Gunnar Ingibergsson fæddist í Reykjavík 4. október 1933. Foreldrar hans voru Ingibergur Runólfsson, f. 30. maí 1896, d. 20. október 1981, og Sigríður Olga Kristjánsdóttir, f. 22. desember 1896, d. 18. desember 1967.

Gunnar var yngstur sex systkinna: Kristín, f. 14. október 1917, d. 16. september 2012. Ragnhildur, f. 15. apríl 1923, d. 1. september 2013. Þórdís, f. 27. ágúst 1924, d. 3. júlí 2015. Helga, f. 12. desember 1925, d. 20. júli 2007. Ásgeir, f. 17. janúar 1928, d. 18. nóvember 2009.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Eva Jóhannsdóttir, f. 24. febrúar 1934. Börn þeirra eru Bjarki, f. 9. apríl 1964, giftur Ólöfu Ragnhildi Sigurðardóttur, börn þeirra eru Eva Björt, Marinó Bessi og Rakel Hulda, fyrir á Ólöf Jóhönnu Vilborgu. Helena, f. 9. apríl 1964, gift Benedikt Á. Guðmundssyni, börn þeirra eru Gunnar og Signý. Fyrir á Benedikt, Guðmund Snorra. Marta, f. 31. júlí 1970, gift Sæmundi Sævarssyni. Börn þeirra eru Bára, Brynja og Björk.

Gunnar ólst upp í Reykjavík. Hann lærði húsgagnasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og lauk þar námi 1953. Hann fór síðan til Danmerkur og nam innanhús- og húsgagnaarkitektúr í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Að loknu námi starfaði hann hjá Sveini Kjarval innanhúsarkitekt og fór síðan að vinna hjá Húsameistara ríkisins. Samhliða þeirri vinnu vann hann mikið sjálfstætt og stofnaði eigin arkitektastofu sem hann rak til ársins 1978. Þá fór hann aftur til Húsameistara ríkisins. Árið 1989 hóf hann störf hjá Alþingi sem deildarstjóri fasteigna- og húsbúnaðardeildar og sinnti því starfi þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Útför Gunnars fer fram frá Neskirkju í dag, 28. janúar 2019, klukkan 13.

Elsku pabbi, við kveðjum þig með miklum söknuði og erum þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér.

Pabbi var einstakur maður með stórt hjarta og hafði góða nærveru. Hjá honum voru allir jafnir og þannig ólumst við upp. Hann var ætíð tilbúinn að hlusta á okkar sjónarmið og leyfði okkur oftar en ekki að taka þátt í sínum störfum, t.d. þegar hann var að stilla upp fyrir sýningar, innrétta DAS húsin, smíða sumarbústaðinn og fleira.

Alltaf var pabbi til staðar fyrir okkur og hvatti okkur áfram í þeim verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann var alltaf tilbúinn að eyða tíma með okkur og var með eindæmum hugmyndaríkur hvort sem það var að baka með okkur úr brauðafgöngum þegar mamma var að vinna, útbúa rúm úr Sinalco-kössum, breyta reiðhjóli í snjósleða eða þræða búðir með okkur til að finna frumlegustu stígvélin í bænum.

Pabbi var mikill handverksmaður og þegar við systkinin stóðum í einhverjum framkvæmdum var hann mættur fyrstur á svæðið, í vinnufötunum. Þar var hann okkar stoð og stytta, hvort sem það var að hanna, skipuleggja eða framkvæma verkið og þannig var hann með okkur alveg fram á síðasta dag. Pabbi var mikill skíðamaður og kenndi okkur snemma að meta skíðaíþróttina. Við fórum ótalmargar skíðaferðir með honum í Jósefsdal, Skálfell og Bláfjöll og þá skipti oft ekki máli hvort lyftur voru opnar eða ekki. Enn í dag er þetta sameiginlegt fjölskyldusport okkar allra.

