Sterkur Finninn Antti Kanervo hefur spilað mjög vel í vetur og skoraði hann 19 stig í sannfærandi sigri Stjörnunnar á Keflavík í Garðabænum í gær.
Sterkur Finninn Antti Kanervo hefur spilað mjög vel í vetur og skoraði hann 19 stig í sannfærandi sigri Stjörnunnar á Keflavík í Garðabænum í gær. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Stjarnan vann sanngjarnan 99:83-heimasigur á Keflavík í lokaleik 15. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi.

Í Garðabæ

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Stjarnan vann sanngjarnan 99:83-heimasigur á Keflavík í lokaleik 15. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Þegar þrjár mínútur voru eftir var munurinn ekki nema sex stig, en Stjörnumenn voru yfir nánast allan leikinn og sigldu þeir að lokum sannfærandi sigri í hús. Stjarnan komst yfir í fyrsta skipti um miðjan fyrsta leikhluta og voru Keflvíkingar ekki sérstaklega líklegir til að jafna eftir það. Frammistaða Stjörnuliðsins var mjög heilsteypt og margir leikmenn stóðu fyrir sínu. Brandon Rozzell, Antti Karnervo og Ægir Þór Steinarsson áttu allir mjög góðan leik og skoraði Rozzell 36 stig, þótt fyrstu stigin hafi ekki komið fyrr en um miðjan annan leikhluta. Um leið og fyrsta skotið fór ofan í varð hann sjóðheitur. Breiddin er mikil hjá Stjörnunni og gat Arnar Guðjónsson, þjálfari liðsins, leyft sér að gefa lykilmönnum sínum mikilvæga hvíld þegar á þurfti. Hinum megin skoraði Litháinn Mindaugas Kacinas 30 stig og tók 10 fráköst, en aðrir leikmenn voru nokkuð frá sínu besta. Hörður Axel Vilhjálmsson lét mjög lítið fyrir sér fara í fyrri hálfeik og Gunnar Ólafsson spilar oftast betur. Reggie Dupree hefur svo engan veginn náð sér á strik á tímabilinu. Vopnabúr Stjörnunnar er stærra og er engin tilviljun að liðið er búið að vinna sjö leiki í röð í deildinni. Keflavík hefur á sama tíma verið að hiksta. Sérstaklega gengur illa á móti sterkari liðum deildarinnar og er Keflavík einfaldlega skrefi fyrir aftan þau allra bestu. Gunnari Ólafssyni var vikið út úr húsi fyrir ljóta framkomu í kjölfar þess að hann fékk óíþróttamannslega villu dæmda á sig í blálokin. Gunnar lét dómarana heyra það og var ógnandi í garð þeirra. Hann fékk verðskuldaðan reisupassa fyrir vikið. Eins og áður hefur komið fram átti Gunnar ekki sinn besta dag og lét hann skapið hlaupa með sig í gönur. Gunnar er ungur og lærir vonandi af þessu.

Stjarnan – Keflavík 99:83

Mathús Garðabæjar höllin, úrvalsdeild karla, Dominos-deildin, sunnudaginn 27. janúar 2019.

Gangur leiksins: 2:9, 10:13, 16:13, 20:13 , 32:15, 35:23, 42:30, 47:39 , 56:48, 62:56, 69:60, 74:62 , 78:67, 83:70, 85:79, 99:83 .

Stjarnan: Brandon Rozzell 32/6 stoðsendingar, Antti Kanervo 19, Ægir Þór Steinarsson 14/13 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 14/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 12, Hlynur Elías Bæringsson 5/10 fráköst, Filip Kramer 2/8 fráköst, Dúi Þór Jónsson 1.

Fráköst: 21 í vörn, 13 í sókn.

Keflavík: Mindaugas Kacinas 30/10 fráköst/5 stoðsendingar, Michael Craion 22/9 fráköst/8 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 13/4 fráköst/8 stoðsendingar, Gunnar Ólafsson 8, Magnús Már Traustason 6, Reggie Dupree 4.

Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson.

Áhorfendur: 507.