Hvetja þarf til þess að réttarríkið fái að njóta sín

Þróunin í Tyrklandi er um margt mikið áhyggjuefni. Á síðustu árum hefur Erdogan forseti seilst til aukinna valda og sýnt einræðistilburði þó að um leið verði vitaskuld að horfa til þess að hann hefur sigrað í kosningum og situr í forsetastóli í krafti þess.

En það verður líka að horfa til þess að Tyrkland er í Atlantshafsbandalaginu og æskilegt væri að það færðist nær Vesturlöndum og þeim stjórnarháttum sem þar ríkja. Erfitt er að halda því fram að svo hafi verið á liðnum árum og þó að sum Vesturlanda beri nokkra ábyrgð, einkum með viðbrögðum þegar hluti hersins reyndi valdarán árið 2016, réttlætir það ekki hve langt Erdogan hefur gengið í að herða tökin.

Eitt dæmi um einræðistilburðina er aðförin að réttarkerfinu sem birtist í því að hátt í þrjú þúsund fyrrverandi dómarar og saksóknarar sitja á bak við lás og slá í landinu eftir hreinsanir síðustu missera. Forystumenn Dómarafélags Íslands funduðu af þessu tilefni fyrir helgi með utanríkisráðherra og ræddu sérstaklega mál eins þeirra dómara sem dæmdir hafa verið í fangelsi í Tyrklandi fyrir óljósar sakir.

Þó að Ísland geti ekki haft nema mjög takmörkuð áhrif á þróun mála í Tyrklandi er sjálfsagt að nota þau tækifæri sem gefast til að vekja athygli tyrkneskra stjórnvalda á því að umheimurinn fylgist með því sem gerist þar í landi.

Það kæmi öllum vel, ekki síst Tyrkjum sjálfum, ef hægt væri að rétta kúrsinn þar í landi og koma á heilbrigðari stjórnarháttum.