Það er ekki hægt að minnast pabba án þess að nefna sumarbústaðinn, en þar byggði hann sína draumahöll, Sumó. Þær minningar sem við eigum þaðan eru ómetanlegar, pabbi sitjandi að skara eldinn, í vinnufötum að smíða eða laga eitthvað og í huga pabba var alltaf sól í Sumó. Sumarbústaðurinn átti hug hans allan og þar naut hann sín í faðmi fjölskyldunnar. Þar áttum við óteljandi stundir öll saman og alltaf virtist nóg pláss fyrir nýja fjölskyldumeðlimi í þessum fáu fermetrum.

Að lokum viljum við þakka þér, elsku pabbi, fyrir þá einstöku hlýju sem þú umvafðir okkur og fjölskyldu okkar fram á síðasta dag. Minning þín lifir.

Bjarki, Helena og Marta.

Elsku Gunnar, tengdafaðir minn.

Það er óraunverulegt að núna sé komið að kveðjustund, en ég er lánsöm að eiga góðar minningar og að hafa fengið að kynnast ykkur Evu og allri fjölskyldunni. Það er mér enn í dag ljóslifandi þegar ég hitti ykkur fjölskylduna í fyrsta skipti á sólríkum sumardegi í fallega sumarbústaðnum ykkar í Grímsnesi. Tekið var á móti okkur mæðgum eins og við hefðum alltaf verið hluti af fjölskyldunni. Jóhanna var þá fimm ára og genguð þið Eva henni um leið í afa og ömmu stað. Upp frá því átti hún eftir að eyða mörgum dögum með ykkur á uppáhalds stað fjölskyldunnar, í sumó þar sem fjölskyldan hefur átt ómetanlegan tíma saman. Það voru ekki páskar nema að fara í sumó og öll stórfjölskyldan saman, enda mikill fjölskyldumaður og samheldni í fjölskyldunni skipti þig og Evu miklu máli. Þú varst góður afi og ákaflega stoltur af barnabörnunum og barnabarnabörnunum. Eftir sitja góðar minningar sem börnin og við foreldrarnir höfum gaman af að rifja upp og eru þá nefnd lögin sem þú söngst með krökkunum, sögurnar sem þú sagðir þeim og svo uppátækin sem voru mörg og þú hafðir gaman af.

Alltaf varstu tilbúinn til þess að taka þátt í þeim verkefnum sem fjölskyldan tók sér fyrir hendur og sýndir því mikinn áhuga. Við nutum góðs af því hversu handlaginn þú varst og af þekkingu þinni í hönnun enda innanhússarkitekt að mennt.

Þú varst mikill fagurkeri og það endurspeglaðist í þeim verkum sem þú tókst þér fyrir hendur og þar kom rennibekkurinn við sögu eftir að þú komst á aldur, þar naust þú þín vel og gerðir fallega hluti sem prýða heimili okkar.

Eitt af því fyrsta sem þú gerðir eftir að ég kom inn í fjölskylduna var að kenna mér á skíði sem ég er svo óendanlega þakklát fyrir. Enda mikill skíðamaður frá unga aldri og skíðaáhugi þinn hefur endurspeglast hjá afkomendunum sem öll eru skíðaiðkendur í dag.

Elsku Gunnar minn, ég kveð þig og vil þakka þér fyrir allar samverustundirnar sem við áttum saman. Þín mun verða sárt saknað en minning þín mun lifa.

Guð blessi þig.

Þín tengdadóttir

Ólöf.

Eftir um 30 ára kynni af Gunnari tengdaföður mínum, kveð ég hann með þökk fyrir allt.

Gunnar og Eva tóku einstaklega vel á móti mér þegar ég kom inn í fjölskylduna. Með okkur Gunnari tókst afar góður vinskapur. Hann hjálpaði okkur Mörtu að innrétta okkar fyrstu íbúð sem var rétt rúmlega fokheld. Eftir á að hyggja var þetta þolinmæðisverk fyrir Gunnar þar sem strákurinn var jú bara rétt rúmlega tvítugur og kunni nú ekki til allra verka, en með góðri leiðsögn tókst það.

