Sigríður Ingibjörg Þorgeirsdóttir fæddist 29. júlí 1937. Hún lést 28. desember 2018.

Útför Sigríðar fór fram 8. janúar 2019.

Nú er hún Stella farin í sína hinstu för, ferðina sem við öll förum þegar okkar tími kemur. Við kveðjum hana með virðingu, þakklæti og söknuði.

Stella var kennari við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði nær allan sinn starfsaldur, meira en hálfa öld. Hún var virt og vel liðin af öllum, nemendum sem samstarfsfólki, laginn og þolinmóður kennari, frábær íslenskumanneskja, sem gott var að leita til með margs konar álitamál. Auk þess var hún vel skáldmælt og lifa mörg ljóða hennar og texta, sem hún samdi fyrir kórinn í skólanum okkar og bera smekkvísi hennar og hæfileikum fagurt vitni.

Stella var andlega leitandi og næm, var á árum áður virk í Guðspekifélaginu og Samfrímúrarareglunni og trúði einlæglega á mátt bænarinnar. Fyrir aldarfjórðungi stofnuðum við fjórar konur í Öldutúnsskóla bænahring og smám saman bættust aðrar fjórar í hópinn. Lengst af hittumst við vikulega heima hjá Stellu á litla notalega heimilinu hennar að Öldutúni 7.

En allar helgar og öll sumur var hún heima á Hæringsstöðum, þar sem hjarta hennar sló og ræturnar lágu. Aðstoðaði hún foreldra sína og síðar bróður við bústörfin, óþreytandi að annast blessaðar skepnurnar.

Síðustu árin voru Stellu erfið sökum heilsubrests og dvaldi hún á sjúkrastofnunum og þráði það heitast að komast heim á bæinn sinn þó ekki væri nema í stutta heimsókn, en af því varð ekki.

Nú er Stella laus við þjáningar og fjötra líkamans og getur liðið frjáls um sína ástkæru átthaga. Við vottum Sólveigu systur hennar og öðrum aðstandendum samúð. Guð blessi minningu Sigríðar Þorgeirsdóttur.

Edda, Guðrún A., Guðrún G., Halla, Katrín, Kristín og Sigríður.