[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurborg Stefánsdóttir fæddist 28. janúar 1959 í Reykjavík en flutti fjögurra ára til Stykkishólms, þar sem hún dvaldi fram að menntaskólaaldri. Sigurborg varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1979 og flutti til Kaupmannahafnar 1980.

Sigurborg Stefánsdóttir fæddist 28. janúar 1959 í Reykjavík en flutti fjögurra ára til Stykkishólms, þar sem hún dvaldi fram að menntaskólaaldri.

Sigurborg varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1979 og flutti til Kaupmannahafnar 1980. Hún var þar í læri hjá málaranum Hans Chr. Høier og stundaði nám við Skolen for Brugskunst, (nú Kunstacademiets Designskole, KADK) í teikni- og grafíkdeild skólans, auk þess að bæta við sig einu ári í textíldeild skólans.

Eftir að Sigurborg hafði lokið prófi 1987 fór hún að vinna m.a. á bókaforlaginu Rhodos. Sigurborg flutti aftur til Íslands 1989 og hóf þá kennslu við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar Listaháskóla Íslands. Hún hefur alla tíð lagt stund á málun og hönnun ýmiss konar og gerir enn, auk þess að sækja námskeið víða, t.d. til Bandaríkjanna og Japans.

Í dag vinnur Sigurborg eingöngu sjálfstætt að eigin myndlist á vinnustofu sinni á Grensásvegi. Um þessar mundir stendur yfir sýning á klippimyndum Sigurborgar í Hallgrímskirkju en sú sýning stendur til 3. mars.

Af hönnunarverkefnum má nefna bókarkápur, merki, kort, klúta, slæður, púða og fleira. Fyrirferðarmest eru þó Bókverkin en Sigurborg hefur framleitt mikinn fjölda bókverka í gegnum tíðina, ýmist með eða án texta og hafa verkin verið á sýningum víðs vegar um heiminn. Þann 1. febrúar næstkomandi heldur hún til San Francisco, þar sem hún mun ásamt sjö öðrum íslenskum listakonum taka þátt í stærstu bókverkamessu sinnar tegundar, Codex Polaris 2019. Sigurborg er einn stofnenda „Bókverkahópsins Arkir“ sem hefur verið starfræktur í yfir 20 ár og eru félagar hans 11 listakonur, sem vinna jöfnum höndum að ýmiss konar bókverkum.

Sigurborg hefur haldið 17 einkasýningar á verkum sínum, oftast málverkum, á Íslandi, í Danmörku og á Ítalíu auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga víðs vegar um heim. Hún hefur gefið út eina ljóðabók „Rökkurmoð“ 2012.

Sigurborg sat um árabil í stjórn Samtaka hönnuða – Form Ísland. Hún er einn stofnfélaga í „Göngum saman félaginu“ sem styrkir grunnrannsóknir í brjóstakrabbameini. Þá er hún í lesklúbbi, því hún er ástríðufullur lesandi. Sigurborg hefur ferðast mjög víða og var búsett annars vegar á Spáni 2000-2001 og hins vegar í Vancouver í Kanada 2013-2014. Um þessar mundir er hún stödd á ferðalagi um Nýja-Sjáland.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigurborgar er Mekkinó Björnsson, f. 20.3. 1953, flugstjóri. Foreldrar: Hjónin Gunnhildur Jóhannsdóttir, f. 23.10. 1929, skrifstofumaður, og Björn Mekkinósson, f. 23.5. 1926. d. 17.5. 1998, heildsali. Þau voru bús. í Kanada og Reykjavík.

Fyrri maki Sigurborgar var Daníel Helgason, f. 24.4. 1959, verkfræðingur. Börn Sigurborgar og Daníels eru 1), Grímur Daníelsson, f. 10.3. 1985, B.S. í verkfræði, bús. í Reykjavík; 2) Anna Daníelsdóttir, f. 29.12. 1990, lögfræðingur, bús. í Reykjavík; 3) Sölvi Daníelsson, f. 17.4. 1999, nemi í Háskólanum í Reykjavík.

Börn Mekkinós eru Björn Mekkinósson, f. 22.1. 1981, hljóðupptökumaður í Los Angeles, og Stefán Mekkinósson, f. 2.8. 1990, kvikmyndagerðarmaður í Reykjavík.

Systkini Sigurborgar eru Sigurkarl Stefánsson, f. 22.11. 1956, líffræðingur í Reykjavík, og Anna Kristín Stefánsdóttir, f. 19.10. 1960, bókasafns- og upplýsingafræðingur í Reykjavík.

Foreldrar: Hjónin Stefán Sigurkarlsson, f. 12.7. 1930. d. 17.12. 2016, lyfjafræðingur og apótekari í Stykkishólmi, Akranesi og síðast í Reykjavík, og Anna Guðleifsdóttir, f. 22.02.1933, starfsmaður í apóteki, bús. í Kópavogi.