Honum var mikið í mun að við fyndum út hvernig við vildum hafa hlutina en ekki bara segja okkur til sem hefði verið auðveldast fyrir hann.

Góðar minningar á ég um okkur þegar við hittumst stundum í hádeginu til að skauta á Tjörninni, fórum í Kerlingarfjöll á skíði, snjósleðaferðir, gönguskíði, jeppaferðir og svo náttúrulega í bústaðinn. En þar undi hann sér best við að byggja hann upp, viðhalda og gróðursetja. Það tók mig næstum 10 ár að fá hann til að aka Vesturlandsveg norður til Akureyrar í stað þess að keyra austur yfir Hellisheiði í Grímsnesið. Hann var sáttur við ferðina en hafði á orði að þetta væri býsna löng leið miðað við að fara upp í bústað.

Gunnar var mikill græjukall og hafði einstakan áhuga á tækjum og tólum í eldhúsið, sem erfitt er að skilja þar sem kunnátta hans í eldhúsinu takmarkaðist við að sjóða pylsur. Á heimili þeirra var til brauðvél, kartöfluskrælari (rafmagns) og eggjasuðutæki svo eitthvað sé nefnt.

Síðustu ár höfum við ferðast mikið saman til Ungverjalands eftir að hann og Eva eignuðust þar íbúð og eins og í bústaðnum leið honum alltaf best ef sem flestir úr fjölskyldunni voru í kringum hann. Gunnar átti góða og hamingjuríka ævi og er hægt að óska sér einhvers betra? Farðu í friði, kæri vinur.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margt að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Sæmundur.

Elsku afi okkar.

Við finnum fyrir mikilli sorg á þessum tímum en það gleður okkur að hugsa um hvað þú varst góðhjartaður og hlýr. Það var alltaf jafn gaman að koma niður á Unnarbraut og heimsækja þig og ömmu, amma að baka lummur og þú að spjalla við okkur á meðan. Eitt af mörgu sem þú hefur kennt okkur er að samgleðjast öðrum og þú vildir alltaf öllum það besta.

Það var alltaf fjör í kringum þig og þú varst einstaklega laginn við að gleðja alla. Eins og þegar þú sagðir okkur að það þyrfti að hringja í kallinn í hliðinu, við sumó og við trúðum þér í langan tíma að það væri kall sem þyrfti að opna hliðið í hvert skipti sem maður kom að því.

Þú varst alltaf góður í að redda hlutunum og varst ekki mikið fyrir vesen, eins og þegar við vorum í Ungverjalandi í flottu óþægilegu skónum. Þá varst þú nú ekki lengi að leysa það vandamál og keyptir bara innlegg í skóna til að laga þá svo hægt væri að halda áfram með daginn.

Elsku besti afi, takk fyrir allar þær góðu minningar sem þú hefur gefið okkur og við eigum alltaf eftir að muna. Við munum alltaf sakna þín en vitum að þú ert með okkur og að fylgjast með. Góða skemmtun í ferðalaginu þínu. Bless, elsku afi.

Þínar afastelpur,

Bára, Brynja og Björk Sæmundsdætur.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég kom í heimsókn og við fórum beint út í bílskúr til afa. Þar var hann að vinna við að búa til hluti í rennibekknum sínum, alveg kominn í sinn eigin heim. Það var auðvelt að detta inn í þann heim með honum. Það var ekki hægt að fá leiða á því að horfa á hann vinna og hann kenndi mér margt um hitt og þetta. Ég fór heldur aldrei tómhent heim eftir að hafa setið með honum í bílskúrnum að vinna. Afi var þannig maður að hann heillaðist af því sem hann vann að og líka af því sem við gerðum. Honum fannst ekkert skemmtilegra en að sjá eða vita hvað við vorum að gera. Hann hvatti okkur alltaf áfram í því sem við vorum að gera. Afi var stoltur maður og hann var líka stoltur af okkur öllum. Afi var líka maður með sínar brellur, hann reddaði einhvern veginn öllu og sá aldrei hlutina sem flókna, hann fann sínar leiðir til að leysa það sem þurfti.

