þjóðskrá má finna þessar upplýsingar,“ segir Ástríður.

Aðspurð segir Ástríður algengustu ástæður þess að einstaklingur óskar eftir vernd nafns eða heimilisfangs í þjóðskrá vera hótun um ofbeldi. „Algengustu ástæður eru einhvers konar yfirvofandi ógn sem stafar að viðkomandi,“ segir hún, en dæmi um slíkt gæti verið heimilisofbeldi, hótanir vegna skulda eða hótanir sem einstaklingar verða fyrir vegna starfs sína, s.s. lögreglumenn.

„Þetta er helst hugsað í þeim tilgangi að meiri hagsmunir séu tengdir því að halda þessum upplýsingum leyndum en að hafa þær þarna úti.“

Spurð hvort einstaklingar verði ekki fyrir einhverjum óþægindum þegar þeir „hverfa“ úr þjóðskrá kveður Ástríður já við. „Það er ekki útilokað að þetta hafi áhrif á réttarstöðu fólks og því er mikilvægt að fá umsagnir frá hagsmunaaðilum. En eins og staðan er núna þá er erfitt að telja upp öll flækjustig þar sem afleiðingarnar af þessu eru ófyrirséðar. Frumvarpið er í samráðsferli og getur því tekið breytingum í kjölfarið og við þinglega meðferð.“

Ekki nýtt af nálinni

Innihald 14. greinar frumvarpsins er ekki nýtt af nálinni þó það sé ekki að finna í núgildandi lögum. Í 3. grein reglna nr. 112/1958 um útgáfu vottorða og veitingu upplýsinga úr þjóðskrá er að finna sambærilegt ákvæði sem hefur verið notað í tilvikum þegar beiðnir berast frá einstaklingum um að fá heimilisfang sitt dulið í þjóðskrá.

„Samkvæmt reglunum getur Þjóðskrá Íslands orðið við tilmælum manns um að tilteknum einkaaðilum sé ekki veitt vitneskja um aðsetur hans, ef hann hefur, að dómi Þjóðskrárinnar, réttmæta og eðlilega ástæðu til að aðsetri hans sé haldið leyndu gagnvart þeim,“ segir í athugasemdum með frumvarpinu.

Ástríður segir þjóðskrá hafa notast við þessar reglur til að halda lögheimili fólks leyndu, en Þjóðskrá Íslands berast árlega 5 til 10 beiðnir frá fólki um að leyna upplýsingum.