[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lyftingar Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Júlían J. K.

Lyftingar

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Júlían J. K. Jóhannesson, heimsmethafi í réttstöðulyftu í kraftlyftingum með búnaði, meiddist í baki á æfingu fyrir nokkrum vikum og þurfti því að draga sig út úr keppni á Reykjavíkurleikunum sem fram fara í Laugardalnum þessa dagana. Júlían var vitaskuld svekktur að missa af leikunum en hann ætlar sér stóra hluti á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi sem fram fer í maí.

„Það er mjög svekkjandi að vera ekki að keppa hérna af því að Reykjavíkurleikarnir eru eitt af uppáhaldsmótum mínum. Þetta er alþjóðlegt mót, í bakgarðinum heima hjá manni, og það er mjög leiðinlegt að missa af þessu en í staðinn fæ ég það skemmtilega hlutverk að lýsa þessu í beinni útsendingu, sem er ágætis sárabót fyrir mig.“

Júlían ætlaði sér stóra hluti á Reykjavíkurleikunum en hann ítrekar að þótt hann sé svekktur með að missa af mótinu sé hann ánægður með þá ákvörðun að draga sig út úr keppni.

Engin meðalmennska

„Ef ég væri að keppa núna þá væri ég í góðum séns að blanda mér í baráttuna um efstu sætin, það er alveg á hreinu. Ég ætlaði mér stóra hluti á þessu móti en ég tognaði í baki á æfingu fyrir nokkru og ég bólgnaði allur upp og átti erfitt með hreyfingar. Ég er betri í dag en ég var en er samt ekki í nægilega góðu standi til þess að keppa. Ég hefði getað látið reyna á þetta í dag og hefði þá kannski þurft að sætta mig við einhvern meðalárangur. Að sama skapi hefði ég ef til vill þurft að fórna næsta mánuði í sjúkraþjálfun og ég var ekki tilbúinn í það.“

Það er nóg fram undan hjá þessum öfluga kraftlyftingamanni og hann er einbeittur í að gera vel á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi sem fram fer í maí á þessu ári.

Mikið álag á líkamann

„Evrópumótið er í maí og stundum þarf maður að forgangsraða í þessari íþrótt. Ég er skráður til leiks á Evrópumeistaramótið og svo er það heimsmeistaramótið í Dubai í nóvember og þetta er tvö stærstu mótin sem eru fram undan hjá mér. Ég tók þá ákvörðun, eftir síðasta ár, að keppa sjaldnar í ár en á síðasta ári þegar ég tók þátt í sex stórum mótum. Eftir að hafa dregið mig út úr keppni á Reykjavíkurleikunum minnkar þetta ennþá meira hjá mér en ég ætla að reyna að taka þátt í einu móti í sumar hérna heima á Íslandi ef allt gengur að óskum. Það er búin að vera löng og strembin æfingakeyrsla á mér og kannski var bara kominn tími til þess að skrúfa þetta aðeins niður. Það er búið að vera mikið álag á mér undanfarna mánuði og þessi meiðsli sem ég varð fyrir eru í raun bara afleiðing þess,“ sagði Júlían J. K. Jóhannsson í samtali við Morgunblaðið.