Elsku afi, takk fyrir allar þær minningar sem þú gafst mér. Ég mun alltaf muna eftir þeim.

Þín,

Rakel.

Það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til afa og ömmu og gista hjá þeim þegar ég var lítill. Einu sinni þegar ég var yngri og var í heimsókn í nýjum buxum, þá sagði afi við mig: „Marinó, fötin klæða suma, en þú klæðir fötin“ ég mun aldrei gleyma þessu hrósi, það hefur fylgt mér öll þessi ár og mun halda áfram að gera það. Ég man líka hvað afi elskaði sumó mikið, sérstaklega þegar öll fjölskyldan var þar yfir helgi. Ég minnist afa þar sem hann sat við kamínuna og bætti eldiviði í ofninn til að passa upp á að halda hita í húsinu, svona var afi alltaf að passa upp á að öllum liði vel og vildi hafa það notalegt. Afi var mikill dundari og fann sér nóg að gera í bústaðnum og ég fékk að vera þátttakandi í því sem hann var að gera. Mér fannst alltaf gott að sjá afa og ömmu þegar þau komu á tónleika hjá mér og hlustuðu á mig spila á gítarinn. Afi var stoltur af því sem ég gerði og hrósaði óspart. Ef ég get verið hálfur maðurinn sem hann var, þá verð ég á grænni grein.

Elsku afi minn, takk fyrir allar góðu stundirnar og minning þín mun lifa. Mér þykir svo vænt um þig.

Hvíldu í friði.

Þinn,

Marinó Bessi.

Elsku afi, Það er erfitt að hugsa til þess að nú sé kominn tími til þess að kveðja, því þú varst ekki bara afi minn, þú varst miklu meira en það, þú varst vinur minn. Ég hugsa oft til þess hvað ég var ótrúlega heppin að hafa alist upp á hæðinni fyrir ofan ykkur ömmu, það gerði lífið og tilveruna miklu skemmtilegri.

Þú varst alltaf til staðar og fylgdist með því sem ég gerði af miklum áhuga. Sama hvað það var sem ég tók mér fyrir hendur. Ég man hvað mér fannst gaman að hlaupa niður og sýna þér þegar ég keypti mér eitthvað fallegt, þú sýndir því alltaf áhuga.

Þú varst alltaf að gera eitthvað sniðugt, eins og dúkkuhúsið sem þú bjóst til. Þetta er fallegasta dúkkuhús sem ég hef séð og lengi vel var það jafn stórt ef ekki stærra en ég. Síðan fékkst þú hugmyndina að gera það stærra, þannig að við límdum spegil inn í húsið svo það leit út fyrir að vera ennþá stærra en það var.

Það var líka notalegt að kíkja niður og spjalla, við spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Mér fannst alltaf skemmtilegt þegar þú sagðir mér sniðugar sögur frá því þegar þú varst lítill, eftirminnileg saga sem þú sagðir mér var þegar þú skrópaðir í skólanum og fórst á skauta á tjörninni og veifaðir síðan til kennarans þegar hann leit út um gluggann.

Ég sakna þess mest af öllu að kíkja niður til þín og ömmu á kvöldin og spjalla og fá okkur ávaxtadjús. Það voru mínar uppáhaldsstundir, að sitja niðri, spjalla og drekka djús. Dagurinn var ekki búinn fyrr en við vorum búin að fá okkur djús, djúsinn sem var, eins og við sögðum alltaf, „betri í dag en í gær“.

