Tap Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni gegn Millwall þar sem Everton tapaði og féll þar með úr leik í 32 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Tap Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni gegn Millwall þar sem Everton tapaði og féll þar með úr leik í 32 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. — AFP
Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Everton þurftu að bíta í það súra epli að falla úr leik í 32 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Everton sótti B-deildarliðið Milwall heim og tapaði 3:2 þar sem heimamenn skoruðu sigurmarkið í blálokin.

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Everton þurftu að bíta í það súra epli að falla úr leik í 32 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Everton sótti B-deildarliðið Milwall heim og tapaði 3:2 þar sem heimamenn skoruðu sigurmarkið í blálokin. Gylfi lék allan tímann og lagði upp seinna markið, sem Tyrkinn Cenk Tosun skoraði eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Það er farið að hitna hressilega undir Marco Silva, stjóra Everton, en gengi liðsins á tímabilinu hefur verið langt undir væntingum.

Óvæntustu úrslitin urðu þegar Wimbledon, botnliðið í C-deildinni, sló úrvalsdeildarlið West Ham úr leik með 4:2 sigri. Wimbledon var 2:0 yfir í hálfleik og komst í 3:0 áður en West Ham náði að laga stöðuna.

Manchester City burstaði Burnley 5:0 en Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki með Burnley vegna meiðsla. Gabriel Jesus, Bernando Silva, Kevin De Bruyne og Sergio Agüero skoruðu mörk City en eitt markanna var sjálfsmark.

Crystal Palace vann góðan sigur gegn Tottenham 2:0 þar sem Connor Wickham og Andros Townsend, úr víti, skoruðu mörk Palace í fyrri hálfleik. Kieran Trippier fékk gott tækifæri til að laga stöðuna fyrir hálfleik en honum brást bogalistin af vítapunktinum.

Willian skoraði tvö mörk og ungstirnið Callum Hudson-Odoi eitt í 3:0 sigri ríkjandi bikarmeistara gegn Sheffield Wednesday. gummih@mbl.is