Verðlaunahafi Taílenski listamaðurinn Apichatpong Weerasethakul.
Verðlaunahafi Taílenski listamaðurinn Apichatpong Weerasethakul. — AFP
Taílenski kvikmyndaleikstjórinn og myndlistarmaðurinn Apichatpong Weerasethakul hlýtur Artes Mundi-myndlistarverðlaunin í ár og fær 40 þúsund sterlingspund í verðlaunafé, jafnvirði tæpra 6,3 milljóna króna.

Taílenski kvikmyndaleikstjórinn og myndlistarmaðurinn Apichatpong Weerasethakul hlýtur Artes Mundi-myndlistarverðlaunin í ár og fær 40 þúsund sterlingspund í verðlaunafé, jafnvirði tæpra 6,3 milljóna króna. Verðlaunin eru ein þau virtustu í flokki myndlistar í Bretlandi og var tilkynnt um þau undir lok síðustu viku. Þau eru veitt annað hvert ár fyrir pólitíska myndlist hvaðanæva úr heiminum.

Weerasethakul er þekktur kvikmyndagerðarmaður og hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes árið 2010 fyrir kvikmynd sína Uncle Boonmee Who Can Recall His Past Lives . Í verkum sínum kannar leikstjórinn oftar en ekki þversagnir í samfélagi heimalands síns, m.a. kapítalísma og kúgunarstjórn.

Listamenn sækja um Artes Mundi-verðlaunin, leggja inn verk og verkið sem leikstjórinn hlaut þau fyrir er 12 mínútna löng stuttmynd sem nefnist Invisibility og er nú til sýnis í Listasafni Cardiff þar sem einnig má sjá önnur verk sem lögð voru inn til keppni. Í frétt dagblaðsins Guardian segir að dómnefnd verðlaunanna lofi listamanninn fyrir rannsóknir sínar á kvikmyndagerð, frásagnarlist og samfélagslegri og pólitískri stöðu listamannsins.