Núna er víst kominn tími til þess að kveðja og það er ótrúlega erfitt að hugsa til þess. En ég er líka svo þakklát fyrir allar samverustundirnar sem við áttum og ég mun geyma þessar minningar í hjarta mínu alla ævi. Ég veit samt að einn daginn munum við hittast aftur og þá fáum við okkur djús og tökum gott spjall, en þangað til lofa ég að passa upp á ömmu. Bless, elsku afi, vinur, takk fyrir allt, eins og við sögðum alltaf, takk fyrir daginn, við sjáumst á morgun.

Minning um yndislegan afa lifir.

Signý.

Ég kveð afa minn í hinsta sinn og minningarnar streyma fram, bæði frá æskuárunum og fram á þennan dag. Það var yndislegt að koma til afa og ömmu sama hvar það var, á Unnarbrautinni, í sumó eða í Ungverjalandi. Hlýja brosið, innilegi hláturinn og stríðnisglottið vantaði aldrei þegar afi var nálægt. Hann átti endalausar sögur bæði af sjálfum sér og öðrum sem einstakt var að hlusta á. Ég man hvað það var gaman að kíkja til hans í bílskúrinn og sjá hvað hann var að bardúsa, það var alltaf eitthvað sem hann var að búa til. Upp í sumó fannst honum skemmtilegast að vera og ekki síst þegar öll fjölskyldan var þar samankomin. Minningarnar um hann fyrir framan kamínuna að kynda húsið, á traktornum að slá grasið eða leika við barnabörnin eru margar.

Elsku afi, ég er svo þakklát fyrir að þú hafir verið hjá okkur eins lengi og þú varst. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt svona einstakan, góðan og duglegan afa eins og þig sem ég get kallað fyrirmyndina mína.

Þegar ég hugsa til baka á ég ótal minningar sem munu seint gleymast, þær eru mér afar dýrmætar og mun ég geyma þær í hjarta mínu alla ævi.

Faðir og vinur alls, sem er,

annastu þennan græna reit.

Blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

(Jónas Hallgrímsson)

Ég á alltaf eftir að sakna þín, afi.

Þín,

Eva Björt.

Elsku Gunnar afi.

Það er mér þungbært að koma orðunum frá mér á þessari kveðjustund. Hugurinn fer ósjálfrátt í ferðalag aftur til barnæskunnar, og ég hugsa til samverustundanna. Það hefur verið mér svo gæfuríkt að hafa átt ykkur Evu ömmu að. Þessi sterku bönd sem hafa verið til staðar allt frá upphafi eru mér ólýsanlega mikilvæg. Það er ekki sjálfgefið að upplifa slíkt og lít ég svo á að örlögin hafi spilað þar inn í, fremur en tilviljanir. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát af öllu mínu hjarta.

Afi sýndi einlægan áhuga, gaf sér góðan tíma fyrir spjall og það var auðséð hvað það var honum mikilvægt að vera með á nótunum hvað var að gerast hjá fólkinu sínu hverju sinni óháð aldri eða störfum. Hann sýndi áhuga sinn bæði í orðum og verki allt fram undir það síðasta.

Það er einn staður sem stendur upp úr þegar hugurinn leitar til afa, það er sumó. Bryndís María og Kormákur Hrafn voru varla byrjuð að tala þegar þau óskuðu þess heitast að fara upp í sumó. Það segir allt sem segja þarf. Í sumó er einstaklega gott að vera og þar hefur stórfjölskyldan búið sér til ótal dýrmætar minningar í gegnum árin. Á mínum yngri árum fór ég með afa og ömmu í sumó í öllum veðrum og vindum. Mér er það minnisstætt í þau skipti þegar það var ófært vegna snjóþyngsla og við notuðumst við snjósleða og gönguskíði til að komast alla leið að húsi. Þá kom sér vel hvað afi var lausnamiðaður og leit á hindranirnar með opnum og jákvæðum huga. Það munum við taka með okkur í verkfærakistuna þegar við mætum lífsins verkefnum. Afi var sniðugur maður, eitt af því sem hann kenndi mér þegar ég krakki voru gamanvísur sem mér fundust mjög skemmtilegar. Það var svo eftirminnilegt hvernig afi galdraði vísurnar fram eina af annarri með sinni snilligáfu og því látbragði sem fylgdi gjarnan með. Einhverjar þeirra man ég enn í dag og fer með fyrir börnin mín við mikla hrifningu þeirra. Er viss um að áhugi á kveðskap hafi kviknað í kjölfarið, sem síðar varð til háfleygra ljóðayrkinga á unglingsárunum. Börnin tala mikið um þig og það á eftir að taka þau tíma að átta sig almennilega. Þeim finnst gott að hugsa til þess að þú vakir yfir okkur og á kvöldin segja þau að þú kúrir með þeim eins og bangsarnir. Þau tala líka um það hvað það var gaman að leika með þér og þeim fannst sérstaklega gott að hafa þig með á gamlárskvöld.

