Sigmundur Benediktsson yrkir á Leir og kallar „Andavanda“: Andinn skoppar sæll með sig, síst hann teppir þvaður, ennþá hoppar upp um mig eins og seppi glaður. Stundum grettinn göslast stig, gerir spottið dapurt.

Sigmundur Benediktsson yrkir á Leir og kallar „Andavanda“:

Andinn skoppar sæll með sig,

síst hann teppir þvaður,

ennþá hoppar upp um mig

eins og seppi glaður.

Stundum grettinn göslast stig,

gerir spottið dapurt.

Ýmist glettinn opnar sig

eða glottir napurt.

Ingólfur Ómar var með á nótunum:

Frjór að vanda kveða kann

kvæðagand ei hemur.

Þegar andinn yfir hann

eins og fjandinn kemur.

Sigmundur tók þessu vel og sagðist reyna að beisla andann, hvaðan sem hann blési!

Gjóstur veðra garra æsir

græðispínu ræðari.

Ef úr neðra andinn fnæsir

er hann sínu skæðari.

Og áfram hélt hann:

Óður lagast ekki minn

andans jagast fleyið.

Engan hagvöxt eflast finn

ellin plagar greyi

Fía á Sandi taldi að það ætti við um fleiri og setti „Æfina“ á Leirinn:

Æfin líði alltof fljótt

það er á hreinu

Tíminn drepur dag og nótt

dálítið í einu.

Þó hreystin væri sjálfsagt sönn

sem í arf við fengum.

Alla nagar tímans tönn

tíminn gleymir engum.

Um ýmislegt má yrkja grín

ef eitthvað skeður

Best að yrkja um brennivín

því brennivínið gleður.

Ýmsa steypu yrki ég

ógn er vísna sjórinn.

Óðar en ég andann dreg

allur klárast bjórinn.

Ég fékk góðar vísur sendar eftir MH, Hvolsvelli. Fyrst er „Um brjóstvörn Seðlabankans“:

Í bankanum ekki svo kynlegt að kraumi,

í konum sá hluti af menningarstraumi.

Því berlega synd,

eru brjóstin á mynd.

Svo framvegis skulu þau skoðuð í laumi.

Síðan er „Þorrahugur“:

Veganistar vilja gras

og venjast fæði þunnu.

Aðrir fá sér gott í glas

og gallsúrt uppúr tunnu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is