Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Fyrsta umræða fór fram á Alþingi á fimmtudaginn um frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Fyrsta umræða fór fram á Alþingi á fimmtudaginn um frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Gekk frumvarpið áfram til efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur það nú til umfjöllunar. Nái frumvarpið fram að ganga munu slík félagasamtök geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt sem þau hafa þurft að greiða vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu samtakanna.

„Það sem er sammerkt með þessum geira er að hann er ekki í virðisaukaskattskyldri starfsemi, þannig að þegar þessi félagasamtök, hvort sem það eru björgunarsveitir eða íþróttafélög eða aðrir, eru að byggja yfir sína starfsemi þá þurfa þau alltaf að bera kostnaðinn af því að borga virðisaukaskattinn,“ segir Jón Gunnarsson, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Jón segir að þetta frumvarp hafi áður verið borið fram á þingi, en ekki náð fram að ganga. „En nú gerum við okkur vonir um að þetta nái að klárast þannig að þingið veiti þessu sjálfboðaliðastarfi sem unnið er um allt land ákveðna viðurkenningu, virðingu og þakklæti fyrir það mikilvæga starf sem unnið er í okkar samfélagi,“ segir Jón og bætir við að hann hafi heyrt í fulltrúum ýmissa samtaka sem séu vissir um að þetta úrræði myndi lyfta grettistaki í starfsemi margra félaga.

Flutningsmenn í mörgum flokkum

Frumvarpið er borið fram af tólf þingmönnum auk Jóns, og koma þeir úr flestum flokkum sem nú eru á þingi. Segir Jón að það ætti því að geta myndast sterk og góð samstaða um afgreiðslu málsins. „Það er vandfundið samfélag, þar sem sjálfboðaliðastarf er eins öflugt og það er á Íslandi í víðtækum skilningi,“ segir Jón og nefnir sem dæmi foreldrastarf innan íþróttafélaga, björgunarsveitir og fleiri. „Þetta framlag verður ekki metið til fjár fyrir íslenskt samfélag,“ segir Jón að lokum.