En hér skilur leiðir í þessum heimi. Við söknum þín sárt, í huga og hjarta okkar fjölskyldunnar áttu þinn stað.

Hjartans þakkir fyrir allt, elsku afi. Við tökum allt það góða sem þú færðir okkur áfram inn í lífið og erum þakklát fyrir dýrmætar stundir sem við áttum með þér um síðustu jól.

Minning um þig, elsku afi, einstakan, hlýjan og glaðlyndan mann mun fylgja okkur um ókomna tíma.

Þín ástkæru,

Jóhanna, Birkir Hrafn, Bryndís María og

Kormákur Hrafn.

Elsku afi.

Takk fyrir allt. Allar góðu minningarnar, allar góðu stundirnar sem við áttum og allt það sem við brölluðum saman í gegnum tíðina. Núna ertu farinn á annan og betri stað í faðm systkina, foreldra og vina en þín verður sárt saknað hér.

Það var aldrei dauð stund hjá okkur þegar við tókum okkur eitthvað fyrir hendur. Hvort sem það var að glíma við stærðarinnar púsl, græja eitthvað úti í bílskúr, skjótast upp í sumó eða bara sitja niðri og spjalla um lífið og tilveruna og rifja upp gamla tíma yfir kaffibolla, djús eða appelsínu. Þessar samverustundir voru svo sannarlega ómetanlegar og eru minningar sem munu fylgja mér út lífið.

Ég er svo óendanlega þakklátur fyrir allt sem þú kenndir mér. Ein af mínum fyrstu minningum er þegar þú kenndir mér að hjóla, settir spotta í hjólið og hljópst svo með mig um Unnarbrautina þangað til mér tókst að hjóla sjálfur. Eða þegar þú kenndir mér að keyra upp í sumó og sagðir mér að keyra aðeins lengra, fyrst út að ruslagámi og svo út að Þrastarlundi. Þú kenndir mér að meta fallega hönnun og list og hvernig mætti með smá útsjónarsemi búa til nýja hluti eða endurlífga gamla hluti. Það þarf nefnilega ekki alltaf að henda hlutum þó þeir séu orðnir gamlir.

Það má segja að þú hafir gegnt töluvert stærra hlutverki í uppeldi mínu en bara að vera afi minn. Þú varst mín helsta fyrirmynd og besti vinur. Þú hafðir alltaf fulla trú á því sem ég tók mér fyrir hendur sama hversu sniðugt það var, sýndir öllu sem ég gerði áhuga og hvattir mig alltaf áfram. Þú sinntir öllu sem við gerðum af fullum áhuga hvort sem það var að smíða playmo-kastala eða að gera upp gamla úrið þitt svo ég gæti fengið það.

Það er erfitt að horfa til baka og hugsa til þess að þessar góðu stundir verði ekki fleiri að sinni. En minningarnar lifa áfram og ég mun gera mitt besta til að lifa eftir þeim lífsgildum sem þú kenndir mér. Ég lofa að passa uppá ömmu og halda stólnum þínum heitum. Þó að leiðir okkar skilja í bili þá er það víst að við tökum upp þráðinn yfir kaffibolla eða djús næst þegar við hittumst.

