Kjaraviðræður sem nú standa yfir snúast öðru fremur um stóru breyturnar í hagkerfinu og hvort svigrúm sé til þess að launþegar fái ofurlítið stærri sneið af þjóðarkökunni, en þegar henni var síðast skipt.

Kjaraviðræður sem nú standa yfir snúast öðru fremur um stóru breyturnar í hagkerfinu og hvort svigrúm sé til þess að launþegar fái ofurlítið stærri sneið af þjóðarkökunni, en þegar henni var síðast skipt. Þetta má kalla söguna endalausu; sú skipting á gæðum samfélagsins sem sæmileg sátt getur skapast um er endalaust viðfangsefni. En fleira er matur en feitt kjöt, eins og stundum er sagt. Þótt mikilvægt sé að tryggja almenningi sem flestar krónur í launaumslagið má auka lífsgæðin með ýmsu öðru móti og til þess að gera einföldum aðgerðum. Ætla verður hins vegar að slík mál hreinlega gleymist þegar kemur að því að loka stóru samningum sem snerta líf hvers einasta mannsbarns.

Oft hefur verið sagt að frí á fimmtudegi að vori, það er á sumardaginn fyrst og uppstigningardag, sé skynsamlegt að færa að helginni; svo útkoman verði góð þriggja daga fríhelgi. Margvíslegt óhagræði leiði af því að þorri vinnandi fólks taki sér hlé frá störfum einn virkan dag. Ræðir þar um daga sem áður fyrr höfðu sennilega meira vægi en nú í íslensku samfélagi, sem hefur breyst afar hratt á undanförnum árum. Sannarlega er virðingarvert að fagna sumri og upprisu frelsarans, með vísan til tveggja fyrrnefndra daga, en líka alveg frábært að lengja helgarnar svo úr verði gæðastundir fjölskyldna sem geta gert eitthvað skemmtilegt saman á vordögum.

Átak í húsnæðismálum sem er innlegg stjórnvalda í kjaraviðræðurnar og var kynnt í síðustu viku er sömuleiðis stórgott. Tillögur sem fyrir liggja hafa fengið góðar viðtökur, þó að útfærslur og framkvæmd séu eftir. En gott og vel; að mati Víkverja er fráleitt að húsnæðisbasl Íslendinga sé lögmál. Í ævisögum margra kynslóða eru hrakfallasögur af kjallaraholum, naglhreinsun, verðtryggingardraugum og leiguokri áberandi og eru gjarnan efni í 3-4 kafla sögunnar. Heilbrigðara ástand í húsnæðismálum gæti skapað nýja bókmenntahefð.