Helgi Kristjánsson
Helgi Kristjánsson
Eftir Helga Kristjánsson: "Nú, á gamals aldri, á ég þá von heitasta að einhver ungur þjóðfræðingur taki upp á arma sína samband tunglsins og þjóðarinnar."

Karlinn

í tunglinu

er kátur gaur

hann er

fastagestur

á hverfisbar

veðurguðanna

í himinhvolfinu

biður um

söngvatn

og verður kvart

hálfur

nú eða fullur

syngur þá

við raust

í hvínandi

rokinu.

Tunglið má ekki taka hann Óla/ til sín upp í himnarann/ þá fer hún mamma að gráta og góla/ og gerir hann pabba sturlaðan.

Þessi gamla barnagæla er aðeins agnarbrot af kveðskap alþýðufólks um tunglið. För tunglsins um himinhvolfið var nefnilega afar snar þáttur í lífi fólksins.

Ég man vel eftir því á óþurrkasumri að hafa heyrt gömlu mennina ræða erfitt ástand. Nú væri kannski von um breytingu því næsta tungl kviknaði ekki í suðri. Almanak Þjóðvinafélagsins var alltaf hendi næst hjá körlunum.

Í þá daga voru veðurspárnar aðeins til sólarhrings og skýringar við þær nánast engar. Því varð að vega þær og meta fram og aftur og blóta hjáguðinn í laumi.

Ég lagði mig aldrei sérstaklega eftir gömlu alþýðufræðunum. En nú á gamals aldri á ég þá von heitasta að einhver ungur þjóðfræðingur taki upp á arma sína samband tunglsins og þjóðarinnar, safni því saman sem enn er í minni fólks þótt hégómi sé og þyki bábilja. Þetta þarf að gera áður en það verður algjör seinengjaheyskapur og örreyti.

Á rúmlega tveggja vikna fresti er tunglið ýmist „nýtt“ eða „fullt“. Engum getur leynst, og síst í sveitinni, hve mikil áhrif staða tunglsins hefur á næstum hvaðeina.

Kýrnar þurfa naut og ærnar beiða helst í „straumana“ eins og sagt var og sama er með fæðingarnar. Geðslag manna og dýra getur þá breyst til hins verra. Það þekkir lögreglan. Ótrúlegustu hluti er hægt að tína til sögunnar og ber allt að sama brunni.

Tunglin eiga sín heiti svo sem þorratungl og sumartungl og ótal útlitsfyrirbæri eru þekkt. Eitt af þeim er rosabaugur sem er upplýstur hringur um fullt tungl og magnað fyrirbæri.

Stærstan rosabaug sá ég þegar ég var ellefu ára strákur heima í Borgarfirði.

Þetta var að kvöldi 6. janúar 1950. Þá var stafalogn í miklu frosti. Það var mikil hjarnbirta og tunglið var glennifullt rétt ofan við Skarðsheiðina með geysimikinn rosabaug. Mátti heita að dagbjart væri úti.

Þessi ótrúlega sýning náttúrunnar boðaði ekki gott. Um nóttina gerði aftakaveður sem stóð lengi. Veðrið man ég vel því ég var hræddur um gamla húsið sem reyndar stendur enn. Gamlir Vestmannaeyingar muna þetta veður enn betur. Ég heyrði eitt sinn jafnaldra minn úr Eyjum lýsa því þegar hann og systkini hans gátu ekki sofið nóttina milli 7. og 8. janúar 1950. Faðir þeirra var úti alla nóttina við björgunarstörf. Mb Helgi VE 333 hafði daginn áður farist við Faxasker án mannbjargar. Óttast var um tvo aðra báta sem ekki hafði heyrst til og voru jafnvel taldir af. Hraðfrystistöðin stóð í björtu báli og neistaflugið frá eldinum feyktist yfir hálfan bæinn. Þetta var ein þeirra ógnarnátta sem Eyjamenn hafa þurft að kynnast um aldirnar.

Höfundur býr í Ólafsvík. sandholt7@gmail.com