Þinn nafni,

Gunnar Ben.

Það er ekki hægt að minnast Gunnars móðurbróður míns nema með hlýju, en móðir mín Kristín og Gunnar voru sammæðra. Gunnar var yngstur af fimm hálfsystkinum mömmu og það var mjög kært á milli þeirra. Hann var heimagangur hjá foreldrum mínum. Honum fannst gott að koma í hádegi á sunnudögum þegar við borðuðum lambalæri og emmess ís með niðursoðnum ávöxtum, því þá bjó hann einn og fannst gott að fá góðan mat. Hann gantaðist við okkur og gat verið stríðinn. Hann kom með líf og gleði á vespunni sinni og síðar á drapplitum litlum bíl. Stundum kom hann með ömmu Sigríði Olgu aftaná vespunni og hún klædd í peysuföt með flaksandi pilsfald og skotthúfu og þau bæði jafn sæl.

Það var alltaf bjart í kringum Gunnar.

Gunnar lærði smíðar og fór síðar til Kaupmannahafnar og lærði innanhússarkitektúr. Hann er einn af áhrifavöldunum að því að ég fetaði svipaðar slóðir. Þegar Gunnar kom í heimsókn þá var hann oft með góðar hugmyndir um hvernig best væri að hagræða og breyta heimilinu svo öllum liði betur. Eftir heimsóknir hans gat allt heimilið verið breytt og hann og mamma jafn ánægð með niðurstöðuna. Þegar pabbi kom síðan heim, spurði hann: „Var Gunnar í heimsókn?“ Þetta voru skemmtilegar heimsóknir og gáfu mér sem barni þá sýn að það væri alltaf hægt að finna betri lausnir.

Gunnar vann lengi hjá Húsameistara ríkisins. Þegar ég fór í framhaldsnám vann ég í sumarvinnu á sama stað og fékk að vera við hliðina á Gunnari. Hann tók mér vel og fræddi mig um eitt og annað sem gott var að vita, fór með mig á framkvæmdarstaði og þar sá ég hvernig hann nálgaðist alla aðila með sama jákvæða viðmótinu og hann var alltaf til í að finna góðar lausnir.

Gunnar tókst á við lífið með jákvæðu hugarfari, það var ekki alltaf auðvelt, en vandi og mótlæti voru til að sigrast á. Hann sá það góða í umhverfinu og í fari fólks og ástæðulaust að staldra við annað. Gunnar hafði góða nærveru, mér leið alltaf vel í návist hans. Hugarfar hans var með þeim hætti.

Ég minnist Gunnars móðurbróður míns með hlýju og þakklæti og við Ólafur sendum Evu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Þórdís Zoëga.

Í dag kveðjum við Gunnar Ingibergs, góðan vin til margra ára.

Þegar við vorum að byggja í Bökkunum árið 1974, keyptu Gunnar og Eva fokhelt raðhús í götunni fyrir neðan okkur og nánast á fyrsta degi hófust hin góðu kynni sem hafa enst fram á þennan dag.

Dag einn þegar við vorum að skafa mótatimbur kom Gunnar að máli við mig og sagðist öfunda mig af þessum duglega strák í grænu úlpunni sem var alltaf að hjálpa mér í byggingunni. Þá fékk ég ekki varist brosi og sagði að þetta væri hún Lára mín.

Meðan á framkvæmdum stóð komu upp mörg mál sem þurfti að ræða og leysa og var þá gjarnan gripið fyrsta lausa blaðið sem var við höndina. Því auðveldara var að rissa vandamálið upp en bara að tala um það. Oftar en ekki var það Morgunblaðið sem varð fyrir valinu og varð það svo útkrotað að Eva kvartaði yfir að hún hefði ekki verið nógu fljót að ná blaðinu meðan hægt var að lesa það.

