Þekking Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar og líðan, segir Karl Ægir um bollaleggingar um breytta klukku.
Þekking Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar og líðan, segir Karl Ægir um bollaleggingar um breytta klukku. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Fyrir mér er algjörlega sjálfsagt að klukkunni verði breytt – og mér hefur alltaf fundist einkennilegt að hún fylgi ekki hnattstöðu,“ segir Karl Ægir Karlsson prófessor í taugavísindum við Háskólann í Reykjavík.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Fyrir mér er algjörlega sjálfsagt að klukkunni verði breytt – og mér hefur alltaf fundist einkennilegt að hún fylgi ekki hnattstöðu,“ segir Karl Ægir Karlsson prófessor í taugavísindum við Háskólann í Reykjavík.

Á síðustu árum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir sem allar sýna mikilvægi þess að sólin og klukkan fylgist að. Það er líkamanum mikilvægt að nýta geisla morgunsólarinnar sem best á morgnana, því árla dags eru hraðar bylgjur í sólarljósinu ríkjandi; blátt ljós sem kallað er í daglegu tali. Það ljós nema frumur í augum okkar og heila svo hægir á svefnvirkni og framleiðslu melatóníns. Í raun má segja að þessir ferlar núllistilli lífsklukkuna okkar og segi að dagur sé risinn og tími kominn til að fara á fætur.

Þrír valkostir

Sú spurning hvort breyta eigi gangi Íslandsklukkunnar er stór og áleitin. Að mati vísindamanna sem á síðasta ári unnu greinargerð um málið fyrir stjórnvöld hefur það neikvæðar afleiðingar að miða við of fljótan staðartíma.

Í einföldustu mynd eru málavextir þeir að þegar klukkan á Íslandi slær 12.00 á sólin enn eftir klukkustund í hádegisstað. Að gera breytingu sem þessu nemur er einn þeirra kosta sem landsmenn hafa um að velja á svonefndri samráðsgátt á netinu. Hinir eru óbreytt staða, það er að klukkan sé áfram einni klst. fljótari en hnattstaða segir, en þá komi til fræðsla þar sem fólk sé hvatt til að ganga fyrr til náða á kvöldin. Þriðji möguleikinn er sá að engu verði breytt, en skólar, fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi sína seinna á morgnana, þannig að fólk jafnan fari til daglegra verka sinna þegar skíma er komin á himininn.

Í áratugi og allt fram til 1968 gilti á Íslandi að klukkunni var flýtt fram um eina klukkustund í apríl ár hvert en svo aftur seinkað um þetta sama fyrsta vetrardag, það er seint í október. Allt var þetta gert til að nýta birtuna vel.

Tíðni áfalla og slysa eykst

„Fólk taldi á sínum tíma mikilvægt að Ísland væri á sama tíma og helstu viðskiptalönd okkar, til dæmis Bretland þar sem tíminn er sá sami yfir veturinn en Norðurlöndin klukkustund á undan okkur. Vissulega eru þetta rök en með netvæðingu og sjálfsafgreiðslu á svo mörgu skiptir þetta minna máli en áður. Svo verður líka að halda til að haga að í Evrópu þar sem er sumartími og klukkan röng á sumrin, til þess að lengja birtuna yfir daginn, þá gerist það fyrstu mánuðina eftir breytingu eykst jafnan tíðni heilablóðfalls, hjartaáfalla og bílslysa. Að sofa er einfaldlega lífsspursmál fyrir okkur mannfólkið. Skertur svefn, eins og rannsóknir sýna, eykur tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, Alzheimer, elliglapa, þunglyndis og kvíða svo eitthvað sé nefnt.“

Hin hliðin á því að seinka klukkunni um eina klukkustund svo við njótum morgunbirtunnar betur er að sólarljóss nýtur þá skemur í hinn endann. Öll þekkjum við sumarkvöldin fögur; notalegar stundir á veröndinni þegar ágústnóttin nálgast. Eða þann gæðatíma sem krakkarnir hafa til útleikja og ævintýra á björtum kvöldum þegar ómögulegt er inn að sofa. Karl Ægir segir þetta allt skiljanleg sjónarmið en minnir á vísindin.

„Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar og líðan, það er morgunbirtan sem öllu máli skiptir. Líkamsklukkan er þannig gerð af skaparanum að hringurinn er 25 klukkustundir og ef vísbendinga frá sólarljósi nýtur ekki við erum við að setja lífið í ójafnvægi. Á Íslandi þarf fólk einfaldlega að fylgja ljósinu og sofa meira; skv. nýjum tölum sofa ungmenni á Íslandi rétt rúmar 6 klukkustundir á sólarhring, sem er allt of lítið. Og haldi þessu áfram blasir við okkur eftir 20 ár eða svo faraldur þeirra sjúkdóma, eins og ég nefni hér að framan. Svefn hefur líka mikil áhrif á efnaskipti í líkamanum og er skammur svefn þekkt orsök að sykursýki 2 sem í dag nálgast að vera heimsfaraldur. Mér finnst því í raun einboðið að gera breytingar á klukkunni. Mér finnst ekki valkostur að fara í flókið og dýrt samfélagsátak með óljósum markmiðum til þess eins að viðhalda rangri klukku – því rökin fyrir breytingum sem lúta að heilsu eru alveg skýr.

Hver er hann?

• Karl Ægir Karlsson er fæddur 1971 og er með PhD-gráðu í taugavísindum frá University of Iowa. Karl hóf störf á tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og hefur verið prófessor þar frá 2015. Karl stofnaði ásamt Haraldi Þorsteinssyni sprotafyrirtækið 3Z sem starfar á sviði lyfjaskimana og lyfjaþróunar.

Rannsóknir Karls hafa að mestu snúist um taugalífeðlisfræði og þroska svefns.

• Karl er í sambúð með Björk Eiðsdóttur, blaðamanni og ritstjóra. Eiga þau sex börn og vænta þess sjöunda, og fyrsta sameiginlega, í maí.