Sorp Sunnlendingar eru hvattir til að flokka úrgang betur á næstunni.
Sorp Sunnlendingar eru hvattir til að flokka úrgang betur á næstunni. — Frikki
Aukin flokkun úrgangs mun hafa algjöran forgang í starfi sveitarfélaga á Suðurlandi næstu mánuði, samkvæmt fréttatilkynningu frá Sorpstöð Suðurlands.

Aukin flokkun úrgangs mun hafa algjöran forgang í starfi sveitarfélaga á Suðurlandi næstu mánuði, samkvæmt fréttatilkynningu frá Sorpstöð Suðurlands. Segir þar að vönduð flokkun sé forsenda þess að hægt sé að lágmarka magn og kostnað vegna úrgangs sem senda þarf utan til brennslu en vonir standa til að hægt verði að hefja útflutning sorps frá Suðurlandi í sumarbyrjun.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að í framhaldi af því að Sorpa hafnaði beiðni Sorpstöðvar Suðurlands um tímabundna móttöku úrgangs til urðunar í Álfsnesi sé undirbúningur fyrir útflutning brennanlegs úrgangs kominn í fullan gang. „Þessi breytta staða gerir það að verkum að nú verður enn mikilvægara en fyrr að úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum á svæðinu verði flokkaður eins mikið og hægt er og komið í endurvinnslu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Gámaþjónustan og Íslenska gámafélagið séu nú að koma sér upp pökkunarvélum og öðrum búnaði til þess að gera sorpið útflutningshæft auk þess sem þau séu að útvega þau leyfi sem þurfi til þess að flytja sorpið út. Tekið er fram að endanlegar kostnaðartölur vegna útflutnings sorps frá Suðurlandi liggi ekki fyrir, en að ljóst sé að þessi tilhögun hafi aukinn kostnað í för með sér. Vönduð flokkun sé lykilforsenda til að halda kostnaðinum í lágmarki.

„Það er von stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands og sveitarstjórna á svæðinu að íbúar, fyrirtæki og sumarhúsaeigendur á svæðinu bregðist vel við ákalli um aukna flokkun úrgangs og stuðli þannig að betri nýtingu auðlinda og lækkun kostnaðar sem annars lendir á íbúum, fyrirtækjum, sumarhúsaeigendum og sveitarfélögum,“ segir að lokum.