Þegar byggingum var að mestu lokið og báðar fjölskyldurnar fluttar inn fórum við að fara saman í leikhús og gerum það enn. Eftir leiksýningu skiptumst við á að halda kaffisamsæti með veglegum veitingum og skemmtilegum umræðum. Einnig höfum við farið saman í ferðir til fjarlægra landa og eru það ógleymanleg ævintýri.

Gunnar var skemmtilegur og kær vinur sem við söknum sárt.

Við vottum Evu og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð

Lára og Jón Leifur.

Þegar Gunnar Ingibergsson innanhúsarkitekt kveður, 85 ára gamall, eftir allnokkur veikindi, er rétt og skylt að þakka góð áratuga kynni og samstarf. Samvinna við Gunnar Ingibergsson var ávallt ánægjuleg og gefandi, enda þolinmæði hans, skilningur og lipurð einstæð, svo og hið létta skap sem honum var áskapað. Það var ótvírætt sammæli allra sem unnu með Gunnari Ingibergssyni á skrifstofu Alþingis að þar færi ljúfur maður og greiðvikinn, og öllum þótti vænt um hann. Ég veit ekki til að nokkur maður þar á bæ hafi nokkurn tíma hallmælt honum eða átt í útistöðum við hann og áttum við þó öll mikið undir honum komið hvernig okkur leið í vinnunni og hvaða aðstæður okkur voru búnar á vinnustað.

Þegar Gunnar hafði lokið námi sínu í innanhúsarkitektúr í Danmörku réðst hann til húsameistara ríkisins og kom þá brátt í hlut hans með öðru að sinna Alþingi um verklegar framkvæmdir, viðhald húsa og húsbúnaðar, lagfæringar í þingsal, viðbótarhúsnæði fyrir nefndir og þingmenn og önnur verkefni sem þingið færðist á hendur, Norðurlandaráðsþing, lýðveldishátíð, forsetainnsetningar og svo framvegis. Yfir þessu var Gunnar vakinn og sofinn og öll viðfangsefni leysti hann af hendi svo að sómi var að og við hæfi Alþingis. Gunnar var listamaður en líka hófsmaður að öllu leyti, praktískur og útsjónarsamur. Þegar embætti húsameistara rifaði seglin og það var síðar lagt niður réðst Gunnar til Alþingis í fast starf sem umsjónarmaður húseigna þess og innanhúsarkitekt.

Verka Gunnar Ingibergssonar sér víða stað, en mest þó í Alþingishúsinu og öðrum byggingum þess. Húsbúnaður í þingsalnum er hans verk, þótt vissulega sé byggt á gamalli hefð. Ég átti leið um fundaherbergi ríkisstjórnarinnar nýlega og viti menn: hinir eftirsóttu stólar við það borð eru eftir Gunnar!

Eins og öðrum ríkisstarfsmönnum bar Gunnari að hætta um sjötugt, en svo fór að hann var með okkur á skrifstofunni í ráðum og með umsjón verkefna alveg fram á síðustu ár. Fyrir fjórum árum eða svo hannaði hann nýjan og endurgerðan ræðustól í þingsalinn svo að fatlaðir kæmust þangað líka. Við munum seint gleyma fasi hans og framkomu þar sem hann stendur einbeittur með málbandið í hendi, skimar í kringum sig eftir hagkvæmum lausnum, hallar sér fram og gerir skissu á smjörpappír til að undirbúa hreinteiknun. Svo réttir hann úr sér og brostir sínu hlýlega brosi með öllu andlitinu. Úrlausnin var alltaf smekkleg enda hafði hann unun af góðri hönnun.

Þegar Gunnar Ingibergsson hverfur til moldarinnar hvarflar hugurinn til hans elskulegu og umhyggjusömu eiginkonu, Evu, og myndarlegra barna þeirra og annarra afkomenda og aðstandenda. Þau eiga samúð okkar samverkamanna hans. Gott er góðra að minnast.

Helgi Bernódusson.