Frans páfi
Frans páfi
Að minnsta kosti átján manns létust og fjöldi særðist þegar tvær sprengjur sprungu með stuttu millibili í kaþólskri kirkju á eyjunni Jolo, sem er sunnarlega á Filippseyjum.

Að minnsta kosti átján manns létust og fjöldi særðist þegar tvær sprengjur sprungu með stuttu millibili í kaþólskri kirkju á eyjunni Jolo, sem er sunnarlega á Filippseyjum. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð sinni á ódæðinu, en Frans páfi fordæmdi ofbeldi gegn kristnum mönnum í kjölfar þess.

Hryðjuverkið í gær er eitt hið mannskæðasta sem skekið hefur Filippseyjar á undanförnum árum. Íslamskir vígamenn hafa haft sig í frammi undanfarin ár, en fólk sem aðhyllist íslam er fjölmennt sunnarlega á Filippseyjum, sem annars eru að mestu leyti kaþólskt land.

Einungis er liðin vika frá atkvæðagreiðslu sem gaf Jolo og nærliggjandi eyjum aukna sjálfsstjórn, en vonin var að með því myndi takast að koma til móts við sjónarmið íslamskra aðskilnaðarsinna.

Frans páfi, sem var í opinberri heimsókn í Panama, fordæmdi hryðjuverkið og harmaði það að enn einu sinni hefði hinu kristna samfélagi verið steypt í sorg.

Angelito Lampon, biskup á Filippseyjum, sagði við AFP-fréttastofuna að árásir á þessa tilteknu kirkju væru ekki óalgengar, en að engin þeirra hefði verið eins mannskæð og nú. Hétu stjórnvöld á Filippseyjum því að þau myndu finna þá sem bæru ábyrgð á hryðjuverkinu og láta þá svara til saka. sgs@mbl.is