Bjarnheiður Stefanía Þórarinsdóttir fæddist 11. október 1923. Hún lést 15. nóvember 2018.

Útför Bjarnheiðar Stefaníu fór fram 28. nóvember 2018.

Elsku amma.

Að kveðja þig var erfitt, en þú varst umvafin fjölskyldu þinni, eins og þér fannst alltaf best. Ég veit að núna líður þér vel og fylgist með okkur. Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Við áttum svo góðan tíma saman sem ég verð alltaf svo óendanlega þakklát fyrir. Ég vildi hvergi annars staðar vera en úti í Hvammi hjá þér og Bjarti frænda. Þar leið mér svo vel og hafði alltaf nóg fyrir stafni. Við brölluðum margt saman og þú kenndir mér svo margt, elsku amma mín, sem ég bý að alla tíð.

Ég var bara þriggja ára gömul þegar ég fór fyrst til ykkar. Þá bjuggum við fjölskyldan í Garðabæ, en vorum að flytja austur. Þið komuð í heimsókn og ég vildi endilega fara með ykkur austur. Það var samþykkt og gekk ferðin og dvölin í Hvammi vel. Eftir þetta var ég hjá ykkur á sumrin og flestar helgar. Alltaf var ég velkomin og alltaf varst þú jafn yndisleg og þolinmóð. Þér fannst það stundum skrítið að ég vildi frekar vilja koma í sveitina um helgar en að vera með jafnöldrum mínum en fyrir mér var það bara eðlilegt, mér fannst miklu skemmtilegra í Hvammi, eitthvað að bralla með ömmu minni.

Síðasta sumarið okkar saman í Hvammi var árið sem þú varðst 90 ára, þá var þrek þitt farið að minnka og stuttu eftir að ég fór í skólann veiktist þú og fórst að Uppsölum á Fáskrúðsfirði. Alltaf fannst þér samt best í Hvamminum og varst svo glöð að komast þangað í heimsókn öðru hvoru. Þú varst líka svo glöð að fá fólkið þitt í heimsókn og fá fréttir. Ég heimsótti þig síðast stuttu fyrir 95 ára afmælið þitt í haust. Þá áttum við ljúfa, yndislega stund saman.

Hvernig er hægt að þakka,

það sem verður aldrei

nægjanlega þakkað?

Hvers vegna að kveðja,

þann sem aldrei fer.

Við grátum af sorg og söknuði

en í rauninni ertu alltaf hér.

Höndin sem leiddi mig í æsku

mun gæta mín áfram minn veg.

Ég veit þó að víddin sé önnur

er nærveran nálægt mér.

Og sólin hún lýsir lífið

eins og sólin sem lýstir frá þér.

(Sigga Dúa)

Elsku amma mín, takk fyrir allt, þú verður ætíð í hjarta mínu.

Þín

Kristín Harpa.