Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Eftir Ólaf F. Magnússon: "Börn á leið í skóla þurfi ekki að fara yfir götur með yfir 30 km hámarkshraða. Annars komi mislæg göngutengsl."

Á fundi borgarráðs 28. maí 2009 lagði ég fram umferðaröryggistillögu, þar sem segir m.a.:

„Borgarráð samþykkir að nú þegar verði hafinn undirbúningur að gerð 30 km svæðis á Hringbraut, sem nái frá gatnamótum Hringbrautar og Sæmundargötu á móts við Háskóla Íslands allt vestur að hringtorgi við Ánanaust. Jafnframt verði Hofsvallagata öll gerð að 30 km svæði. Einnig samþykkir borgarráð að Bústaðavegur frá gatnamótum við Sæbraut verði gerður að 30 km svæði vestur að Háaleitisbraut. Jafnframt verði Háaleitisbraut öll gerð að 30 km svæði. Auk þess verði unnar nýjar og víðtækari tillögur umhverfis- og samgöngunefndar um fjölgun 30 km svæða og mislægra göngutengsla í öllum hverfum borgarinnar í samræmi við tillögu þáverandi borgarstjóra (Ólafs F. Magnússonar) frá aprílmánuði 2008 m.a. með það að markmiði að börn á leið í skóla þurfi ekki að fara yfir götur með yfir 30 km hámarkshraða. Annars komi til mislæg göngutengsl.“

Tillaga mín var svæfð með því að vísa henni til umhverfis- og samgöngunefndar en þeir borgarstjórar, sem tóku við af mér, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Dagur B. Eggertsson, voru miklir andstæðingar mínir í umferðarmálum sem öðrum málaflokkum. Í borgarstjóratíð minni var hafist handa um umferðaröryggisráðstafanir á nyrðri hluta Hálaeitisbrautar, sem allir geta séð í dag og eru oft nefndar sem dæmi um vel heppnaða hraðahindrandi aðgerð á leið barna í skóla. En framhald varð ekki á áætlunum mínum í samræmi við áðurnefnda tillögu mína í borgarstjóratíð 2008 og í borgarráði 28. maí 2009. Ég tek það fram, að borgarstjórinn árin 2010-2014, Jón Gnarr, sinnti aldrei því starfi, enda var hann aðeins leppur fyrir Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna, eins og dæmin sanna.

Ég var svo lánsamur, árið 1990, að verða varaborgarfulltrúi og geta sinnt umferðaröryggismálum af eldmóði frá þeim tíma. Um það vitna fjölmargar umferðareyjur og hraðahindranir. Göngubrú yfir Miklubraut á móts við Framheimilið var árangur áralangrar baráttu minnar. Fjölmargar tillögur mínar um eyðingu svokallaðra svartbletta (slysastaða) á 20 ára borgarstjórnarferli verða annars ekki tíundaðar hér.

Sem íbúi í Fossvogshverfi á árunum 1986-2012 varð ég vitni að mörgum slysum og afleiðingum þeirra. Skömmu áður en ég flutti ofangreinda tillögu mína í borgarráði frá 28. maí 2009 kom ég að mótorhjólaslysi á gangbraut yfir Bústaðaveg á móts við Bústaðakirkju. Á fundi mínum sem borgarstjóri með íbúum í Fossvogs-, Smáíbúða og Bústaðahverfi í Réttarholtsskóla, í apríl 2008, fann ég ég glöggt að hjarta íbúanna sló í takt við mitt, með börnunum og öryggi þeirra. Það var forgangsmálið!

Ég ræddi einnig ítarlega við íbúa við Hringbraut, sem höfðu miklar áhyggjur af hraðakstri þar. Skjólstæðingur minn sem heimilislæknis hafði látið lífið í mótórhjólaslysi á mótum Birkimels og Hringbrautar 21. maí 2009 og skömmu áður en ég flutti tillöguna í borgarráði kom ég tvívegis að gangbrautarslysum á Hringbraut á móts við Háskóla Íslands. Í öðru tilfellinu var ekið fram úr strætisvagni gegn rauðu ljósi! Það sýnir best hve umferðarljós geta verið litilvirk til að ná niður hámarkshraða. Með reynslu mína í farteskinu, sem læknir í 40 ár og kjörinn fulltrúi Reykvíkinga í 20 ár, segi ég hiklaust, að hraðahindranir eru öruggasta og besta hraðavörnin. Þær hægja á umferðarflæði en koma ekki í veg fyrir það, eins og virðist ástríðufull vegferð núverandi borgarstjóra og meðreiðarsveina hans.

Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri.