Hersýning Endaloka umsátursins var minnst með ýmsum hætti í gær.
Hersýning Endaloka umsátursins var minnst með ýmsum hætti í gær. — AFP
Stjórnvöld í Þýskalandi og Rússlandi tilkynntu í gær að Þjóðverjar ætluðu að borga 12 milljónir evra til fólks sem lifði af umsátur Þjóðverja um borgina Leníngrad.

Stjórnvöld í Þýskalandi og Rússlandi tilkynntu í gær að Þjóðverjar ætluðu að borga 12 milljónir evra til fólks sem lifði af umsátur Þjóðverja um borgina Leníngrad. Þess var minnst í gær að 75 ár voru liðin frá því að umsátrinu var hrundið, en fleiri en 800.000 manns létust á meðan því stóð.

Um 86.000 manns sem lifðu umsátrið búa nú í borginni, sem í dag nefnist St. Pétursborg. Lásu Heiko Maas og Sergei Lavrov, utanríkisráðherrar þjóðanna, upp sameiginlega yfirlýsingu um ákvörðun þýsku ríkisstjórnarinnar.

Vegleg hátíðahöld voru í St. Pétursborg í tilefni dagsins og hrósaði Vladimír Pútín íbúum borgarinnar fyrir þann baráttuanda sem þeir hefðu sýnt meðan á umsátrinu stóð. Þá var einnig haldin hersýning í miðbænum, en Pútín ákvað að sækja hana ekki, heldur færði hann blómvönd að minnismerki um umsátrið meðan á sýningunni stóð.

Umsátrið hófst 8. september 1941 og lauk ekki fyrr en 872 dögum síðar, hinn 27. janúar 1944.